Til eru ýmsar frásagnir af konum sem voru „ekki eins og konur eru gerðar“ og jafnvel lék grunur á að þær væru líkamlega skapaðar eins og karlmenn að einhverju leyti. Enn fremur eru til sögur um konur sem áttu að hafa getið börn með öðrum konum. Engar heimildir hafa fundist enn sem komið er sem staðfesta þessar sögur en þær geta þó sagt okkur ýmislegt.

Í það minnsta tvær heimildir eru til um Guðrúnu Þórðardóttur (1643–1703) sem gefa í skyn að kynferði hennar hafi verið óhefðbundið eða ekki eins og hjá flestum konum. Í skýrslu um presta frá árinu 1777 segir Jón Jónsson á Kvíabekk um séra Þórð Gíslason, föður Guðrúnar, og dóttur hans: „Sr. Þördur Gislas. madur fornfälegur ätte Gudrunu fyrer döttur hün var halldenn androgynus enn giftest þö Sr. Jone Gudmundss. i Felle.“ Í Íslenzkum æviskrám III segir enn fremur um hjónin Jón og Guðrúnu að þau hafi verið barnlaus „og talið, að hún hefði eigi eðli til þess að ala börn, enda fór stirðlega á með þeim“ (bls 129).

„Androgynus“ er latína og vísar til einstaklings eða veru með órætt kyn. Í Oxford latnesk-ensku orðabókinni frá 1968 eru orðin androgynus og androgyne útskýrð á eftirfarandi hátt:
Androgyne: A nickname given to a mannish woman.
Androgynus: A person of indeterminate sex, a hermaphrodite
Heimild: Oxford Latin Dictionary, A–Libero, Oxford: At the Clarendon Press 1968, bls. 128.

„Graða-Helga“ kemur fyrir í skrifum Halldórs Kristjánssonar um þjóðhætti í Önundarfirði en hann hefur eftirfarandi eftir ömmu sinni, Ingileif Steinunni Ólafsdóttur (f. 1841): „Stundum var komið með viðarkol yfir Álftafjarðarheiði til að selja Önfirðingum. Amma mín sagði, að þau Bjarni meitill og Graða-Helga hefðu komið í þeim erindum að norðan. Helga þessi hafði auknefni sitt af því, að kvenmaður nokkur hafði einhvern tíma viljað kenna henni barn.“ (bls. 8)

 

„Helga þessi hafði auknefni sitt af því, að kvenmaður nokkur hafði einhvern tíma viljað kenna henni barn.“

 

Svipuð saga fór af Guðrúnu Sveinbjarnardóttur (1831–1916) en hún var kölluð „Graða-Gunna“ ef marka má „Prestaæfir“ Sighvats Grímssonar. Þar er einnig tekið fram að hún og eiginmaður hennar, Þórður Thorgrímssen, hafi verið barnlaus (bls. 800). Guðrún fór frá Þórði árið 1860 eftir tíu ára hjónaband og í öðru bindi Vestfirskra sagna (1945) segir Helgi Guðmundsson að fljótlega hafi komið í ljós að þau ættu ekki skap saman: „En ósamlyndi þeirra var talið Guðrúnu að kenna, því að hann vildi gera henni allt það til geðs, sem hann gat. Furðaði menn á því, að Guðrún skyldi ekki geta lynt við slíkt prúðmenni og glæsimenni sem séra Þórður var. Héldu því nokkrir, að hún væri ekki gerð sem aðrar konur, og hafa gengið ýmsar sögur, sem áttu að sanna þetta. En þau hjón áttu ekkert barn saman.“ (bls. 43) Í Rásum dægranna (1986) segir Málfríður Einarsdóttir að Guðrún hafi verið kölluð „karlmaður“ og enn fremur: „kynferði hennar hafði ruglast fyrir þeim sem áttu að ákvarða það þegar hún fæddist. Og hlaut hún að ganga með rangt ákvarðað kynferði alla ævi, líklega sér og manni sínum til nokkurs meins. Prestur nokkur, sem mig minnir að héti Þórður, bað hennar en hún réð honum frá því að giftast sér. Samt varð af því að þau ættust, en engin urðu börnin nema hvað vinnukona prestsfrúarinnar kenndi henni barn og gat hún ekki borið það af sér.“ (bls. 148)

