Eitt af einkennum tímabilsins fram til 1900 er mikill skortur á heimildum eftir konur þar sem þær lýsa eigin tilfinningum og löngunum. Við lok 19. aldar fer þó að tíðkast að fólk, sérstaklega af heldri stéttum, haldi dagbækur og skrifist reglulega á við kunningja, vandamenn og ástvini og sum þessara gagna eru varðveitt á skjalasöfnum. Við eigum því greiðari aðgang að hugarheimi kvenna um og eftir 1900 en á fyrri tímabilum og það er auðveldara að gera sér í hugarlund hvaða tilfinningar þær báru til annarra kvenna og hvaða augum þær litu eigin langanir. Við þurfum þó oft að lesa í og túlka það sem þær skrifa. Einnig eru ýmsar áhugaverðar eyður í heimildunum. Konur eins og Ingibjörg Ólafsson (1886–1962) og Katrín Thoroddsen læknir (1896–1970) skrifuðu mjög mikið um ævina; greinar, bækur og bréf. Samt sem áður eru engin bréf eftir Katrínu varðveitt í opinberum skjalasöfnum og heldur engin bréf sem fóru á milli Ingibjargar Ólafsson og Despinu Karadja (1892–1983) á því 40 ára tímabili sem þær héldu saman heimili. Ingibjörg var þó nokkuð á faraldsfæti starfs síns vegna og því ólíklegt annað en hún hafi sent sambýliskonu sinni bréf.

Þrátt fyrir að við höfum á þessu tímabili ríkari aðgang að persónulegum heimildum um hinsegin kynverund kvenna en áður eru heimildir um konurnar og tilfinningar þeirra misáreiðanlegar. Endurminningabók Þórðar Sigtryggssonar, Mennt er máttur, er dæmi um heimild sem ber að taka með fyrirvara. Endurminningarnar voru fullbúnar til prentunar árið 1970, 50–60 árum eftir að atburðirnir sem Þórður lýsir áttu sér stað, og stíllinn er ýktur og minnir oft á slúður. Handritið að bókinni var þó lengi vel ein af fáum þekktum heimildum um rómantískar tilfinningar kvenna í garð annarra kvenna. Þar lýsir Þórður sambandi Guðrúnar Jónasson (1877–1958) við tvær konur á þennan hátt:

„Einhver fegursta sjón, sem sézt hefur á götum Reykjavíkur, var þegar frú Guðrún Jónasson ók ástmey sinni, frú Bergljótu Sigurðardóttir, konu Haraldar Níelssonar, í hjólastól fram og aftur um bæinn. Þær sýndust svífa í loftinu eins og einhverjar æðri verur úr æðri heiminum. Hin lesbiska fegurð, hin lesbiska sæla, hinn lesbiski fögnuður skein út úr ásjónum þeirra. En þegar Haraldur ók konu sinni í hjólastólnum, var engu líkara en hann væri að rogast með saltpoka. Þannig er hjónabandsástin.

En nú kom að því, að Haraldur sá ofsjónum yfir sælu þeirra Guðrúnar og Bergljótar. Hann kærði frú Guðrúnu Jónasson fyrir að sýna frú Bergljótu ofmikla ást. Hann lét yfirvöldin stía þeim í sundur. Frú Bergljót andaðist skömmu síðar úr sorg og söknuði, en frú Guðrún Jónasson fann huggun hjá Gunnþórunni sinni.“ (bls. 153)

„Hann lét yfirvöldin stía þeim í sundur. Frú Bergljót andaðist skömmu síðar úr sorg og söknuði, en frú Guðrún Jónasson fann huggun hjá Gunnþórunni sinni.“

Vitað er að Guðrún og Gunnþórunn Halldórsdóttir (1872–1959) bjuggu saman í fjóra áratugi og það gefur orðum Þórðar byr undir báða vængi. Við vitum þó ekkert um samband Guðrúnar og Bergljótar Sigurðardóttur (1875–1915). Samkvæmt minningargrein sem birtist í vikublaðinu Íslendingi dó Bergljót ekki fyrr en árið 1915 en þá höfðu Guðrún og Gunnþórunn rekið saman verslun í tíu ár og búið saman í að minnsta kosti sex ár ef marka má Bæjarskrá Reykjavíkur (1909, bls. 25–26).

