notkun heimilda

Allt efni á þessum vef er unnið af Ástu Kristínu Benediktsdóttur, Hafdísi Erlu Hafsteinsdóttur og Írisi Ellenberger og eru þær jafnframt ábyrgðarmenn hans. Öllum er heimilt að nota efni af vefnum en þá skal þess gætt að vísa til hans og/eða heimildanna sem um ræðir.

Dæmi um tilvísun í efni á vefnum:

Vef. Ásta K. Benediktsdóttir, Hafdís E. Hafsteinsdóttir og Íris Ellenberger, „Sjókvenska“, Huldukonur. Hinsegin kynverund kvenna á Íslandi fyrir 1960. Slóð: https://huldukonur.is/sjokvenska/.

Markmiðið er ekki að birta hér rannsóknaniðurstöður heldur safna saman heimildum og gera þær aðgengilegar fyrir fólk sem vill fræðast um og stunda rannsóknir á hinsegin kynverund kvenna á tímabilinu 1700–1960. Því er mælst til þess að heimildirnar sjálfar séu lesnar og vísað í þær, frekar en umfjöllun á þessum vef, þegar kostur er og samhengi gefur tilefni til.

Fletturnar á vefnum, sem flokkaðar eru eftir þemum og tímabilum, eru í þremur hlutum. Kynning á heimildum (heimildir) er stutt umfjöllun um heimildirnar sem um ræðir og það sem kemur fram í þeim. Í heimildalista eru síðan upplýsingar um hvar heimildirnar er að finna. Í þessum tveimur hlutum er að finna almennar upplýsingar sem nemendur og fræðimenn geta nýtt sem upphafspunkt frekari rannsókna á heimildunum og efninu sem um ræðir.

Þriðji hlutinn er efnisleg umfjöllun um heimildirnar (túlkun og samhengi). Þar er fjallað um áhugaverðustu viðfangsefni heimildanna í þeim tilgangi að sýna hvernig hægt er að lesa þær og túlka. Einnig eru kynnt til sögunnar nokkur grundvallarhugtök í hinsegin fræðum og sýnt hvernig nota má þau til að rýna í sögulegar heimildir. Þessi umfjöllun er því dæmi um nálgun og notkun heimilda og fræðilegra kenninga og hana geta nemendur og fræðimenn haft til hliðsjónar við sams konar umfjöllun um annað efni og aðrar heimildir.

Sjá einnig nánari upplýsingar um heimildirnar og heimildalista yfir allar heimildir sem notaðar eru á þessum vef.