 

„Og hlaut hún að ganga með rangt ákvarðað kynferði alla ævi, líklega sér og manni sínum til nokkurs meins.“

 

Kona að nafni „Graða-Manga“ er viðfangsefni vísukorns sem birtist fyrst á prenti í þriðja bindi af Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur (1894). Þar kemur fram að vísan sé frá síðari hluta 18. aldar og hafi verið flutt í veislum, enda sé viðfangsefni hennar ein slík (bls. 87–88):

Graða Mánga með geðlegt fas
góða bæn yfir hjónum las
úr Syrpuversi með ástaryl.
Amen þar flestir sögðu til (bls. 89)

Ástæður þess að Manga fékk þetta viðurnefni eru ekki tíundaðar í bókinni. 

Þuríður Einarsdóttir formaður (1777–1863) klæddist stundum karlmannsfötum og þótti oft karlmannleg í framkomu, auk þess sem hún virðist hafa haft takmarkaðan áhuga á samböndum við karlmenn. Í sunnudagsblaði Tímans 30. apríl 1972 segir að „gamall granni hennar og sveitungi, er aldrei hafði getað fellt sig við búning hennar, [hafi] brugðið henni um það í margra áheyrn, að hún væri tvíkynja. Nú má ætla, að Þuríður formaður hafi svarað fyrir sig því að munninn hafði hún fyrir neðan nefið, hvað sem leyndist innan klæða. En hún lét ekki orðin nægja, heldur stefndi manninum fyrir illmælgi, og það var aðeins fyrir bænastað prófastsins, að hún lét sér nægja auðmjúka fyrirgefningarbón“ (bls. 341).

Engar heimildir liggja fyrir sem staðfesta þessar sögur og því er ómögulegt að segja til um hvernig líkamar kvennanna voru gerðir, hvernig þær upplifðu líkama sinn eða hver kynvitund þeirra var.

Mögulegt er að þær hafi verið með það sem í dag nefnist ódæmigerð kyneinkenni eða intersex breytileiki – að líkamleg kyneinkenni þeirra hafi ekki verið fyllilega kvenkyns eða karlkyns, hvorki karl- né kvenkyns eða blanda af hvoru tveggja. Í greininni „Hið „sanna kyn“ eða veruleiki líkamans? Hugleiðingar spunnar um frásögn af Guðrúnu Sveinbjarnardóttur“ (2017) rekur Soffía Auður Birgisdóttir sögu Guðrúnar, veltir fyrir sér túlkunarmöguleikum og bendir á að nútímalæknavísindi hafa sýnt að mögulegt er að einstaklingur með XY kynlitninga fæðist, sökum ákveðins óvirks ensíms, með ytri kynfæri sem líkjast kynfærum kvenna en þrói með sér karlkyns líkamleg einkenni við og eftir kynþroska. Slíkir einstaklingar geta verið frjóir. Út frá sjónarhóli vísindanna er því mögulegt að sögur af konum – það er einstaklingum sem voru úrskurðaðir kvenkyns við fæðingu – sem gátu börn með öðrum konum hafi verið sannar. Enn fremur getur verið að konurnar hafi verið með annars konar kynbreytileika en slíkar formgerðir eru fjölmargar.

Sögur líkt og þær sem hér er greint frá geta kviknað af ýmsum ástæðum og það er alls ekki víst að þær séu sannar í þeim skilningi að konurnar hafi verið með óhefðbundin eða karlkyns líkamleg kyneinkenni. Rétt er að hafa í huga að þessar sögur lifðu í munnmælum í áratugi eða aldir áður en þær voru ritaðar og þær eru oft hafðar eftir fólki (oftast körlum) sem virðist hafa haft ákveðnar skoðanir á því hvernig konur ættu að vera og haga sér. Sögurnar segja þannig ýmislegt um samfélagsleg viðhorf og hugmyndir um hlutverk og eðli kvenna á hverjum tíma.