Áhugaverðar heimildir er að finna í skjalasafni Ingibjargar H. Bjarnason (1867–1941) á Kvennasögusafni Íslands en hún sat á þingi um skeið, kenndi lengi við Kvennaskólann í Reykjavík og stýrði honum um árabil. Safnið inniheldur nokkur bréf frá Ingibjörgu Guðbrandsdóttur, eða Ingibjörgu Brands (1878–1929), sem rituð voru í kringum aldamótin 1900 og vitna um heitar tilfinningar hennar í garð nöfnu sinnar Bjarnason. Sem dæmi má nefna bréf sem ritað er þegar Ingibjörg Bjarnason er líklega erlendis. Hún hefur beðið nöfnu sína Brands um að gera sér greiða og þeirri málaleitan svarar sú síðarnefnda ögrandi og í gamansömum tón:

„[Jeg] sit hjer og skrifa minni kæru vinu og skoða krók og kring, það sem á eftir að hafa þá æru, já og hefur haft þá æru að vera í hennar sæta munni, nefnilega tvær tennur, sem jeg nú sendi á augnabliki en jeg sleppi þeim ekki nema með því móti að jeg fái 100 kossa fyrir ómakið það má hreint ekki minna vera helst 150 viltu ganga að þessu eða ekki???“

Ingibjörg Brands pakkar tönnunum í öskju og býr sig undir að fara út á pósthús en kveður með þessum orðum:

„Kannski að jeg hætti nú þessu gríni, sem er þó satt. Vertu margblessuð elskan mín góð og guð gefi þjer mörg gleðileg nýár já og helst ástrík, því algjör gleði getur það ekki verið nema maður elski einhvern og offri sjer fyrir ekki satt? en svo verður viðkomandi helst að sína það sama á móti. Svo þakka jeg þjer mörgum sinnum fyrir þinn góða kunningsskap og seinna vinskap sem þú hefur mjer auðsínt, en jeg borga líka í sömu mynt, það erað segja þjer, því jeg er þín einlæg elskandi vina Imba Brands.“

„því algjör gleði getur það ekki verið nema maður elski einhvern og offri sjer fyrir ekki satt?“

Fleiri áþekk bréf frá Ingibjörgu Brands er að finna í skjalasafni Ingibjargar Bjarnason. Þar segist Ingibjörg Brands telja dagana þar til hún fái að sjá hina „fögru ásjónu“ nöfnu sinnar og kveðst vera henni „dygg til dauðans“. Árið 1904 er greinilegt að nöfnurnar hafa rætt um að taka upp búsetu saman þegar Ingibjörg Bjarnason, sem þá var búsett erlendis, flytti til landsins. Þegar hún hvorki svarar bréfum né reynist meðal farþega millilandaskipa skrifar Ingibjörg Brands henni og segist flytja vonsvikin og einsömul inn í herbergi hjá frú Gíslason sem henni þyki sárt. Hún lýkur bréfinu með orðunum „það sem verður að vera viljugur skal hver bera“.

Ingibjörg Brands var orðuð við fleiri konur í gegnum tíðina. Hún bjó um árabil með tónlistarkonunni Elínu Matthíasdóttur (1883–1918) í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Reykjavík og eftir að Elín giftist Jóni Laxdal árið 1912 var Ingibjörg skráð til heimilis með þeim hjónum um hríð. Síðar bjó Ingibjörg með listakonunni og bóksalanum Sigríði Björnsdóttur (1879–1942), eins og ráða má af Bæjarskrá Reykjavíkur, t.d. árin 1912, 1917 og 1920. Áðurnefndur Þórður Sigtryggson ýjar að því í endurminningum sínum að þessi sambönd hafi verið ástarsambönd þegar hann segir að Sigríður hafi búið árum saman með Ingibjörgu og Elín Matthíasdóttir hafi verið „fyrri eiginkona“ Ingibjargar (bls. 7).

Ingibjörg Brands og Elín skrifuðu Sigríði reglulega bréf á árunum 1906–1912, til dæmis frá Reykjavík, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi, en þau eru varðveitt eru á Borgarskjalasafni. Í bréfunum segja þær oft frá samverustundum sínum, hjólaferðum, fyrirlestrum, leikhúsferðum, matmálstímum og fleira. Af orðalagi bréfanna, þar sem þær vísa til dæmis til sín með orðunum „við Imba“ eða „við Elín“, má sjá að samband þeirra, hvernig sem því var háttað, hafði sérstakan sess í hugum þeirra beggja og var frábrugðið sambandi þeirra við aðra. Til dæmis segir Elín frá því að þær hafi verið voða fegnar að fá sérherbergi þegar þær voru á ferðalagi með þremur öðrum konum í Svíþjóð og voru mest út af fyrir sig. Auk þess hafa lýsingar Ingibjargar oft á sér léttan, rómantískan blæ og bera vott um aðdáun í garð Elínar.

