Heimildir um nána vináttu og sambönd kvenna á tímabilinu 1700–1900 eru ekki margar og oft óaðgengilegar. Það er helst þegar nær dregur aldamótunum 1900 sem hægt er að finna innsýn í þessi vináttubönd í persónulegum heimildum heldri kvenna í þéttbýli. Konur af öðrum stéttum skildu fæstar eftir sig skrifaðar heimildir sem hægt er að rýna í og heimildir um vináttu þeirra eru oftast hluti af frásögnum annarra en ekki þeirra sjálfra. Þar mótast sjónarhornið því gjarnan af viðhorfum samfélagsins og oftar en ekki síðari tíma manna sem rituðu hugrenningar sínar löngu eftir að konurnar sem um ræðir voru fallnar frá. Þær heimildir sem þó eru til staðar sýna að mörkin milli vináttu- og ástarsambands gátu verið óljós og dregin annars staðar en í dag.

Í bók séra Friðriks Eggertz (1802–1894), Úr fylgsnum fyrri aldar I, sem kom út árið 1950, segir frá Þuríði Jónsdóttur (1791–1860), vinnukonu á bænum Ballará í Dalasýslu, og „vinkonu“ hennar, Kristínu Einarsdóttur (1789–1869). Friðrik segir: „Sváfu þær saman, og þótti vinfengi þeirra nokkuð óeðlilegt, og því var hún kölluð af sumum Þuríður graða. Aldrei áttu þær börn og voru saman meðan þær lifðu og voru í Vík á vorin, sem oftast frá Ballará.“ (bls. 432)

Í manntölum og sóknarmannatölum, sem Soffía Auður Birgisdóttir byggir m.a. á í grein sinni um Guðrúnu Sveinbjarnardóttur (1831–1916), má sjá að Guðrún var barnlaus og bjó seinni hluta ævinnar mestmegnis með konum og rak eigið heimili með þeirra hjálp. Hún giftist séra Þórði Thorgrímssen árið 1850 og bjó með honum í Otradal í Arnarfirði en fór frá honum eftir tíu ára hjónaband og flutti yfir í nágrannabyggðina Selárdal. Þar kynntist hún Ragnhildi Gísladóttur (1841–1928) og bjó með henni í um fimmtán ár, fyrst á heimili foreldra Ragnhildar í Selárdal á árunum 1862–1869. Þaðan fluttu þær að Þingvöllum í Helgafellssókn og síðan til Stykkishólms þar sem þær bjuggu saman til 1876. Árið 1874 lét Guðrún reisa torfbæ í Stykkishólmi, sem kallaður var Guðrúnarbær, og það ár eru hún og Ragnhildur einu íbúar bæjarins en síðar tóku þær inn leigjendur. Árið 1876 flutti Ragnhildur til móður sinnar en Guðrún bjó í Guðrúnarbæ, og síðar í timburhúsi sem reist var á sömu lóð, með vinnukonum og ýmsum leigjendum til dauðadags. Ragnhildur var barnlaus og giftist aldrei en bjó í Hringsdal í Arnarfirði fram yfir aldamótin 1900 og síðar í Reykjavík. Margrethe Frederike Magdalena Man (1844–1928), síðar Friðrik(k)a Hinriksdóttir, var vinnukona hjá Guðrúnu í Guðrúnarbæ í tæpan áratug, á árunum 1874–1883, og Petrína Sigmundsdóttir (1865–1938) var hjá henni árin 1885–1891. Friðrika giftist Gísla Arnfinnssyni, sem var lausamaður hjá Guðrúnu í Guðrúnarbæ í kringum 1880, og Petrína giftist einnig síðar og eignaðist börn.

„Látið fröken Brands í friði – finnið yður mann til að sofa hjá!!!“

Af Guðrúnu Sveinbjarnardóttur fóru þær sögur að kynferði hennar hefði „ruglast“ eða verið „rangt ákvarðað við fæðingu“ og að hún hefði getið barn með annarri konu – þó ekki Ragnhildi, Friðriku eða Petrínu, í það minnsta benda engar heimildir til þess að þær hafi eignast börn á þeim tíma sem þær voru í samvistum við Guðrúnu. Guðrún fékk líka, eins og Þuríður Jónsdóttir, viðurnefnið „graða“ ef marka má tíunda bindi „Prestaæfa“ Sighvats Grímssonar (bls. 800).

