Um Heimildirnar

Við framkvæmd verkefnisins Huldukonur var ólíkum aðferðum beitt við að afla heimilda um hinsegin kynverund kvenna á tímabilinu 1700–1960. Í upphafi settum við upp einfalda vefsíðu þar sem verkefnið var kynnt og óskað eftir upplýsingum og í gegnum hana fengum við allmargar ábendingar. Einnig höfðum við beint samband við skjalaverði, fræðafólk, grúskara og annað fólk sem okkur fannst líklegt til að hafa rekist á heimildir sem myndu nýtast okkur. Þá hafði fólk samband við okkur með ýmsum leiðum þegar fréttir af verkefninu spurðust út, t.d. eftir umfjöllun í fjölmiðlum eða kynningarfyrirlestra. Við fylgdum ábendingum eftir með því fara í heimildir og skjalasöfn eða nýta okkur þá fjölmörgu gagnagrunna sem finna má á netinu, t.d. Manntal.is, sóknarmannatöl á vef Þjóðskjalasafns Íslands, Skjalaskrar.skjalasafn.is, og Bæjarskrá Reykjavíkur á Timarit.is. Einnig fórum við á stúfana og gerðum stikkprufur ef við höfðum tilfinningu fyrir því að heimildir um hinsegin kynverund kvenna leyndust á tilteknum stað.

Afrakstur heimildasöfnunarinnar er að finna á þessum vef og í heimildalista eru upplýsingar um þær heimildir sem við lásum og notuðum. Sá listi yfir heimildir um hinsegin kynverund kvenna er ekki tæmandi og það efni sem birtist á vefnum er alls ekki lokaniðurstöður verkefnisins. Ekki gafst tími eða færi til að elta allar ábendingar og mögulegar heimildir en vonir standa til þess að sú vinna geti haldið áfram og meira efni verði bætt á vefinn í tímans rás.

Á vefnum eru aðallega ritheimildir en af ólíkum toga þó. Einkaskjöl varðveitt á Borgarskjalasafni Reykjavíkur og Kvennasögusafni Íslands eru viðamikill heimildaflokkur. Þar er aðallega um að ræða dagbækur og bréf en einnig vísur, póstkort og jafnvel hárlokka. Þá hefur ýmislegt verið ritað um hinsegin kynverund kvenna í handrit sem varðveitt eru á handritadeild Landsbókasafns Íslands. Þau eru margvísleg að efni, allt frá dagbókum og endurminningum til sögulegra æviágripa íslenskra presta. Blaða- og tímaritsgreinar skipa einnig veglegan sess, sérstaklega dánartilkynningar, minningargreinar, afmælisgreinar og viðtöl. Fjölbreyttur flokkur prentaðra bóka kemur einnig við sögu á þessum vef, svo sem ævisögur, vísnabækur, kynlífsleiðarvísar og þjóðfræðiefni ýmiss konar á borð við sagnaþætti, sagnasöfn og þjóðsögur.

Langflestar heimildirnar voru festar á blað við lok 19. aldar og á 20. öld. Þær heimildir sem fjalla um hinsegin kynverund á 18. og 19. öld voru því oft ritaðar mörgum áratugum eftir að konurnar voru uppi. Heimildir um þennan tíma eru sjaldnast ritaðar af konunum sjálfum heldur af körlum sem minntust þeirra eða höfðu heyrt sögur um þær. Sumar heimildanna eru því fyrst og fremst til vitnis um samfélagsleg viðhorf gagnvart óhefðbundnum kynhneigðum, kynvitundum og kyntjáningu fremur en persónulega reynslu. Fletturnar á þessum vef sýna okkur þó hvernig hægt er að nota heimildir til að rýna í ríkjandi hugmyndir um karlmennsku og kvenleika, sem og samfélagsleg viðhorf til kvenna sem ögruðu viðteknum viðmiðum í þeim efnum.

Eftir því sem við færumst nær 20. öldinni fjölgar heimildum frá konunum sjálfum, t.d. bréfum, sjálfsbókmenntum og viðtölum sem tekin voru við sumar þeirra við hátíðleg tækifæri. Þær heimildir eru þó sjaldan ýkja berorðar um kynverund kvennanna sjálfra sem yfirleitt skrifa um ástar- og kynferðismál undir rós. Á vefnum kemur þó fram hvernig beita má hinsegin túlkun á þessar heimildir til að laða fram ýmislegt um hinsegin kynverund og hinsegin rými, svo dæmi séu tekin. Einnig er fjallað um hvernig takast má á við og lesa í þær þagnir og eyður sem eru áberandi í íslenskum heimildum um hinsegin kynverund kvenna.