„Af orðalagi bréfanna … má sjá að samband þeirra, hvernig sem því var háttað, hafði sérstakan sess í hugum þeirra beggja og var frábrugðið sambandi þeirra við aðra.“

Hrafnhildur Schram hefur fjallað um líf og starf myndhöggvarans Nínu Sæmundsson (1892–1965) í bókinni Nína S. Þar kemur óbeint fram að Nína átti í ástarsamböndum við konur, lengst af Polly James (1910–2000) sem vann sem handritshöfundur, m.a. fyrir kvikmyndafyrirtækið Universal Studios. Nína og Polly bjuggu saman í litlu einbýlishúsi við Camrose Drive í Los Angeles í um tvo áratugi þar til Nína flutti aftur til Íslands árið 1955 (bls. 102–110). Samband þeirra var mjög náið eins og sjá má á bréfum sem Polly skrifaði Nínu en þau eru varðveitt í skjalasafni Nínu á handritadeild Landsbókasafns Íslands. Eftir heimkomuna átti Nína enn fremur nána vinkonu, Sesselju Stefánsdóttur píanóleikara (1909–1963) (Nína S., bls. 147).

Þegar Nína var við nám við Konunglegu listakademíuna í Kaupmannahöfn á 2. áratugnum kynntist hún Inge Ebstrup (1899–1977) sem einnig var nemandi við skólann. Með þeim tókst mikil vinátta, þær unnu og ferðuðust saman og skrifuðust á alla tíð ef þær voru ekki staddar í sama landi. Nína skrifaði Inge til dæmis bréf þegar hún lá á berklahæli í Sviss árin 1920–1921 en þau eru í vörslu Hrafnhildar Schram. Bréfin eru afar tilfinningarík og greinilegt er að Nína bar mjög sterkar tilfinningar í garð vinkonu sinnar og saknaði hennar, þótt við vitum ekki hvernig Inge var innanbrjósts. Nína skrifar til dæmis:

„hvor er tiden blivet lang at vi bliver borte fra hinanden vil altid mine tanker söge – et hvilested hos Dig – – og det ved Du.“ (29. maí 1920)

„mine tanger til dig Inge og gad at du hjælper mig i gennem de mörke veje – gennem min ensom vandring som jeg maa i gennem for end vi mödes igen – min længsel at se dig igen hjælper meg over alt – –“ (27. júlí 1920)

„Kære Inge – det er kun saa smukt at græde af fölelser som kun alene ens hjerte forstaar – hvorfor staar vi saa tidt Tavse overfor dem som bærer smerte og sorg – er det fordi vi föler for lidt eller for meget.“ (30. desember 1920)

„Kære du – jeg ved ikke hvorfor jeg har svært med at faa et Brev færdigt til Dig – min længsel epter dig – da jeg skriver kan kvile mine tanker.“ (2. janúar 1921)

Hrafnhildur greinir frá því að algengt hafi verið að svo sterk og náin vinátta myndaðist meðal listakvenna á fyrri hluta 20. aldar (bls. 68). Einnig virðist sem að í listheiminum hafi oft myndast ákveðið rými fyrir hinseginleika.

„jeg ved ikke hvorfor jeg har svært med at faa et Brev færdigt til Dig – min længsel epter dig – da jeg skriver kan kvile mine tanker.“

Loks má nefna að í skjalasafni Ingibjargar Ólafsson á Borgarskjalasafni Reykjavíkur eru varðveitt bréf sem sambýliskona hennar til margra ára, Despina Karadja, skrifaði Guðrúnu Halldórsdóttur, bróðurdóttur Ingibjargar, en þær voru í bréfasambandi í nokkur ár eftir lát Ingibjargar. Lýsingarnar í bréfunum bera vott um ást og virðingu Despinu í garð Ingibjargar. Þar sem þær voru báðar afar trúaðar konur er við hæfi að Despina tjáir tilfinningar sínar til Ingibjargar með orðaforða trúarinnar. Í litlu riti, Ingibjörg Ólafsson. En Minnesbok, sem Despina gaf út í minningu Ingibjargar árið 1962, lýsir hún sambandi þeirra með þessum orðum:

