Um vefinn

Vefur þessi inniheldur afrakstur heimildasöfnunarverkefnisins Huldukonur. Hinsegin kynverund kvenna í íslenskum heimildum 17001960 en með umsjón þess fara Ásta Kristín Benediktsdóttir, Hafdís Erla Hafsteinsdóttir og Íris Ellenberger. Þær settu verkefnið á fót árið 2017 samhliða því að þær ritstýrðu bókinni Svo veistu að þú varst ekki hér: Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi (útgefandi: Sögufélag, ágúst 2017) en í því útgáfuferli kom berlega í ljós að aðgengi að heimildum um hinsegin karla er mun auðveldara en að heimildum um hinseginleika fólks af öðrum kynjum. Til þess að bregðast við þessu ákváðu Íris, Hafdís og Ásta, í samstarfi við Samtökin ‘78 og Kvennasögusafn Íslands, að efna til sérstakrar rannsóknar sem miðaði að því að leita markvisst að heimildum um hinsegin kynverund kvenna og annars fólks sem litið er á sem konur og gera þær aðgengilegar fyrir fræðimenn, nemendur og almenning. Úr varð verkefnið Huldukonur sem hlaut styrk úr Jafnréttissjóði Íslands árið 2017, Þróunarsjóði námsgagna 2018 og Nýsköpunarsjóði námsmanna 2018.

Vefnum er ætlað að vera upplýsingasíða fyrir áhugasaman almenning, upphafspunktur fyrir fræðimenn og nemendur sem leita heimilda um hinsegin kynverund kvenna á tímabilinu 1700–1960, og efnisveita fyrir kennara sem vilja fjalla um hinseginleika í sögu- og sagnfræðikennslu. Umfjöllunin er ekki tæmandi og hér er ekki um að ræða lokaniðurstöðu rannsóknar. Þvert á móti er það von aðstandenda að vefurinn verði stökkpallur fyrir frekari rannsóknir á hinsegin kynverund kvenna á tímabilinu 1700–1960. 

Á vefnum er ferns konar efni:
a) kynning á helstu heimildum
b) efnisleg umfjöllun um heimildirnar
c) námsefni
d) heimildalistar og umfjöllun um heimildanotkun

Kynningu á heimildum og efnislega umfjöllun um þær er að finna í flettum sem flokkaðar eru eftir þemum og tímabilum. Heimildirnar eru kynntar í stuttu máli og settar í samhengi við viðkomandi tímabil og þema. Flettunni fylgir enn fremur listi með ítarlegum upplýsingum um heimildirnar og hvar þær er að finna. Efnislega umfjöllunin (túlkun og samhengi) er almennt viðameiri en þar er fjallað um áhugaverðustu viðfangsefni heimildanna og sýnt hvernig hægt er að lesa þær og túlka. Heimildirnar eru oft brotakenndar og ófullkomnar og því teljum við mikilvægt að taka dæmi um hvernig hinsegin túlkun á heimildunum getur laðað fram nýja þekkingu um konur og hinseginleika þrátt fyrir þær takmarkanir. Einnig eru kynnt til sögunnar nokkur grundvallarhugtök í hinsegin fræðum og hvernig nota má þau til að rýna í sögulegar heimildir.

Námsefnið er unnið upp úr heimildum verkefnisins og ætlað til kennslu í framhaldsskóla og á unglingastigi grunnskóla. Það samanstendur af einblöðungum sem auðvelt er að prenta út ásamt kennsluleiðbeiningum. Allt kennsluefni er einnig aðgengilegt á hljóðskrám til hlustunar.

Auk þess er á vefnum sérstök umfjöllun um heimildir og heimildanotkun. Þar er að finna heildarlista yfir allar heimildirnar sem fundust við framkvæmd verkefnisins og jafnframt sérstakar flettur um meðferð heimilda og yfirlit yfir helstu heimildaflokka.

Myndirnar á vefnum eru fengnar frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Ljósmyndasafni Íslands og Cornell University Library.

Lógóið hannaði Bylgja Rún Svansdóttir.

Vefhönnun var í höndum Gjallarhorns ehf.