Athygli vekur að margar þeirra heimilda sem hér er fjallað um (fyrir aldamótin 1900) fjalla um konur sem höfðu viðurnefnin „graða“ eða „karlmaður“. Þessi viðurnefni lýsa að einhverju leyti samfélagsviðhorfum til kvenna sem þóttu storka hefðum í tengslum við kynhlutverk. Þótt merking viðurnefnanna sé yfirleitt neikvæð þóttu eiginleikarnir sem þeir vísa til jákvæðir í sumum tilfellum, t.d. við erfiðisvinnu.

Í kaflanum um útilegumannasögur í 4. bindi Íslenzkra þjóðsagna og ævintýra (1956), sem Jón Árnason safnaði, er sagan „Kynjadalur í Ódáðahrauni“ (bls. 339–340). Þar segir frá konu að nafni Helga sem tekur þátt í fjárleitum, verður viðskila við samferðamenn sína í vondu veðri og hittir útilegumenn í fögrum dal sem veita henni húsaskjól fram á næsta sumar. Sagan segir að Helga hafi verið „duglegri en kallmennirnir, því hún var haldin margra manna maki og því kölluð Graða-Helga.“ (bls. 339) Þegar veðrið skellur á vilja allir karlarnir – „duglegustu sex menn úr firðinum“ – fara heim „en Helga vildi ekki og sagði það ódugnað að leita ekki þó vont væri.“ (bls. 339) Hún gengur í sex daga eftir að karlarnir fara heim og er nær dauða en lífi þegar ungur maður gengur fram á hana og tekur hana með heim í dalinn sinn, á sýslumannssetur í Ódáðahrauni. Þar fær hún mat og hvíld og um veturinn vinnur hún hjá sýslumanninum – útilegumannahöfðingjanum.

„Alltaf þurfti hún mikið að borða og ettir því var hún dugleg. Hún var látin vefa um veturinn og óf aldrei minna en þrettán hundruð um hálfan mánuð. Allir voru góðir við hana; þó var sonur sýslumanns henni beztur því hann lagði mikinn ástarhuga til hennar. Þegar hjúatími var kominn var hún spurð hvurt hún vildi vera kyrr; játti hún því. En um sumarmál varð hún mjög leið og þung í skapi. Gengu allir fast að henni því hún daglega fá væri. Sagði hún [að hún] hefði iðrazt orða sinna og vildi fara heim í byggð. Fékk þetta mjög á sýslumannsson og varð minni kærleikur þeirra á milli.“

Skömmu síðar fer Helga aftur til byggða og sögunni lýkur.

 

„Alltaf þurfti hún mikið að borða og ettir því var hún dugleg.“

 

Í sagnaþætti Gísla Konráðssonar um Jón Einarsson á Sauðá, sem var uppi á síðari hluta 18. aldar, í Sjómannablaðinu Víkingi árið 1954 segir frá laundóttur Jóns sem hét Guðrún og var kölluð „Guðrún karlmaður“. „En því var hún karlmaður kölluð, að í öllum háttum sínum var hún líkari körlum en konum. Vinnukona var hún mikil, vel látin hvarvetna, húskona lengst ævi sinnar, dó ógift og barnlaus.“ (bls. 143)

Önnur kona er nefnd var „Graða-Helga“ kemur fyrir í skrifum Halldórs Kristjánssonar um þjóðhætti í Önundarfirði en hann hefur eftirfarandi eftir ömmu sinni, Ingileif Steinunni Ólafsdóttur (f. 1841): „Stundum var komið með viðarkol yfir Álftafjarðarheiði til að selja Önfirðingum. Amma mín sagði, að þau Bjarni meitill og Graða-Helga hefðu komið í þeim erindum að norðan. Helga þessi hafði auknefni sitt af því, að kvenmaður nokkur hafði einhvern tíma viljað kenna henni barn.“ (bls. 8)

Svipuð saga fór af Guðrúnu Sveinbjarnardóttur (1831–1916) en hún var kölluð „Graða-Gunna“ ef marka má „Prestaæfir“ Sighvats Grímssonar. Þar er einnig tekið fram að hún og eiginmaður hennar, Þórður Thorgrímssen, hafi verið barnlaus (bls. 800). Í Rásum dægranna (1986) segir Málfríður Einarsdóttir enn fremur að Guðrún hafi verið kölluð „karlmaður“ (bls. 148). Sögur fóru af því að kynferði Guðrúnar hefði „ruglast“ eða verið rangt ákvarðað og hún hefði barnað aðra konu og hún skildi enn fremur við mann sinn. Soffía Auður Birgisdóttir bendir á að eftir hjónaskilnaðinn bjó Guðrún til langs tíma með konum (bls. 51–54).

