Hinsegin sagnfræði og saga kynverundar

Hinsegin sagnfræði og saga kynverundar eru fræðigreinar sem hafa rutt sér til rúms í Evrópu og Norður-Ameríku á síðustu áratugum. Upphaf þeirra má rekja til grasrótarsagnfræðinga 7. og 8. áratugar 20. aldar sem voru undir miklum áhrifum frá frelsishreyfingu homma og lesbía. Til að byrja með var hinsegin sagnfræði tengd grasrótinni og eitt helsta markmið hennar var að styðja baráttu hinsegin fólks fyrir tilverurétti, m.a. með því að draga fram upplýsingar sem sýndu fram á tilvist þess um aldaskeið. Óyggjandi sannanir um hinseginleika fólks áður fyrr, s.s. ástarjátningar, vitnisburðir um óhefðbundnar kynvitundir eða samkynja kynlíf, reyndust þó sjaldgæfari en talið hafði verið. Var það ekki síst vegna þess að sagnfræðingarnir leituðu gjarna að þeim birtingarmyndum samkynhneigðar í fortíðinni sem þeir þekktu úr samtímanum en gerðu ekki ráð fyrir að hugmyndir um kynhneigð, kyn og kynverund hefðu breyst í tímans rás.

Smám saman fór athyglin að beinast að ólíkum birtingarmyndum hinseginleika á mismunandi tímum og þeim ólíku leiðum sem fólk hafði til að tala um, skilja og tjá hinsegin kynverund áður fyrr. Með tilkomu hinsegin fræða opnuðust frekari leiðir til að skoða hinseginleika í fortíðinni og takast á við þá staðreynd að augljósar heimildir um fólk sem sannarlega var hinsegin (á þann hátt sem við skiljum hugtakið í dag) eru af skornum skammti.

Hinsegin sagnfræði gengur út frá því að kynverund og kynvitund hafi áður fyrr tekið á sig ýmsar myndir og falið í sér merkingu sem oft var frábrugðin þeim hugmyndum sem við höfum í dag. Hún leitast við að varpa ljósi á hvernig „óvenjulegar“ hneigðir, langanir og sjálfsupplifanir hafa verið túlkaðar á ólíkum tímum og gerir fræðimönnum þannig kleift að rannsaka þessi fyrirbæri í samfélögum eins og á Íslandi, þar sem fáar heimildir liggja fyrir um fólk sem sannarlega var hinsegin fyrr en um miðja 20. öld.

Hinsegin sagnfræði snýst því ekki um að segja sögu tiltekins minnihlutahóps, þótt hann verði alltaf í forgrunni hinsegin sagnfræðirannsókna. Tilgangur hennar er frekar að fjalla um hinsegin kynverund í víðara samhengi og þar með koma auga á átök og samspil minni- og meirihlutahópa innan samfélagsins. Hinsegin saga er því einnig saga samfélaga út frá hinsegin sjónarhóli. Kynverund hefur mikla þýðingu fyrir alla, bæði fólk með óhefðbundnar kynhneigðir, kynlanganir og kynvitundir, og aðra sem þykja „venjulegir“ eða samræmast hefðum og venjum samfélagsins.

Á þessum vef er ekki aðeins að finna upplýsingar og heimildir um konur og hinsegin kynverund. Hér má einnig og ekki síður fræðast um hvernig samfélagið í heild glímdi við tilvist fólks sem féll ekki að samfélagslegum viðmiðum hvað varðar kynhneigð, kynvitund og kyneinkenni á tímabilinu 1700–1960.