„Det blev, a Guds nåd givne, ofattbara rikedom att i 39 år åga Ingibjörgs vänskap och att i 37 år få dela med liv med henne. Jag kan aldrig nog tacka Gud – och henne själv – för allt hon gav och var för mig under dessa många lyckliga år. Han gav oss tillsammans. […] Hon var mig andligen till största hjälp och välsignelse, och den djupa kristna gemenskap vi hade i vårt hjem […] Hennes varma kärleksfulla vänskap har lärt mig att livets största skatt här på jorden är vän Gud giver os.“ (bls. 37–38)

Hér vekur athygli að Despina notar orðatiltækið „Han gav oss tilsammans“ til að lýsa aðkomu guðs að sambandi þeirra Ingibjargar. Minningarorðin virðast skrifuð á blöndu af dönsku og sænsku. Orðatiltækið hefur enga merkingu á sænsku en í danskri orðabók Christians Molbech frá 1833 stendur „Give sammen. At give et Par Folk sammen. ɔ: vie, ægtevie“ (bls. 374). Despina notar hér því orðalag sem er keimlíkt því sem notað var á dönsku þegar rætt var um að gefa tvo einstaklinga saman í hjónaband.

Heimildirnar sem við höfum um tilfinningar sem konur báru hver til annarrar á fyrstu áratugum 20. aldar eru æði ólíkar, allt frá persónulegum bréfum til endurminninga sem ritaðar eru af þriðja aðila mörgum áratugum eftir að atburðirnir sem lýst er áttu sér stað. Þórður Sigtryggsson talar um lesbíska fegurð, lesbíska sælu og lesbískan fögnuð þegar hann lýsir sambandi Guðrúnar Jónasson og Bergljótar Sigurðardóttur en sú frásögn er færð í stílinn og erfitt er að átta sig á henni. Aldrei er talað um slíkar tilfinningar berum orðum í bréfum kvennanna sjálfra, þ.e. tilfinningar sem tengjast augljóslega sam- eða tvíkynhneigð, þótt sum þeirra séu ansi tilfinningaþrungin, sérstaklega bréf Nínu Sæmundsson til Inge Ebstrup, bréf Ingibjargar Brands til Ingibjargar Bjarnason og lýsingar Despinu Karadja á sambandi hennar og Ingibjargar Ólafsson. Þegar kemur að því að túlka þær tilfinningar sem þessar heimildir tjá verður því að horfa annað en í átt til lesbískra ásta eins og við þekkjum það hugtak í dag.

„Þegar kemur að því að túlka þær tilfinningar sem þessar heimildir tjá verður því að horfa annað en í átt til lesbískra ásta eins og við þekkjum það hugtak í dag.“

Heimildirnar sem koma frá konunum sjálfum tjá ótvírætt mjög nána vináttu. Nína segist gráta af tilfinningasemi, hana lengir eftir Ingu og það að skrifa bréf til hennar léttir huga hennar en Nína átti erfitt á þessum tíma, lá einmana og veik á berklahæli í Sviss, langt frá vinum og ættingjum og framtíð hennar sjálfrar var í mikilli óvissu þótt hún væri einungis tæplega þrítug. Þær tilfinningar sem Despina tjáir í skrifum sínum eru annars eðlis þar sem Ingibjörg Ólafsson var lífsförunautur hennar í tæplega fjóra áratugi. Hún er þakklát Guði fyrir að hafa „gefið þær saman“ og gert þeim kleift að eiga djúpan, kristilegan og kærleiksríkan vinskap. Loks tjá skrif Ingibjargar Brands líkamlegri vináttu en hinar heimildirnar; hún gantast með hinn „sæta munn“ Ingibjargar H. Bjarnason og biður hana um hundrað kossa. Enn fremur segist hún elska hana og fórna sér fyrir hana en ýjar um leið að því að nafna hennar endurgjaldi þær tilfinningar ekki til fulls.