 

„Sögur um að konur væru „karlmenn“, „graðar“ eða „tvíkynja“ virðast því hafa verið notaðar til að marka þeim stað í samfélaginu og halda þeim innan ramma kvenleikans“

 

Ýmiss konar hegðun og eiginleikar sem voru á skjön við hugmyndir um kvenleika gátu vakið hugrenningar og sögusagnir um að konur væru „óeðlilegar“, ekki bara í hegðun heldur líka líkamlega. Þetta er til dæmis greinilegt í sögunum sem gengu af Þuríði Einarsdóttur formanni og voru skráðar í sunnudagsblað Tímans 30. apríl 1972. Soffía Auður nefnir (bls. 58–60) að sögurnar um Guðrúnu Sveinbjarnardóttur gætu hafa sprottið af því að hún þótti karlmannleg í útliti eða á skjön við hugmyndir um kvenleika og kvenlega hegðun. Einnig gæti það hafa spurst út að hún laðaðist að konum, enda bjó Guðrún til lengri tíma með öðrum konum eftir að hún fór frá Þórði. Bæði hún og nafna hennar Guðrún Þórðardóttir voru auk þess barnlausar og þeim lynti illa við eiginmenn sína, sem virðist hafa vakið umtal í samfélaginu. Sögur um að konur væru „karlmenn“, „graðar“ eða „tvíkynja“ virðast því hafa verið notaðar til að marka þeim stað í samfélaginu og halda þeim innan ramma kvenleikans – ramma sem til dæmis Þuríður formaður barðist hatrammlega gegn.

Í þessu samhengi er mikilvægt að huga að því að skýr aðgreining á líkamlegu kyni, kynvitund og kynhneigð er hugsunarháttur sem varð til á 20. og 21. öld. Nú er litið svo á að kynhneigð sé ekki skilyrt eða orsökuð af líkamlegu kyni eða kyngervi – trans fólk geti laðast að fólki af öllum kynjum og það sama eigi við um sískynja fólk, intersex fólk, karla og konur. Fyrr á tímum var hins vegar oft talið að þegar fólk laðaðist að sama kyni væri það á einhvern hátt „tvíkynja“ eða „fast“ í „röngum“ líkama – til dæmis karlkyns sál sem laðaðist að konum en væri í kvenlíkama eða líkama með bæði kven- og karlmannlega eiginleika. Erlendis voru gerðar tilraunir til að „laga“ samkynhneigð með því að græða nýja kynkirtla í fólk o.s.frv. Þarna renna því saman ýmsar hugmyndir sem í dag eru aðskildar.

Prentaðar heimildir

Halldór Kristjánsson, „Álftafjarðarheiði.“ Tíminn, 21. desember 1962, bls. 8 og 13. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1053221

Helgi Guðmundsson. Vestfirskar sagnir II. Reykjavík: Bókaforlagið Fagurskinna 1945.

Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur. 3. bindi. Safnað hafa Jón Árnason og Ólafur Davíðsson. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafjelag 1894. Slóð: http://baekur.is/bok/000197653/3/Islenzkar_gatur__skemtanir

„Húsið, sem flestir skoða, og konan, sem það er kennt við.“ Tíminn – sunnudagsblað, 30. apríl 1972, bls. 339–341. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3561174

Málfríður Einarsdóttir, Rásir dægranna. Eftirlátin skrif, Reykjavík: Ljóðhús 1986.

Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 III. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag 1950. Slóð: http://baekur.is/bok/000306940/3/133/Islenzkar_aeviskrar_fra_Bindi_3_Bls_133

Soffía Auður Birgisdóttir, „Hið „sanna kyn“ eða veruleiki líkamans? Hugleiðingar spunnar um frásögn af Guðrúnu Sveinbjarnardóttur.“ Ritið 17,2 (2017), 39–77.

Handrit

Lbs.-Hdr. Lbs 1266 4to. Skýrsla Jóns Jónssonar á Kvíabekk til Hálfdanar Einarssonar á Hólum um presta.

Lbs-Hdr. Lbs 2367 4to. Sighvatur Grímsson Borgfirðingur, Prestaæfir X. bindi Slóð: https://handrit.is/is/manuscript/view/is/Lbs04-2367 https://image.landsbokasafn.is/source/Lbs_2367_4to/Lbs_2367_4to,_0473r_-_960-hq.pdf https://image.landsbokasafn.is/source/Lbs_2367_4to/Lbs_2367_4to,_0473v_-_961-hq.pdf https://image.landsbokasafn.is/source/Lbs_2367_4to/Lbs_2367_4to,_0474r_-_962-hq.pdf