Íslenskar heimildir eru almennt fremur þöglar um kynlíf og kynlöngun kvenna – og um skort á slíku. Kynferðisleg sambönd kvenna eru almennt ekki sýnileg í heimildum nema lesið sé milli línanna en einnig er athyglisvert að huga að því sem sagt er um, og þagað yfir, áhugaleysi kvenna á karlmönnum og/eða kynlífi yfirhöfuð.

Ein þeirra fáu kvenna sem tjáði sig opinberlega um skort á löngun til kynlífs og hjónabands var skáldkonan Þura Árnadóttir, yfirleitt kölluð Þura í Garði (1891–1963). Þura var alin upp í Mývatnssveit og bjó þar fram til ársins 1941 þegar hún flutti til Akureyrar þar sem hún starfaði á heimavist Menntaskólans á Akureyri og hafði umsjón með lystigarðinum. Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir hefur skoðað ævi og skáldskap Þuru og ritað um hana í tveimur greinum, „Þá var mikið hlegið“ sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1996 og „Þura í Garði“ í Árbók Þingeyinga frá 2015. Hún greinir frá því að Þura hafi verið iðin við að skrifa og þýða ljóð meðfram daglegum störfum. Hún hafi gefið frá sér eina ljóðabók, Vísur Þuru í Garði, árið 1939, og ættfræðibók. Auk þess þýddi hún og samdi ljóð fyrir tímarit (Þá var mikið hlegið, bls. 4). Þura var ætíð ógift og barnlaus en þar að auki var hún nokkuð opinská um takmarkaðan áhuga sinn á hjónabandi og litla kynlöngun til karlmanna.

Sigríður vitnar í orð Þuru sjálfrar um að hún hafi snemma þótt ókvenleg: „Það kom snemma í ljós, að hinum mikla hugsuði hafði nokkuð mistekist, þegar hann skapaði mig og oft var orð á því haft, að ég hefði átt að vera strákur, svo mjög þótti ég hneigð til útistarfs og meira frelsis en stelpum var ætlað og sýna lítinn skilning á því, sem kvenlegt var talið í upphafi þessarar aldar.“ (Þá var mikið hlegið, bls. 4) Einnig kemur fram í umfjöllun í Eimreiðinni árið 1942 að Þura hafi þótt stórgerð og ólagleg en einnig andlegt stórmenni og þar með jafnoki karlmanna (bls. 45). Það var því ekki laust við að körlum þætti ógn af henni stafa. Í það minnsta lýsti Sigurður Benediktsson fyrstu kynnum sínum af henni á eftirfarandi hátt: „Nokkur uggur fór um okkur, er Þura gekk í stofu, því að hún er fasmikil kona og djarfleg.“ (bls. 21) Þessi lýsing birtist í ferðasögu um Mývatnssveit í Vikunni árið 1939.

 

„svo mjög þótti ég hneigð til útistarfs og meira frelsis en stelpum var ætlað og sýna lítinn skilning á því, sem kvenlegt var talið í upphafi þessarar aldar.“

 

Þura kvaðst líka mikið á við karlmenn í blöðum og var á öðrum áratug 20. aldar orðin landsþekkt fyrir hnyttnar, tvíræðar og oft eilítið klúrar lausavísur. Tímaritið Iðunn fjallaði um kveðskap Þuru um karla árið 1917 og birti eftirfarandi vísu sem hún var sögð hafa ort til stúlku sem hafði áhuga á tilteknum lágvöxnum pilti:

Æ, vertu nú ekki að hugsa um hann,
heldur einhvern stærri mann;
það er eins og þankastrik
þetta litla, slutta prik. (bls. 147)

Sigríður Kristín segir að hvergi komi fram í skrifum Þuru að henni hafi þótt miður að vera ógift og barnlaus (Þá var mikið hlegið, bls. 4). Aftur á móti gerir Þura í kveðskap sínum stólpagrín að áhugaleysi sínu á hjónabandi og nánum kynnum við karlmenn líkt og eftirfarandi brot úr bókinni Vísur Þuru í Garði bera með sér:

Svona er að vera úr stáli og steini,
stríðin, köld og ljót;
aldrei hef ég yljað sveini
inn að hjartarót. (bls. 7)

Mig hefur aldrei um það dreymt,
sem eykst við sambúð nána.
Þú hefur alveg, guð minn, gleymt
að gefa mér ástarþrána. (bls. 24)

Einnig má sjá í skrifum Þuru, sem Sigríður birtir í grein sinni, að hún taldi að hjónabandið jafngilti ófrelsi:

Aldrei hef ég tekið tvist
né trompunum eytt á hrökin.
Síðan ég gat flogið fyrst,
frjáls eru vængjatökin. (Þura í Garði, bls. 17)

Þó ber á ákveðnum mótsögnum hjá Þuru varðandi ástarþrána, því hún kvað einnig eftirfarandi vísur, líklega til ónafngreindrar manneskju:

Ekki fór ég alls á mis;
þú yljaðir mínu hjarta:
Man ég enn þín brúnablys
björtu og hárið svarta.

