Það er mjög óalgengt að skírskotað sé til kynlífs í heimildum frá 18., 19. og fyrri hluta 20. aldar. Þess vegna vitum við sjaldnast hvort náin vinátta tveggja kvenna hafi verið af kynferðislegum toga eða ekki. Þó er ýmislegt gefið í skyn eða látið felast í hlutarins eðli og því er hægt að byggja upp brotakennda mynd af kynlífi og kynhegðun kvenna á þessum tíma.

Ein af þeim sjaldséðu heimildum sem tala um kynlíf kvenna beinum orðum er þess eðlis að henni var líklega aldrei ætlað að koma fyrir almennings sjónir. Ólafur Davíðsson (1862–1903) skrifaði dagbók veturinn 1881–1882 og minnist þar á „óeðlilegt“ vinfengi þeirra Rósu Siemsen (1858–1907) og Þóru Bertelsen (1862–1950). Ólafur var skólapiltur í Lærða skólanum og jafnaldri Þóru. Hann hafði þá „fyrir löngu“ frétt að „úttroðinn karl finnist í rúminu hjá Rósu Siemsen og fr. Bertelsen. Karlinn var með öllum karlmannsskapnaði, svo það þarf ekki greindan mann til að geta sjer til um það, til hvers þær stall-systur hafi haft hann.“ Ólafur getur þess þó í neðanmálsgrein að sér finnist líklegra að um „úttroðinn penis“ hafi verið að ræða (1881–1882, bls. 204; 2018, bls. 138). Hér fellur sú staðreynd að konurnar deila rúmi því í skuggann af því hjálpartæki ástarlífsins sem þær eru sagðar nota.

Friðrik Eggerz (1802–1894) ýjar einnig sterklega að því í ritinu Úr fylgsnum fyrri aldar I (1950) að Þuríður Jónsdóttir (1791–1860) vinnukona og „vinkona“ hennar, Kristín Einarsdóttir (1789–1869), hafi stundað kynlíf. Friðrik segir: „Sváfu þær saman, og þótti vinfengi þeirra nokkuð óeðlilegt, og því var hún kölluð af sumum Þuríður graða. Aldrei áttu þær börn og voru saman meðan þær lifðu og voru í Vík á vorin, sem oftast frá Ballará.“ (bls. 432) Texti séra Friðriks er í það minnsta óvenju afdráttarlaus um einkalíf tveggja kvenna miðað við aðra texta frá 19. öld.

 

„Hann hafði þá „fyrir löngu“ frétt að „úttroðinn karl finnist í rúminu hjá Rósu Siemsen og fr. Bertelsen.““

 

Þessar tvær heimildir eru meðal þeirra örfáu sem fundist hafa og fjalla um kynlíf kvenna á því tímabili sem hér er til athugunar (1700–1960). Þó fela sögur af konum sem gátu börn með öðrum konum í sér að þær hafi stundað kynmök. Sumar konur höfðu slíkt orð á sér og voru fyrir vikið kallaðar „graðar“. Halldór Kristjánsson greinir í Tímanum árið 1962 frá „Gröðu-Helgu“ sem samkvæmt ömmu hans, Ingileif Steinunni Ólafsdóttur (f. 1841), hafði hlotið viðurnefnið vegna þess að „kvenmaður nokkur hafði einhvern tíma viljað kenna henni barn.“ (bls. 8) Málfríður Einarsdóttir segir jafnframt um Guðrúnu Sveinbjarnardóttur í Rásum dægranna (1986) að kynferði hennar hafi verið rangt úrskurðað við fæðingu og ýjar að því að það sé ástæða þess að henni og eiginmanni hennar, Þórði Thorgrímsen, hafi aldrei orðið barna auðið. Síðan skrifar Málfríður: „vinnukona prestsfrúarinnar kenndi henni barn og gat hún ekki borið það af sér.“ (bls. 148)

Heimildirnar sem hér eru notaðar til að skyggnast inn í samlífi tveggja kvenna á 19. öld höfðu allar gengið manna á milli áður en þær voru ritaðar niður. Það er því ómögulegt að draga nokkrar ályktanir um sannleiksgildi þeirra og raunar má telja líklegt að þær séu að mörgu leyti ýktar. Það er allavega ólíklegt að Rósa Siemsen og Þóra Bertelsen hafi haft uppstoppaðan karlmann á milli sín í rúminu en vel má vera að gervireður hafi verið notaður af íslenskum konum á 19. öld, enda eru slík hjálpartæki jafngömul mannkyninu. Við munum þó aldrei vita fyrir víst hvort Rósa og Þóra hafi gripið til viðlíka ráða eða hvort þær hafi yfirleitt átt í ástarsambandi.

Heimildirnar segja okkur aftur á móti að þegar kynlíf tveggja kvenna ber á góma, eða er gefið í skyn, þá er það fyrst og fremst sett í samhengi við afbrigðileika. Sögur um að Graða-Helga og Guðrún Sveinbjarnardóttir hafi getið öðrum konum barn gegna því hlutverki að undirstrika að þær voru afbrigðilegar auk þess sem Friðrik Eggerz beinlínis lýsir vinfengi Þuríðar Jónsdóttur og Kristínar Einarsdóttur sem óeðlilegu, svo ekki sé minnst á uppstoppaðan karlmann Rósu og Þóru. Í tilfelli Guðrúnar gegna slíkar sögur ótvírætt því hlutverki að vekja upp tortryggni í garð þessarar sjálfstæðu konu sem gat farið sínar eigin leiðir í lífinu. Þar með ógnaði hún hefðbundnum kynjahlutverkum sem voru undirstaða samfélagsskipanarinnar sem gerði ráð fyrir að konur ýmist giftust körlum eða ynnu í þjónustu annarra. Ekki er ljóst hvort Helga, Rósa og Þóra bjuggu yfir svipuðum eiginleikum en það er þó ekki ólíklegt ef litið er til þess að þær þóttu of sjálfstæðar og þar með karlmannlegar sem vakti upp grunsemdir og illt umtal.

Útgefnar heimildir

Friðrik Eggerz, Úr fylgsnum fyrri aldar I. Jón Guðnason sá um útgáfuna. Reykjavík: Iðunn 1950.

Halldór Kristjánsson, „Álftafjarðarheiði“, Tíminn, 21. desember 1962, bls. 8, 13. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1053221

Hundakæti. Dagbækur Ólafs Davíðssonar 1881–1884. Þorsteinn Vilhjálmsson annaðist útgáfuna. Reykjavík: Mál og menning 2018.

Málfríður Einarsdóttir, Rásir dægranna. Eftirlátin skrif. Reykjavík: Ljóðhús 1986.

 

Handrit

Lbs-Hdr. Lbs. 2686 8vo. Ólafur Davíðsson, Dagbók 1881–1882.