Margar af þeim konum sem fjallað er um á þessum vef eiga það sameiginlegt að hafa dvalið erlendis í lengri eða skemmri tíma. Íslendingar ferðuðust fæstir út fyrir landsteinana á 17. og 18. öld og allra síst íslenskar konur. Það var helst á færi örfárra stúdenta og embættismanna að komast til annarra landa og lá þá leiðin oft til Danmerkur. Undir lok 19. aldar fengu þó fleiri tækifæri til að færa sig um set, enda voru árin 1870-1914 tími mikils hreyfanleika á heimsvísu. Íslenskar konur gátu þannig í auknum mæli farið utan og dvalið í öðrum löndum til lengri eða skemmri tíma, oft við nám eða vinnu. Þótt drægi mjög úr fólksflutningum í heiminum eftir fyrri heimsstyrjöld sótti enn nokkur fjöldi Íslendinga menntun sína til útlanda og það varð sífellt algengara að konur væru í þeim hópi. Möguleikarnir ultu vissulega á efnum og stéttarstöðu. Rannsóknir Sigríðar Matthíasdóttur og Þorgerðar Einarsdóttur á flutningum kvenna til Vesturheims hafa til dæmis leitt í ljós að flestar þeirra einhleypu kvenna sem fluttust vestur um haf tímabilinu 1870–1914 voru af millistétt (bls. 15). Íris Ellenberger hefur jafnframt bent á að konur af hinni ráðandi stétt voru mjög hreyfanlegar, dvöldu oft erlendis og áttu í sífelldum bréfaskrifum og gjafasendingum milli landa (bls. 41–50). Það er því kannski ekki að undra að konur úr efri stéttum samfélagsins voru þær sem helst komust í kynni við hinsegin rými erlendis, eins og listheiminn og kvennahreyfinguna, og þar með nýja möguleika til að lifa og elska sem þær fluttu með sér til Íslands.

Flestar af þeim konum sem hér er fjallað um og tengjast útlöndum voru íslenskar konur sem héldu erlendis til náms eða vinnu. Þó eru einnig dæmi um konur af erlendum uppruna eins og Rósu Siemsen (1858–1907) og Þóru Bertelsen (1862–1950) en Ólafur Davíðsson, sem þá var nemi í Lærða skólanum í Reykjavík, skrifaði í dagbók sína veturinn 1881–1882 að þær svæfu í sama rúmi með „úttroðinn karl“ (bls. 138). Hann vísar þannig til þess að þær hafi átt í kynferðislegu sambandi en um sannleiksgildi þessarar sögu, eða hvernig sambandi Rósu og Þóru var háttað, er ekkert vitað. Rósa var dóttir Sigríðar Þorsteinsdóttur og Edvards Siemsen frá Glücksburg í Holstein. Samkvæmt manntalinu 1880 var Thora Bertelsen systir Marie Krüger, eiginkonu Niels Schmidt Krüger lyfsala í Reykjavíkurapóteki, en fjölskyldan hefur líklega verið frá þýskumælandi héruðum á Suður-Jótlandi. Hvorki Rósu né Þóru er getið í manntölum eftir 1880 og því er sennilegast að þær hafi báðar flutt af landi brott á 9. áratug 19. aldar.

Algengt var að heldri stéttar fólk á Íslandi á 19. öld og í upphafi 20. aldar hefði sterk tengsl við Danmörku og það átti einnig við um margar konur. Sigríður Björnsdóttir (1879–1942) myndlistarkona var til dæmis fædd í Danmörku og bjó þar með foreldrum sínum þar til að hún var fjögurra ára gömul, eins og Hrafnhildur Schram segir frá í ritinu Huldukonur í íslenskri myndlist (bls. 132–149). Sigríður stundaði einnig listnám í Kaupmannahöfn við upphaf 20. aldar og starfaði þar eitt ár í postulínsverksmiðju að námi loknu en fluttist síðan til Íslands. Hún virðist hafa óskað sér þess heitast að búa til langframa í Kaupmannahöfn, sinna starfi sínu í verksmiðjunni og eiga sér sjálfstætt líf fjarri heimilisstörfum. Hrafnhildur greinir frá því að foreldrar Sigríðar þrýstu á hana að koma heim, sem hún gerði að lokum, að því er virðist hálfpartinn gegn vilja sínum (bls. 140–145). Sigríður tók einarða afstöðu gegn því að ganga í hjónaband, eins og sjá má á skjölum í einkaskjalasafni hennar sem varðveitt er á Borgarskjalasafni. Hún átti í nánum vináttusamböndum við konur og í Bæjarskrám Reykjavíkur (t.d. 1912, 1917 og 1920) má sjá að hún bjó um árabil með Ingibjörgu Guðbrandsdóttur, eða Ingibjörgu Brands (1878–1929), sem hafði einnig lært í Kaupmannahöfn en hún nam leikfimikennslu við Statens Lærhøjskole veturinn 1902–1903.