Heimildir sem þessar voru lengi lesnar sem vitnisburður um innilega platónska vináttu. Lillian Faderman vakti þó athygli á því í tímamótaverki sínu Surpassing the Love of Men að skilin milli vináttu og ástar- eða kynferðissambanda kvenna hafi ekki verið jafn skýr á 19. öld og við lok 20. aldar. Þá var talið ásættanlegt og jafnvel æskilegt að konur úr efstu stéttalögum samfélagsins leituðu til annarra kvenna til að uppfylla tilfinningalegar þarfir sínar. Þau sambönd sem urðu til við þessar aðstæður kallar Faderman rómantíska vináttu en frekari rannsóknir hafa sýnt að innan þess ramma myndaðist rými fyrir ástar- og kynferðissambönd. Í rómantískri vináttu fólust því sterk tilfinningatengsl kvenna á milli og stundum, en ekki endilega, kynlíf og kynferðisleg nánd. Rómantíska vináttan var stéttbundið fyrirbæri og stéttarstaða þeirra borgaralegu kvenna sem áttu í slíkum samböndum, ásamt kvenlegri kyntjáningu þeirra, var framan af vörn gegn því að litið væri á þau sem ósiðleg og óæskileg (bls. 15–20). Þær íslensku konur sem hér hefur verið fjallað um tilheyrðu sömu stétt og rómantísku vinkonurnar sem Faderman skrifar um og því er óhætt að fjalla um sambönd þeirra á forsendum rómantískrar vináttu. Sú staðreynd að konur úr borgarastétt í Reykjavík áttu í rómantískum vináttusamböndum sýnir því að innleiðing borgaralegrar menningar á Íslandi skapaði rými fyrir hinsegin ástir meðal kvenna í þéttbýli.

„… innleiðing borgaralegrar menningar á Íslandi skapaði rými fyrir hinsegin ástir meðal kvenna í þéttbýli.“

En hvers vegna komumst við ekki nær því að átta okkur á tilfinningum kvennanna, jafnvel þótt við höfum aðgang að persónulegum bréfum?

Í sumum tilfellum virðist um augljósar eyður í heimildum að ræða. Það vantar til að mynda öll persónuleg bréf milli Despinu og Ingibjargar Ólafsson í safn hinnar síðarnefndu á Borgarskjalasafni Reykjavíkur. Ingibjörg var mjög pennaglöð kona og það er engin ástæða til að ætla að hún hafi vanrækt að skrifa lífsförunauti sínum þegar hún var á ferðalögum, sem hefur væntanlega verið alloft, sérstaklega þegar hún vann sem aðalframkvæmdastjóri KFUK á Norðurlöndunum. Bréfunum hefur því líklega á einhverjum tímapunkti verið eytt, mögulega af því að þau hafa þótt ljóstra upp um tilfinningar sem voru fordæmdar af samfélaginu.

Annað dæmi um slíka eyðu er skjalasafn Ingibjargar H. Bjarnason. Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir segir frá því í MA-ritgerð sinni Misstu þær marksins rétta? að talað hafði verið um að Ingibjörg hafi verið talin hneigjast til kvenna og að sögur hafi gengið um að hún hafi verið í sambandi með Ragnheiði Jónsdóttur skólastýru (bls. 97). Það hefur Sigríður eftir Arndísi Guðmundsdóttur mannfræðingi sem heyrði sögurnar í viðtölum sem hún tók við reykvískar konur. Nafnlausar ábendingar til aðstandenda þessa verkefnis hafa auk þess greint frá því að bréf frá konum í skjalasafni Ingibjargar hafi verið brennd í aðdraganda þess að bók um sögu Kvennaskólans í Reykjavík var rituð en hún kom út árið 1974. Ástæðan var sú að bréfin þóttu ósiðleg. Það fylgir þó ekki sögunni hvað hafi gert það að verkum að þau hlutu þann dóm og við munum líklega aldrei komast að því.

Samband Elínar Matthíasdóttur og Ingibjargar Brands er annað dæmi um nána vináttu sem flókið er að lesa í. Ingibjörg átti í nánum samböndum við konur alla sína ævi og hennar tilfelli er eitt af fáum þar sem heimildir gefa til kynna líkamlegt eða kynferðislegt athæfi milli kvenna. Þar sem bæði Ingibjörg og Elín skrifuðu Sigríði Björnsdóttur reglulega bréf á nokkurra ára tímabili má lesa þar nokkuð ítarlega um hagi þeirra og sambúð. Fyrir utan hinn rómantíska blæ sem sum bréfanna hafa yfir sér er þó fátt hægt að fullyrða um samband þeirra út frá bréfaskriftunum. Slíkt er enda ef til vill ekki nauðsynlegt eða æskilegt þar sem mörk vináttu, rómantíkur og erótíkur voru dregin á annan hátt meðal borgaralegra kvenna í kringum aldamótin en nú á dögum eins og Faderman hefur bent á.

