1700-1800

Hér segir frá hinsegin kynverund kvenna í samfélagi þar sem konur höfðu mjög takmörkuð réttindi.

Konur höfðu afar takmörkuð borgaraleg réttindi í íslenska sveitasamfélaginu á 18. og 19. öld. Þær stjórnuðu ekki fjármálum sínum sjálfar, þeim var meinað að taka þátt í stjórnmálum og höfðu takmarkaðan aðgang að menntun, eins og kemur t.d. fram í bókinni Ártöl og áfangar í sögu íslenskra kvenna (bls. 28–34, 144–148). Ennfremur bendir Vilhelm Vilhelmsson á að samfélagið og löggjöfin á þessum tíma gerði ráð fyrir að fólk væri ýmist giftar húsfreyjur eða húsbændur sem fóru fyrir sjálfstæðu búi (sem þó var í eigu og undir forræði eiginmanna) eða hjú í þjónustu húsráðenda. Hjúum var ekki ætlað að giftast eða eignast fjölskyldu. Eitthvað var um lausamenn, þ.e. vinnufólk sem réði sig ekki í fasta vist, en skilyrðin fyrir lausamennsku voru mjög ströng og hert enn frekar þegar banni við lausamennsku var formlega komið á árið 1783 (bls. 170–181).

Til eru ýmsar heimildir um konur sem féllu fyrir utan slík viðmið um kynhegðun og kynhlutverk og voru á skjön við það sem ætlast var til af þeim í þeim efnum; konur sem voru „of“ karlmannlegar eða hegðuðu sér ekki eins og konum sæmdi. Þær eru til vitnis um að hér og þar hafi verið rými fyrir hinsegin tilvist. Þær heimildir um hinseginleika kvenna frá 18. öld sem hér er fjallað um eru þó lítið annað en brot, oftast ekki meira en örfáar málsgreinar, sem greina frá einstaklingi eða hegðun sem vel má flokka sem hinsegin. Allt eru þetta heimildir frá þriðja aðila, yfirleitt karlmönnum sem þekktu viðkomandi konu ekki persónulega heldur skráðu niður frásagnir sem höfðu gengið í munnmælum um langt skeið. Það er ekki fyrr en undir lok 19. aldar að við rekumst á heimildir þar sem konur tjá sig um eigin kynverund og lýsa tilfinningum, upplifunum og löngunum, eða skorti á þeim.

Heimildalisti

Erla Hulda Halldórsdóttir og Guðrún Dís Jónatansdóttir, Ártöl og áfangar í sögu íslenskra kvenna. Reykjavík: Kvennasögusafn Íslands 1998.

Dagný Kristjánsdóttir, „Hinsegin raddir. Um sannar og lognar lesbíur í bókmenntum og listum.“ Skírnir 177 (haust 2003), bls. 451–481.

Vilhelm Vilhelmsson. Sjálfstætt fólk. Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld. Reykjavík: Sögufélag 2017.

Viðurnefni

Athygli vekur að margar þeirra heimilda sem hér er fjallað um (fyrir aldamótin 1900) fjalla um konur sem höfðu viðurnefnin „graða“ eða „karlmaður“. Þessi viðurnefni lýsa að einhverju leyti samfélagsviðhorfum til kvenna sem þóttu storka hefðum í tengslum við...

Sjókvenska

Heimildir benda til þess að í gegnum tíðina hafi verið til ýmiss konar rými þar sem konur höfðu tækifæri til að storka eða koma sér hjá því að fylgja hefðbundnum viðmiðum um hegðun, klæðaburð, starfsvettvang og náin sambönd. Á Íslandi má segja að einn af þessum...

Óeðlilegt vinfengi

Heimildir um nána vináttu og sambönd kvenna á tímabilinu 1700–1900 eru ekki margar og oft óaðgengilegar. Það er helst þegar nær dregur aldamótunum 1900 sem hægt er að finna innsýn í þessi vináttubönd í persónulegum heimildum heldri kvenna í þéttbýli. Konur af öðrum...

Konur í buxum

Mikilvægur hluti af kynverund fólks er það sem er kallað kyntjáning. Þar er átt við það hvernig fólk tjáir kyn og kynvitund sína dags daglega, til að mynda með klæðavali og líkamstjáningu. Sumar af elstu heimildum um Íslandssöguna segja frá fólki sem kaus að tjá kyn...

Graðar, androgynus og tvíkynja

Til eru ýmsar frásagnir af konum sem voru „ekki eins og konur eru gerðar“ og jafnvel lék grunur á að þær væru líkamlega skapaðar eins og karlmenn að einhverju leyti. Enn fremur eru til sögur um konur sem áttu að hafa getið börn með öðrum konum. Engar heimildir hafa...