Varðveitt eru innileg bréf milli vinkvenna af heldri stéttum frá lokum 19. aldar og upphafi þeirrar tuttugustu. Þar eru ýmis orð látin falla sem í dag myndu þykja benda sterklega til hrifningar eða jafnvel ástarsambands milli viðtakanda og sendanda. Þó að kynlíf og erótík beri sjaldan á góma í þessum bréfum var stundum slúðrað um konurnar og látið í veðri vaka að vinátta þeirra væri á einhvern hátt ekki eðlileg. Í skjalasafni Sigríðar Björnsdóttur (1879–1942), listakonu og bóksala, er til dæmis athyglisvert bréf frá nafnlausum bréfritara. Bréfið, sem er ekki stílað á viðtakanda, er eins konar hótunarbréf þar sem bréfritari lætur í veðri vaka að hann viti um kynferðislegan áhuga Sigríðar á öðrum konum. Hann byrjar á að útlista hvernig roskið fullorðið kvenfólk geti gert sig að fíflum með því að halda að þær séu ungar (Sigríður hefur líklega verið á fertugsaldri þegar bréfið var ritað). Síðan vindur hann sér að sambandi Sigríðar og Ingibjargar Brands (1878–1929), sem greinilega fer fyrir brjóstið á honum  og skrifar: „Látið fröken Brands í friði – finnið yður mann til að sofa hjá!!! […] þvoið af iður nafnið „mannorðsspillir“ Biðjið forláts“. Ekki er vitað hver sendandinn var eða hvernig Sigríður brást við en það verður að teljast athyglisvert að Sigríður hafi ákveðið að varðveita bréfið og það hafi endað í skjalasafni hennar.

Heimildirnar sem hér er greint frá segja frá konum sem bjuggu saman um árabil og voru ógiftar og barnlausar. Texti séra Friðriks um samband Þuríðar og Kristínar er óvenju afdráttarlaus um einkalíf tveggja kvenna og gefur nokkuð sterkt í skyn að þær hafi stundað kynlíf. Engar slíkar sögur fara af sambandi Guðrúnar við Ragnhildi, Friðriku eða Petrínu, en aftur á móti benda aðrar sögur um Guðrúnu til þess að hún hafi verið talin hafa kynferðislegan áhuga á konum. Ekki er hægt, út frá fyrirliggjandi heimildum, að segja til um hvernig þessum samböndum var háttað að öðru leyti, sér í lagi þar sem sjónarhorn kvennanna sjálfra vantar. Heimildirnar vekja fyrst og fremst fjölmargar spurningar sem líklega verður aldrei hægt að svara en áhugavert er að velta fyrir sér.

Ein helsta ályktunin sem hægt er að draga af þessum heimildum er að konurnar hafi stungið á einhvern hátt í stúf eða vakið athygli í því umhverfi sem þær bjuggu. Í það minnsta spruttu upp frásagnir af „óvenjulegu vinfengi“, „rugluðu“ kynferði og mögulegum barneignum með öðrum konum – og þessar frásagnir hafa lifað í áratugi og aldir sem bendir til að þær hafi áfram þótt áhugaverðar. Meðal þess sem gæti hafa valdið því að sögurnar fóru á kreik er „óvenjuleg“ hegðun kvennanna, svo sem að þær giftust ekki eða yfirgáfu eiginmenn sína, og fæddu ekki börn. Þær gætu hafa þótt vera óvenju tilfinningalega og/eða líkamlega nánar öðrum konum og enn fremur er mögulegt að útlit þeirra hafi þótt sérkennilegt eða karlmannlegt, jafnvel svo að þær hafi verið taldar karlmenn eða með órætt kynferði.

„Guðrún og aðrar sjálfstæðar konur í þéttbýli voru þannig birtingarmynd tiltekinnar ógnar við hefðbundið sveitasamfélag.“

