Hvað er hinsegin kynverund?

Hinsegin kynverund er afar vítt hugtak sem nær yfir ýmiss konar tilfinningar, gjörðir og sjálfsmyndir. Þegar talað er um kynverund er átt við menningarbundnar- og persónulegar hugmyndir um kyn og kynhegðun. Slíkar hugmyndir ná til dæmis til kyneinkenna, kynvitundar, kyntjáningar og kynhneigðar. Kynverund nær einnig yfir kynferðislegar langanir og rómantískar tilfinningar. Með hinsegin kynverund er átt við kynverund, ekki síst hvers kyns ástir, erótík, kynferðislegar þrár, kynhegðun og kyntjáningu, sem er óhefðbundin og fellur ekki að gagnkynhneigðum viðmiðum.

Hugmyndir fólks um kynverund og ýmsar ólíkar hliðar hennar eru breytilegar og alltaf á einhvern hátt bundnar við samfélagslegar aðstæður hvers tíma. Það sem þykir hinsegin í dag hefur ekki alltaf verið talið hinsegin og öfugt; það sem var hefðbundið á 19. öld er stundum hinsegin á 21. öld. Fólk hefur því ekki alltaf lagt sama skilning í til dæmis rómantík eða kynferðislegar langanir eða tjáð sig á sama hátt um slíkt í ræðu eða riti.

Hinsegin kynverund nær annars vegar yfir hinsegin sjálfsmyndir eins og við þekkjum þær í dag, svo sem trans, tvíkynhneigð, lesbía o.s.frv. – þ.e. hugmyndir um að hinseginleiki sé persónueinkenni sem er hluti af því hvernig manneskja upplifir sjálfa sig og/eða hvernig samfélagið skilgreinir hana. Hins vegar fangar hugtakið kynverund, t.d. kynhegðun og kyntjáningu, sem er hinsegin en ekki endilega hluti af sjálfsmynd viðkomandi. Með sjálfsmynd er þá átt við hugmyndir fólks um sig sjálft og sín persónueinkenni.

Efnið á þessum vef er valið með báðar ofangreindar skilgreiningar á hinsegin kynverund í huga. Heimildirnar fjalla því bæði um hinsegin sjálfsmyndir og kynverund sem er hinsegin en ekki byggð á sjálfsmynd. Segja má að ástir, erótík og kynferðislegar langanir séu meira áberandi en aðrar hliðar kynverundar. Hér segir til dæmis frá konum sem talið var að hefðu getið börn með öðrum konum, notuðu hjálpartæki í ástalífinu, áttu í „óvenjulegum vinskap“ eða rómantískri vináttu við aðrar konur, svo dæmi séu tekin. Þó greinir einnig frá konum sem stungu í stúf við samfélag sitt vegna þess að þær gengu í buxum eða höguðu sér karlmannlega á þeirra tíma mælikvarða. Þetta eru allt dæmi um hinsegin kynverund, þótt birtingarmyndirnar séu ólíkar.