„… mörk vináttu, rómantíkur og erótíkur voru dregin á annan hátt meðal borgaralegra kvenna í kringum aldamótin en nú á dögum.“

Erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós að um og upp úr aldamótunum 1900 var ekki búið að mynda eins sterkan túlkunarramma um hinsegin sambönd og ríkir í dag. Konur sem elskuðu aðrar konur áttu stundum erfitt með að færa tilfinningar sínar í orð þar sem þær skorti orðfæri og orðaforða sem lýsti þeim. Einnig settu þær tilfinningar sínar stundum í samhengi sem okkur þykir nokkuð framandi í dag. Julian Carter hefur í grein sinni „On Mother-Love“ til dæmis leitt í ljós hvernig ákveðinn hópur bandarískra kvenna samsamaði sig ekki við ríkjandi hugmyndir um hinsegin konur við upphaf 20. aldar, þ.e. að þær væru karlar í röngum líkama. Bréfarannsóknir Carters leiða í ljós að ríkjandi orðræða um móðurást var sú sem þessum konum þótti komast næst því að lýsa tilfinningum sínum í garð ástkvenna sinna. Því drógu lýsingar þeirra á eigin samböndum við aðrar konur dám af samtímahugmyndum um ást milli móður og dóttur (bls. 128–138). Á hliðstæðan hátt má t.d. ráða af bréfum Despinu Karadja að trúarorðræða hafi gefið henni og Ingibjörgu Ólafsson það samhengi sem þær þurftu til að tjá þær tilfinningar sem þær báru til hvor annarrar.

Prentaðar heimildir

Bæjarskrá Reykjavíkur. Útg. Björn Jónsson, Ólafur Björnsson og Pjetur G. Guðmundson, Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, Gutenberg og Prentsmiðjan Acta, 1902–1935. Slóð: https://timarit.is/view_page_init.jsp?pubId=575

Carter, Julian, „On Mother-Love: History, Queer Theory, and Nonlesbian Identity“, Journal of the History of Sexuality 14:1/2 (2005), bls. 107–138.

Faderman, Lillian, Surpassing the Love of Men: Romantic Friendship and Love between Women from the Renaissance to the Present, London: Junction Books 1981.

„Frú Bergljót Sigurðardóttir“, Íslendingur 23. júlí 1915, bls. 64. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=5145809

Hrafnhildur Schram, Nína S. Nína Sæmundsson 18921965. Fyrsti íslenski kvenmyndhöggvarinn, Reykjavík: Crymogea 2015.

Ingibjörg Ólafsson. En Minnesbok. Útg. Despina Karadja. Kaupmannahöfn: Bianco Lunos Bogtrykkeri A/S 1962.

Molbech, Christian, Dansk ordbog indeholdende det danske sprogs stammeord tilligemed afledede og sammensatte ord, efter den nuvaerende sprogbrug forklarede i deres forskiellige betydninger, og ved talemaader og exempler oplyste I bindi, Kaupmannahöfn: Gyldendal 1833.

Þórður Sigtryggsson, Mennt er máttur. Tilraunir með dramb og hroka, Reykjavík: Omdúrman 2011.

Óprentaðar heimildir

BR. Einkaskjalasafn nr. 11. Sigríður Björnsdóttir. Slóð: http://www.borgarskjalasafn.is/desktopdefault.aspx/tabid-4970/6667_read-1442/start-s/6630_view-2789/

BR. Einkaskjalasafn nr. 506. Ingibjörg Ólafsson. Slóð: http://www.borgarskjalasafn.is/Portaldata/21/Resources/borgarskjalasafn/skjalaskra/einstaklingar/Ingibjoerg__lafsson_(506).pdf

Í einkaeigu. Bréf Nínu Sæmundsson til Ingu Ebstrup 1920–1921. Í vörslu Hrafnhildar Schram.

KSS. 13 og KSS. 2018/17. Ingibjörg H. Bjarnason. Einkaskjalasafn. Slóð: http://einkaskjol.is/index.php/ingibjorg-h-bjarnason-f-1868

Lbs-Hdr. 7 NF. Nína Sæmundsson. Einkaskjalasafn. Slóð: https://landsbokasafn.is/uploads/handritaskrar/N%C3%ADna%20S%C3%A6mundsson.pdf

Lbs. Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir, Misstu þær marksins rétta? Ógiftar konur á Íslandi um aldamótin 1900. MA-ritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands 1999.