Soffía Auður Birgisdóttir bendir á í grein sinni að Guðrún Sveinbjarnardóttir var fjárhagslega sjálfstæð eftir að hún fór frá eiginmanni sínum. Hún hafði leigutekjur og tekjur af kennslu og handavinnu og fékk ekknastyrk síðustu æviárin eftir lát Þórðar en þau skildu aldrei að lögum (bls. 54–55). Slíkt sjálfstæði gæti hafa þótt ókvenlegt og ýtt undir sögusagnir. Einnig verður að hafa í huga að Guðrún var uppi á upplausnartímum í íslensku samfélagi. Sveitasamfélagið var að líða undir lok og þéttbýlisvæðing að hefjast. Konur voru í meirihluta þeirra sem fluttust til bæjanna vegna þess að þéttbýlið gaf þeim, eins og sjá má í tilfelli Guðrúnar, tækifæri til að lifa af launavinnu utan hefðbundinnar fjölskyldueiningar. Guðrún og aðrar sjálfstæðar konur í þéttbýli voru þannig birtingarmynd tiltekinnar ógnar við hefðbundið sveitasamfélag. Það gæti útskýrt sögusagnirnar sem gengu um hana, sérstaklega ef tekið er tillit til þess að slúður getur virkað sem félagslegt taumhald.

Nafnlausa bréfið í safni Sigríðar Björnsdóttur er að mörgu leyti einstök heimild þar sem það er samtímaheimild og og beinlínis skrifað til konu persónulega en ekki um hana og ekki ætlað til opinberrar birtingar. Að bréfritari skuli byrja á því að vísa til aldurs mætti ef til vill túlka sem svo að rómantísk vinátta hafi verið að einhverju leyti samþykkt meðal ólofaðra kvenna eða skólastúlkna. Það að hvorki Sigríður né Ingibjörg Brands giftust, og voru báðar ef til vill komnar vel á fertugsaldur þegar bréfið barst, gefur til kynna að samband þeirra gæti hafa vakið athygli sem eitthvað ónáttúrulegt eða svik við hinn hefðbundna gagnkynhneigða lífsstíl sem gerði ráð fyrir að helsta hlutverk kvenna væri að ganga í hjónaband. Enn fremur er hinn kynferðislegi undirtónn í bréfinu athyglisverður en eins og áður kom fram eru til fáar heimildir frá þessum tíma sem eru bersöglar um kynlíf milli tveggja kvenna.

Prentaðar heimildir

Friðrik Eggerz, Úr fylgsnum fyrri aldar I. Jón Guðnason sá um útgáfuna. Reykjavík: Iðunn 1950, bls. 432.

Soffía Auður Birgisdóttir, „Hið „sanna kyn“ eða veruleiki líkamans? Hugleiðingar spunnar um frásögn af Guðrúnu Sveinbjarnardóttur.“ Ritið 17,2 (2017), bls. 39–77.

Þorsteinn Vilhjálmsson, „Gyðjunafn, skólastýra, vörumerki sjúkdóms. Saffó á Íslandi á 19. og 20. öld.“ Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir. Reykjavík: Sögufélag 2017, bls. 59–106.

Handrit

BR. Einkaskjalasafn nr. 11. Sigríður Björnsdóttir. Slóð: http://www.borgarskjalasafn.is/desktopdefault.aspx/tabid-4970/6667_read-1442/start-s/6630_view-2789/

Lbs-Hdr. Lbs 2367 4to. Sighvatur Grímsson Borgfirðingur, Prestaæfir X. Slóð: https://handrit.is/is/manuscript/view/Lbs04-2358

https://image.landsbokasafn.is/source/Lbs_2367_4to/Lbs_2367_4to,_0473v_-_961-hq.pdf

 

Aðrar óprentaðar heimildir

Vef. Íslendingabók, „Margrethe Frederike Magdalena Man, 10. ágúst 1844–19. mars 1928“, Íslensk erfðagreining ehf. og Friðrik Skúlason ehf., skoðað 13. september 2018. Slóð: https://islendingabok.is/

Vef. ÞÍ. Manntal 1860, Rimi, Selárdalssókn. Manntal 1870, Þingvellir, Helgafellssókn. Manntal 1880, Guðrúnarbær, Stykkishólmssókn. Manntöl 1890 og 1901, Gjarðey, Breiðabólsstaðarsókn. Slóð: www.manntal.is.

Vef. ÞÍ. Kirknasafn. Selárdalur í Arnarfirði BC/2. Sóknarmannatöl 1862 og 1864–1869. Slóð: http://skjalaskrar.skjalasafn.is/

Vef. ÞÍ. Kirknasafn. Helgafell í Helgafellssveit BC/4, BC/5 og BC8. Sóknarmannatöl 1871, 1874–1879 og 1879–1892. Slóð: http://skjalaskrar.skjalasafn.is/