Aldrei fellur á þig ryk
fyrir innri sjónum mínum.
Átt hef ég sælust augnablik
í örmunum sterku þínum. (Vísur Þuru í Garði, bls. 8)

Dagblaðið Dagur á Akureyri birti viðtal við Þuru árið 1961 í tilefni af sjötugsafmæli hennar. Blaðamaður spyr þar hvort hún hafi einhvern tímann orðið skotin en þá svarar Þura brött:

„Mér hefur gengið illa að skilgreina hvað það er, sem kallað er að vera skotin. Skotin, eru held ég, einkum fyrir fermingarstelpur, og maður er nú vaxinn upp úr fermingarkjólnum. En ég get hrifizt af fallegum karlmönnum, eins og af fögru kvæði. En ég hefði ekki viljað eiga svo sem neina þá menn, sem ég hef þó orðið hrifin af. Og ekki öfunda ég blessaðar kerlingarnar af þessum körlum sínum. Svo er þó fyrir að þakka að ég hef átt andlega vináttu margra þeirra.“ (bls. 4)

Það sem skilur Þuru frá eldri konum sem orðaðar eru við kynleysi eða karlmennsku er að við höfum beinan aðgang að hennar eigin upplifunum og skýringum. Í heimildunum kemur fram að hún virðist, a.m.k. stóran hluta lífs síns, ekki hafa borið kynlöngun til karla heldur einungis kært sig um vinskap þeirra og litið á hjónaband sem frelsisskerðingu. Við getum leitað ýmissa skýringa á því sem aldrei munu fást staðfestar. Ef til vill hafði hún fyrst og fremst kynferðislegan áhuga á konum en aldrei er spurt um slíkt í þeim viðtölum og blaðagreinum sem fjölluðu um hana á meðan hún lifði. Einnig gæti hún hafa verið eitthvað í líkingu við það sem við köllum í dag eikynhneigð eða asexúal. Það vísar til fólks sem laðast aldrei eða mjög sjaldan kynferðislega að öðru fólki.

Þessi hugtök eru þó tiltölulega ný og þau stóðu Þuru ekki til boða þegar hún reyndi að lýsa ástæðum þess að hún hafði ekki kynferðislegan eða rómantískan áhuga á karlmönnum. Hún grípur til þess orðfæris sem var ríkjandi á hennar tíma og lýsir sér sem ókvenlegri, karlmannlegri eða „úr stáli og steini“. Hún tengir áhugaleysið því karlmennsku eða skorti á kvenleika, frekar en hneigð sem tengist sjálfsmynd fólks og mótar hvernig það er. Það var líklega ekki fyrr en á síðari hluta 20. aldar sem fólk á Íslandi, sérstaklega konur, gat almennt farið að nota hugmyndir um ólíkar kynhneigðir til að ramma inn og túlka langanir sínar og tilfinningar. Hvað varðar ummæli samferðafólks hennar er þar allt á sömu bókina lært. Henni er lýst sem fasmikilli, stórri, ólaglegri og jafnoka karlmanna og var sagt að hún hefði átt að fæðast strákur og að hún vekti ugg meðal manna þegar hún gengi inn í stofu.

Í þessum ummælum birtast ríkjandi hugmyndir um líkamlegt kyn, kynvitund og kynhneigð í Evrópu á fyrstu áratugum 20. aldar en þá var oft ekki, fremur en á 18. og 19. öld, gerður skýr greinarmunur á þessu þrennu. Þegar fólk laðaðist að sama kyni var oft talið að það væri á einhvern hátt „tvíkynja“ eða „fast“ í „röngum“ líkama – til dæmis karlkyns sál sem laðaðist að konum en væri í kvenlíkama eða líkama með bæði kven- og karlmannlega eiginleika. Ef marka má ummælin um Þuru í Garði virðist það einnig hafa átt við konur sem löðuðust ekki að karlmönnum og e.t.v. ekki að konum heldur.

E.D. „Heimsókn til Þuru í Garði“, Dagur 8. febrúar 1961, bls. 4. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2653970

Hjörtur frá Rauðamýri, Böðvar frá Hnífsdal og Þóroddur frá Sandi, „Sólskin og sunnanvindur“, Eimreiðin 48:1 (1942), bls. 43–48. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?gegnirId=000537092

Sigurður Benediktsson, „Skáldin í þokunni. Þankastrik úr Mývatnssveit“, Vikan 2:39 (1939), bls. 11 og 21. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4523288

Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir, „Þura í Garði“, Árbók Þingeyinga 2015 58 (2016), bls. 6–24.

Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir, „Þá var mikið hlegið“, Lesbók Morgunblaðsins 2. nóvember 1996, bls. 4–5. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3312002

„Stolin krækiber“, Iðunn [nýr flokkur] 3:1–2 (1917), bls. 147–149. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?gegnirId=000576731

Þura Árnadóttir í Garði, Vísur Þuru í Garði. 2. útg. Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar, 1956 [1939].