 

„Sigríður tók einarða afstöðu gegn því að ganga í hjónaband …“

 

Í grein Svanhildar Óskarsdóttur um Ingibjörgu Ólafsson (1886–1962) kemur fram að Ingibjörg fluttist til Kaupmannahafnar og stundaði nám við lýðháskóla í nokkur ár á fyrsta áratug 20. aldar. Árið 1912 fluttist hún aftur til Hafnar til að gegna starfi framkvæmdastjóra Kristilegs félags ungra kvenna (KFUK), fyrst í Danmörku og svo á Norðurlöndum. Hún átti aldrei eftir að setjast aftur að á Íslandi en þegar hún lést árið 1962 hafði hún verið búsett á Suður-Englandi í fjóra áratugi með lífsförunauti sínum, Despinu Karadja.

Í þessu samhengi er áhugavert að minnast á dvöl Katrínar Thoroddsen (1896–1970) í Berlín árið 1923, sem var hluti af námi hennar í læknisfræði, eins og Kristín Ástgeirsdóttir hefur fjallað um (bls. 21–22). Katrín var sjálfstæð menntakona og þekkt fyrir að klæðast jakkafötum og bindi, vera með stuttklippt hár og brjóta þannig í bága við hefðbundnar hugmyndir um kvenleika. Berlín var á millistríðsárunum einn helsti suðupottur hinsegin menningar og aktívisma í Evrópu. Undir stjórn læknisins og umbótasinnans Magnusar Hirschfelds var umfangsmikil starfsemi í borginni í þágu réttarbóta og lækninga fyrir hinsegin fólk. Enn fremur var Hirschfeld, líkt og Katrín, ötull stuðningsmaður kvenréttinda, getnaðarvarna og frjálslyndis í kynferðismálum. Þar sem ekkert hefur varðveist af persónulegum heimildum Katrínar frá þessum tíma er ekki vitað hvort eða hvernig hún tók þátt í þessu samfélagi í Berlín en líklegt verður að telja að hún hafi haft einhverja vitneskju um það.

Vesturfarar eiga jafnframt sinn fulltrúa í hópi hinsegin kvenna. Guðrún Jónasson (1877–1958) fluttist til Kanada með fjölskyldu sinni árið 1888, þegar hún var 11 ára gömul, og sneri ekki aftur til Íslands fyrr en 16 árum síðar. Skömmu eftir komuna til Íslands kynntist hún Gunnþórunni Halldórsdóttur (18721959) leikkonu en ef marka má minningargrein um Gunnþórunni var Guðrún kostgangari hjá móður Gunnþórunnar veturinn 1905 (bls. 12). Þær stöllur ráku síðan saman verslun, ólu upp fósturbörn í sameiningu og héldu saman heimili í áratugi og voru því sannkallaðir lífsförunautar. Gunnþórunn dvaldi einnig erlendis, til dæmis í Kaupmannahöfn árið 1905 í þeim tilgangi að kynna sér leiklistarsenuna þar í borg.