Í bók séra Friðriks Eggertz (1802–1894), Úr fylgsnum fyrri aldar I, sem kom út árið 1950, segir frá Þuríði Jónsdóttur (1791–1860), vinnukonu á bænum Ballará í Dalasýslu, og „vinkonu“ hennar, Kristínu Einarsdóttur (1789–1869). Friðrik segir: „Sváfu þær saman, og þótti vinfengi þeirra nokkuð óeðlilegt, og því var hún kölluð af sumum Þuríður graða. Aldrei áttu þær börn og voru saman meðan þær lifðu og voru í Vík á vorin, sem oftast frá Ballará.“ (bls. 432)

 

„Amma mín sagði, að þau Bjarni meitill og Graða-Helga hefðu komið í þeim erindum að norðan. Helga þessi hafði auknefni sitt af því, að kvenmaður nokkur hafði einhvern tíma viljað kenna henni barn.“

 

Ljóst er að orðið graður hefur ekki alltaf haft sömu merkingu og í dag. Samkvæmt síðustu útgáfu Íslenskrar orðabókar merkir það „lostafullur“, kvensamur“ eða ógeltur“ og sömu skýringar eru gefnar Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920 (bls. 266). Íslensk orðsifjabók gefur upp skýringuna „ógeltur, kynólmur, lostafullur. Í orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík frá 18. öld þýðir graður hins vegar „Masculinæ natúræ, et in venerem pronus“ sem útleggst á íslensku: „karlmannlegs eðlis, og hneigður til kynlífs“.

Heimildir sem fjalla um graðar konur og karlkonur eru býsna ólíkar en slíkar lýsingar er að finna í þjóðsögum, munnmælum og sagnaþáttum. Það er því ekki að undra að lýsingarorðið „graða“ sé útskýrt á ólíkan hátt. Það þýðir ýmist að konan hafi verið dugleg, sterk og afkastamikil og jafnoki eða meiri en karlmenn (þjóðsagan af Gröðu-Helgu, Guðrún karlmaður), að hún hafi getið barn með annarri konu (Graða-Helga, Guðrún Sveinbjarnardòttir), eða hafi sofið hjá og átt „óeðlilegt vinfengi“ við aðra konu (Þuríður graða).

„Karlmaður“ er útskýrt á svipaðan hátt: konan er líkari körlum en konum í háttum (Guðrún karlmaður) eða kynferði hennar er talið rangt ákvarðað eða hún er talin hafa barnað aðra konu.

Í nær öllum tilfellum fylgir með að konan hafi verið barnlaus og ógift, skilið við eiginmann sinn eða neitað að giftast. Stundum er greint frá því að konan hafi búið með annarri konu eða átt óvenju náin samskipti við aðra konu.

Orðin graða og karlmaður ná því yfir býsna breitt svið. Þau vísa til líkamlegs kyns og kyneinkenna, kynlífs, hegðunar, útlits, vinfengis, barneigna. Eitt eiga allar þessar tilvísanir sameiginlegt: þær vísa til þess að konurnar hafi verið „ókvenlegar“ og á skjön við hegðun, útlit og stöðu sem konum var almennt ætluð. Í raun segja þessar heimildir okkur kannski ýmislegt áhugavert um hvert kvenhlutverkið var: að giftast, eiga börn, vera líkamlega veikbyggðari en karlar, sinna inniverkum, vera ólík körlum í útliti og hegðun. Þær segja okkur líka sitthvað um samfélagslegt taumhald og hvernig kynhegðun og kyntjáningu var beint í tiltekinn farveg, m.a. með því að uppnefna og þar með stimpla þær konur sem ekki löguðu sig að viðteknum hugmyndum um kvenleika.

Prentaðar heimildir

Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans 1989. Slóð: https://malid.is/

Friðrik Eggerz, Úr fylgsnum fyrri aldar I. Jón Guðnason sá um útgáfuna. Reykjavík: Iðunn 1950.

Gísli Konráðsson, „Jón Einarsson á Sauðá.“ Sjómannablaðið Víkingur 16:6–7 (1954), bls. 142–145. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4231548

Halldór Kristjánsson, „Álftafjarðarheiði“, Tíminn, 21.desember 1962, bls. 8 og 13. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1053221

Íslensk orðabók. 3. útg. Ritstj. Mörður Árnason. Reykjavík: Forlagið 2002. Slóð: https://snara.is/

„Kynjadalur í Ódáðahrauni.“ Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri IV. Jón Árnason. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga 1956, bls. 339–340. Slóð: http://baekur.is/bok/000197670/4/355/Islenzkar_thjodsogur_og_Bindi_4_Bls_355

Málfríður Einarsdóttir, Rásir dægranna. Eftirlátin skrif. Reykjavík: Ljóðhús 1986, bls. 148.

Sigfús Blöndal, Íslensk-dönsk orðabók. Aðalsamstarfsmenn: Björg Þorláksdóttir Blöndal, Jón Ófeigsson og Holger Wiehe. Reykjavík: 1920–1924. Slóð: http://baekur.is/bok/000355266/Islensk-donsk_ordabok

Soffía Auður Birgisdóttir, „Hið „sanna kyn“ eða veruleiki líkamans? Hugleiðingar spunnar um frásögn af Guðrúnu Sveinbjarnardóttur.“ Ritið 17,2 (2017), bls. 39–77.

Handrit

AM AM 433 fol 1. Orðabókarhandrit Jóns Ólafssonar úr Grunnavík. IV hluti.

Lbs-Hdr. Lbs 2367 4to. Sighvatur Grímsson Borgfirðingur, Prestaæfir X. bindi Slóð: https://handrit.is/is/manuscript/view/is/Lbs04-2367 https://image.landsbokasafn.is/source/Lbs_2367_4to/Lbs_2367_4to,_0473r_-_960-hq.pdf https://image.landsbokasafn.is/source/Lbs_2367_4to/Lbs_2367_4to,_0473v_-_961-hq.pdf https://image.landsbokasafn.is/source/Lbs_2367_4to/Lbs_2367_4to,_0474r_-_962-hq.pdf