1920-1960

Meðvitund um hinseginleika jókst en um leið þurfti að fela hann svo heimildum um hinsegin kynverund kvenna fækkar.

Á þessu tímabili jókst mjög þekking á og meðvitund um samkynhneigð og annars konar hinseginleika, bæði á Íslandi og erlendis, sem hafði ýmsar afleiðingar. Fólk gat í auknum mæli nálgast upplýsingar um kynferðismál í íslenskum bókum og tímaritum og einstaklingar sem löðuðust að sama kyni gátu samsamað sig sam- eða tvíkynhneigðri sjálfsmynd. Um leið varð þó fordæming og jaðarsetning hinsegin fólks og hinsegin kynverundar meira áberandi og áhrifameiri. Ásta Kristín Benediktsdóttir hefur t.d. bent á að opinber umræða um samkynhneigð meðal íslenskra karla jókst mjög upp úr 1950 og varð um leið mun grimmari og óvægnari.

Allt ofangreint átti frekar við um karla en konur þar sem umræða um og meðvitund um hinsegin kynverund snerist fyrst og fremst um þá. Lítið sem ekkert var opinberlega fjallað um íslenskar konur í þessu samhengi, sem líklega veitti hinsegin konum skjól að einhverju leyti í samanburði við hinsegin karla. Þó er ljóst er að í slíku andrúmslofti fer ýmislegt að vekja tortryggni sem áður þótti fullkomlega eðlilegt. Þetta gæti verið ein af orsökum þess að heimildir um hinsegin konur frá þessu tímabili eru að vissu leyti nokkuð frábrugðnar heimildum frá fyrri tímabilum. Eftir 1920 eru til dæmis fáar heimildir varðveittar um kvenkyns lífsförunauta og rómantísk sambönd kvenna. Ástæðan er ekki aðeins að þær hafi haft færri möguleika til að lifa þess konar lífi heldur er einnig ljóst að farið var að fela slík sambönd og allt það sem mögulega var hægt að tengja við samkynhneigð. Það sést t.d. á minningargreinum um konurnar sem um ræðir og augljósum eyðum í heimildum sem gefa til kynna að persónulegum skjölum hafi verið eytt. Þannig virðist tækifærum til að lifa hinsegin lífi fyrir nokkuð opnum tjöldum hafa fækkað á þessu tímabili.

Minni sýnileika kvenna í hinsegin samböndum á tímabilinu má einnig vafalaust að einhverju leyti rekja til aukinnar íhaldssemi í jafnréttismálum á þriðja áratug 20. aldar sem olli því m.a. að hugmyndir kvennahreyfingarinnar um sjálfstæði kvenna og þátttöku þeirra í opinberu lífi biðu talsverðan hnekki, eins og sagnfræðingurinn Sigríður Matthíasdóttir hefur rekið. (bls. 243–315)  Listir voru aftur á móti, líkt og á fyrri tímabilum, rými fyrir hinsegin ástir og hinsegin kynverund. Það má e.t.v. rekja til þess hversu alþjóðlegur listheimurinn var en hinseginleiki kvenna á þessu tímabili hafði sterk tengsl við útlönd sem buðu upp á möguleika sem voru síður til staðar á Íslandi.

Heimildalisti

Ásta Kristín Benediktsdóttir. „„Sjoppa ein við Laugaveginn […] hefur fengið orð á sig sem stefnumótsstaður kynvillinga.“ Orðræða um illa kynvillinga og listamenn á sjötta áratug 20. aldar.“ Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir. Reykjavík: Sögufélag, bls. 147–183.

Þagnir í heimildum

Þegar saga hinsegin kynverundar kvenna fram undir lok 20. aldar er skoðuð er nauðsynlegt að lesa ekki aðeins í þær heimildir sem til eru og velta vöngum yfir þeim sem ekki eru til staðar heldur einnig skoða hvers konar heimildir hverfa af sjónarsviðinu. Á fyrstu...

Útlönd

Margar af þeim konum sem fjallað er um á þessum vef eiga það sameiginlegt að hafa dvalið erlendis í lengri eða skemmri tíma. Íslendingar ferðuðust fæstir út fyrir landsteinana á 17. og 18. öld og allra síst íslenskar konur. Það var helst á færi örfárra stúdenta og...

Stéttarstaða og hinseginleiki

Þegar saga hinsegin kynverundar kvenna allt fram undir lok 20. aldar er skoðuð kemur glöggt í ljós að nauðsynlegt er að lesa ekki aðeins í þær heimildir sem til eru, heldur einnig velta vöngum yfir þeim heimildum sem ekki eru til staðar og skoða þá hópa sem skildu...

Rómantík og tilfinningar

Eitt af einkennum tímabilsins fram til 1900 er mikill skortur á heimildum eftir konur þar sem þær lýsa eigin tilfinningum og löngunum. Við lok 19. aldar fer þó að tíðkast að fólk, sérstaklega af heldri stéttum, haldi dagbækur og skrifist reglulega á við kunningja,...

Piparjúnkur og sjálfstætt líf

Við upphaf 20. aldar var allstór hópur ógiftra kvenna búsettur í bæjum landsins, ekki síst í Reykjavík. Ólöf Garðarsdóttir og Gísli Ágúst Gunnlaugsson hafa bent á að þéttbýlið bauð konum upp á ýmsa möguleika til að sjá fyrir sér og sínum, t.d. með handavinnu, kennslu...

Listir

Hinsegin sagnfræðirannsóknir á Vesturlöndum hafa leitt í ljós að listsköpun og menning í kringum listir hefur gjarnan skapað rými fyrir óhefðbundna kynhneigð, kyntjáningu og kynvitund. Um þetta má meðal annars lesa í riti Christophers Reed, Art and Homosexuality: A...

Lífsförunautar

Við aldamótin 1900 var alvanalegt að konur byggju saman í þéttbýli í Evrópu. Aukin þéttbýlismyndun í álfunni varð ekki síst fyrir tilstilli kvenna sem áttu meiri möguleika á að sjá fyrir sér og lifa sjálfstæðu lífi í krafti ýmiss konar launavinnu sem var af skornum...

Lesbíur og kynvilla

Erfitt er að segja til um hvenær Íslendingar fóru að nota orð á borð við lesbía, kynvilla, samkynhneigð, tvíkynhneigð o.s.frv. til að lýsa hinsegin konum og kynverund þeirra. Að sama skapi vitum við fátt um upplifun kvenna af slíkum hugtökum á því tímabili sem hér um...

Kvennahreyfingin

Þegar litið er yfir heimildir um hinsegin kynverund kvenna á fyrri hluta 20. aldar blasir við að kvennahreyfingin, þ.e. vinna í þágu kvenna sem var hluti af gróskumiklu félagsstarfi kvenna í kringum aldamótin 1900, var eitt þeirra rýma þar sem hinseginleiki fékk að...

Eyður

Þegar saga hinsegin kynverundar kvenna allt fram undir lok 20. aldar er skoðuð er nauðsynlegt að lesa ekki aðeins í þær heimildir sem til eru heldur rýna einnig í þagnirnar. Hvaða heimildir voru varðveittar? Hvaða heimildir varðveittust ekki? Var heimildum fargað?...