 

„Þær stöllur ráku síðan saman verslun, ólu upp fósturbörn í sameiningu og héldu saman heimili í áratugi og voru því sannkallaðir lífsförunautar.“

 

Algengt var að konur sem sóttust eftir sérhæfðri menntun þyrftu að fara utan. Sigríður Zoëga (1889–1968) hlaut til dæmis menntun í ljósmyndun í Kaupmannahöfn og Köln á árunum 1911–1914 og dvaldi talsvert erlendis eftir það í tengslum við störf sín sem ljósmyndari. Hún rak auk þess ljósmyndastofu með Steinunni Thorsteinsson (1886–1978) og þær héldu saman heimili í Reykjavík í um 50 ár, eins og Æsa Sigurjónsdóttir hefur greint frá. Listnám var einnig ástæða þess að tónlistarkonurnar Elín Matthíasdóttir (1883–1918) og Sesselja Stefánsdóttir (1909–1963) fóru til náms erlendis, Elín við upphaf 20. aldar en Sesselja undir lok 3. áratugarins. Elín lagði stund á söngnám við Konunglega tónlistarskólann í Kaupmannahöfn á konunglegum styrk, eins og Jón Þórarinson greinir frá í greininni „Konur í íslenskri tónlist“ (bls. 5–6). Hún var náin vinkona Ingibjargar Brands og Sigríðar Björnsdóttur og bjó með þeirri fyrrnefndu um árabil, bæði erlendis og á Íslandi. Árið 1932 fjallaði tímaritið Listviðir um Sesselju í greininni „Ný íslensk listamannaefni“ (bls. 10–11). Þar kemur fram að hún fór út til Berlínar til náms í píanóleik árið 1929 og þar átti hún eftir að búa í 17 ár. Síðar kynntist hún myndhöggvaranum Nínu Sæmundsson (1892–1965) en þær voru nánar vinkonur síðustu æviár Sesselju. Kolbrún Bergþórsdóttir segir að samband þeirra hafi „stuðað borgarana“ í Reykjavík (bls. 19). Nína flutti einnig ung til Kaupmannahafnar til að læra myndlist og dvaldi mestan hluta ævinnar erlendis, eins og Hrafnhildur Schram greinir frá í bókinni Nína S. Hún flutti til dæmis til Bandaríkjanna þar sem hún starfaði að list sinni um áratugaskeið og bjó sér heimili með handritshöfundinum Polly James (1910–2000) (bls. 102–110).

 

Það er áhugavert hversu margar borgaralegar hinsegin konur um og eftir aldamótin 1900 höfðu tengsl við útlönd en þá verður að líta til þess að það þótti til vitnis um sterka stéttarstöðu að vera sigldur. Eins og rannsóknir Írisar Ellenberger hafa leitt í ljós notuðu konur af heldri stéttum oft tengsl sín við útlönd til að viðhalda stéttarstöðu sinni (bls. 41–50). Hluti af þeirri viðleitni fólst í að dvelja erlendis um skeið, helst í uppbyggilegum tilgangi eins og til að hljóta fræðslu eða menntun. Íþrótta- og listnám erlendis undirstrikaði því stéttarstöðu þeirra ungu kvenna sem héldu utan og fleytti þeim upp samfélagslega virðingarstiga.

Hér sjáum við hvernig hinseginleiki og stéttarstaða fléttast saman. Sú reynsla og menntun sem konurnar hlutu erlendis gerði þeim kleift að lifa sjálfstæðu lífi utan hjónabands, ýmist einar eða í félagi við kvenkyns lífsförunauta. Þær sem dvöldu erlendis gátu einnig fundið fyrirmyndir í fjölmörgum kvennapörum innan kvennahreyfingarinnar, því það var tiltölulega algengt að borgaralegar kvenréttindakonur í Evrópu byggju saman og/eða ættu í ástarsamböndum við konur til lengri eða skemmri tíma. Kvennapör og rómantísk vinátta kvenna var hluti af borgaralegri menningu víða á meginlandi Evrópu og því má hugsa sér að sambúð heldri stéttar kvenna hafi gegnt vissu hlutverki við að undirstrika stéttarstöðu þeirra, bæði á Íslandi og erlendis.

Það er væntanlega engin tilviljun að margar kvennanna sem fjallað er um hér fóru út fyrir landsteinana í ýmiss konar listnám. Myndlist, leiklist og tónlist gegndu mikilvægu hlutverki í menningu borgarastéttarinnar í Evrópu, þá ekki síst við að undirstrika stéttarstöðu. Slíkri hámenningu var gjarnan teflt fram sem æskilegri og uppbyggilegri samanborið við svokallaða lágmenningu hinna lægri stétta, sem þótti gróf, ófáguð og óæskileg (Belfiore og Bennett, bls. 1–39). Komið hefur í ljós að innan listheimsins urðu gjarnan til hinsegin rými, bæði á Íslandi og erlendis. Í skrifum Hrafnhildar Schram um Nínu Sæmundsson kemur til að mynda fram að listin var leið fyrir konur til að halda sjálfstæði sínu og skapa sér líf utan hjónabands, vinátta listakvenna var oft mjög náin og þær deildu oft húsnæði og vinnuaðstöðu (bls. 7279, 102105). Það bendir til þess að þær hinsegin listakonur sem fluttu aftur til Íslands hafi ekki einungis flutt með sér listkunnáttu heldur einnig tilfinningu fyrir listum sem vettvangi fyrir hinseginleika.

Prentaðar heimildir

„Ánægjulegast að vinna að mannúðarmálum. Samtal og greinar um frú Guðrúnu Jónasson bæjarfulltrúa 75 ára“, Morgunblaðið 8. febrúar 1952, bls. 5 og 8. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1283807

Belfiore, Eleonora og Oliver Bennett, The Social Impact of the Arts. An Intellectual History. [Útgáfustaðar ekki getið]: Palgrave Macmillan UK, 2008.

Bæjarskrá Reykjavíkur. Útg. Björn Jónsson, Ólafur Björnsson og Pjetur G. Guðmundson, Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, Gutenberg og Prentsmiðjan Acta, 1902–1935. Slóð: https://timarit.is/view_page_init.jsp?pubId=575

„Guðrún Jónasson fyrrv. bæjarfulltrúi“, Morgunblaðið 14. október 1958, bls. 8. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1318354

„Gunnþórunn Halldórsdóttir leikkona – Minning“, Morgunblaðið 24. febrúar 1959, bls. 12. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1320748.

Hrafnhildur Schram, Huldukonur í íslenskri myndlist. Reykjavík: Mál og menning 2005.

Hrafnhildur Schram, Nína S. Nína Sæmundsson 18921965. Fyrsti íslenski kvenmyndhöggvarinn. Reykjavík: Crymogea 2015.

Íris Ellenberger, „Að klæða af sér sveitamennskuna og þorparasvipinn. Hreyfanleiki og átök menningar í Reykjavík 1890–1920, Saga 56:2 (2018), bls. 19–56.

Kolbrún Bergþórsdóttir, „Nína í Hollywood“, DV 6. nóvember 2015, bls. 18–19. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=6798858

Sigríður Matthíasdóttir og Þorgerður Einarsdóttir, „Single women who emigrated from Iceland to North America, 18701914. Forgotten women with agency?“ Scandia 82:1 (2016), bls. 10–34.

„Tilhugalíf og tónlist“, Vísir 12. júlí 1962, bls. 9 og 13. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2361185

Æsa Sigurjónsdóttir, „Sigriður Zoëga 1889–1968: Icelandic Studio Photographer“, History of Photography 23:1 (1999), bls. 28–35. Slóð: https://www.tandfonline.com/doi/abs/10.1080/03087298.1999.10443794

Æsa Sigurjónsdóttir, „Sigríður Zoëga. Ljósmyndari í Reykjavík“, Sigríður Zoëga. Ljósmyndari í Reykjavík. Ritstj. Inga Lára Baldvinsdóttir. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands, bls. 7–64.

 

Óprentaðar heimildir

BR. Einkaskjalasafn nr. 11. Sigríður Björnsdóttir. Slóð: http://www.borgarskjalasafn.is/desktopdefault.aspx/tabid-4970/6667_read-1442/start-s/6630_view-2789/

Vef. Svanhildur Óskarsdóttir, „Fröken Ingibjörg Ólafsson erindreki“, Árnastofnun, skoðað 19. september 2018. Slóð: http://www.arnastofnun.is/page/ingibjorg_olafsson

Vef. ÞÍ. Manntal 1880, Siemsenshús og Aphotekið, Reykjavíkursókn. Slóð: www.manntal.is.