Réttindi kvenna voru lengi vel ákvörðuð út frá hjónabandi. Hjónabandið var lykill kvenna að tiltekinni stöðu og virðingu innan samfélagsins. Giftar konur voru alla jafna þær einu sem máttu fara fyrir búi, fyrir utan ekkjur, en aðrar konur urðu að láta sér nægja að vera í stöðu hjúa sem var stranglega bannað að stofna fjölskyldu. Í heimildunum sem hér er að finna má greina ýmiss konar afstöðu gagnvart hjónabandi; andóf, áhugaleysi, skírlífi og erfiðleika í samskiptum milli hjóna. Sumar kvennanna giftust en aðrar ekki. Sumum þeirra var reyndar meinað að giftast, þar sem þær voru hjú, og það gat veitt þeim tækifæri til að stofna til sambanda við aðrar konur, eins og sumar sjókonurnar eru dæmi um.

Ein þeirra kvenna sem fór óhefðbundnar leiðir í tengslum við hjónaband var Guðrún Þórðardóttir frá Felli sem var uppi á síðari hluta 17. aldar. Henni var lýst þannig af séra Jóni Jónssyni á Kvíabekk í bréfi frá 1777 að hún hefði verið „halldenn androgynus enn giftest þö Sr. Jone Gudmundss. i Felle.“ Í Íslenskum æviskrám er þess síðan getið að talið hafi verið að „hún hefði eigi eðli til þess að ala börn, enda fór stirðlega á með þeim“ (bls. 129). Ljóst er að hjónabandserfiðleikar Guðrúnar og Jóns eru raktir til hinseginleika Guðrúnar sem Jón lýsir með orðinu „androgynus“ sem vísar til óræðs kynferðis eða karlmannlegra eiginleika kvenna.

Líkt og dæmi Guðrúnar sýnir fáum við oft aðeins örlitla innsýn í hugarheim þeirra einstaklinga sem ritað er um og mjög takmarkaðar upplýsingar um hinseginleika þeirra. Þær fáu hinsegin konur sem við vitum að rituðu endurminningar sínar eru heldur ekki sérlega fjölorðar um slíkt. Helga Sigurðardóttir lýsir hjónabandi sínu á eftirfarandi hátt í handskrifuðum endurminningum (1911–1918):

„Svona liðu nú árin þessi, þar til jeg var 21 árs að jeg giptist 18. júlí 1868 Helga Jónssyni frá Árbæ í Holtum, og fór þangað tveimur dögum seinna. Nú hefði þurft að koma breyting á háttalag mitt, úr því jeg var gengin í þá stöðu, sem jeg var svo ónátturuð fyrir. „En enginn má sköpum renna.“ (bls. 10)

Meira fáum við ekki að vita um þessa „ónáttúru“ eða við hvað Helga átti nákvæmlega og því er ekki ljóst hvort eða hvernig hún var hinsegin.

„Nú hefði þurft að koma breyting á háttalag mitt, úr því jeg var gengin í þá stöðu, sem jeg var svo ónátturuð fyrir.“

Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi fjallaði reyndar nokkuð ítarlega um áhugaleysi Þuríðar Einarsdóttur formanns (1777–1863) á hjónabandi í ritinu Sagan af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum (1893–1897). Hún var heitbundin þremur mönnum um ævina og og giftist einum þeirra en ekkert sambandanna varð langlíft. Ættarfylgju Þuríðar, Skerflóðs-Móra, var kennt um hjónabandsólán hennar en hann var, samkvæmt Brynjólfi, afturganga förupilts sem faðir Þuríðar, Einar Eiríksson, úthýsti eitt sinn. Sjálf kenndi Þuríður Móra um ófarir sínar í ástamálum en aðrir röktu þær til skapgerðar hennar „því hún þótti jafnan heldur ráðrík, og eigi fallin til að vera undirgefin“ (bls. 45).

Háseti að nafni Jón var fyrsti maðurinn sem Þuríður hést. Hún sleit sambúðinni vegna þess að hann átti við drykkjuvandamál að stríða. Móra var kennt um vandræði Jóns en sagt var að hann hefði „slegið sjer að Jóni meðan Þuríður var hjá honum“ (bls. 21). Í frásögn Brynjólfs kemur samt sem áður fram að ráðríki Þuríðar hafi einnig haft sitt að segja „enda var henni margt betur gefið en umburðarlyndi“ (bls. 21). Þrátt fyrir hina yfirnáttúrulegu útskýringu Brynjólfs taldi hann því einnig að ókvenlegt lundarfar Þuríðar hefði valdið því að þau Jón áttu ekki skap saman.

Erlendur hét næsti heitmaður Þuríðar. Hann bað hennar og tók hún því vel en þegar hann talaði um hjónaband vildi hún bíða af ótta við Móra og sjá hvernig þeim farnaðist. Sumarið 1808 fæddi Þuríður dótturina Þórdísi en um svipað leyti fór annar maður, Þórður, að leggja hug á Þuríði og kom af stað þeim kvitti að hann væri faðir Þórdísar. Þegar Þuríður spurði Erlend hvort hann tryði sögusögnunum svaraði hann því fálátlega og í kjölfarið sagði Þuríður skilið við hann. Kvaðst hún eigi vilja eiga þann mann „sem tortryggir mig í því efni!“ (bls. 23) Aftur má sjá glitta í Móra í bakgrunni sögunnar og enn og aftur er það ákveðni Þuríðar sem gerir út um sambandið.

 

„Var það haft í flimtingi, að hún hefði eigi leyft honum að koma í rekkju hjá sjer.“

 

Síðasti karlmaðurinn sem getið er um í lífi Þuríðar var vinnumaðurinn Jón, sem bjó með Þuríði og vinnukonunni Ingibjörgu í Götu. Þegar Ingibjörg fór af heimilinu sagði Jón að hann myndi fara líka ef Þuríður myndi ekki giftast honum. „[L]jet hún tilleiðast, heldur en að sleppa honum.“ Giftust þau um haustið 1817 „[e]n þá leið eigi á löngu, áður en samlyndið tók að spillast. Var það haft í flimtingi, að hún hefði eigi leyft honum að koma í rekkju hjá sjer. En hversu sem það var, þá fór það svo að Jón gekk frá Þuríði vorið eftir“ (bls. 45).

Loks má geta Guðrúnar Sveinbjarnardóttur (1831–1916) en Málfríður Einarsdóttir segir í Rásum dægranna (1986) að hún hafi gengið með „rangt ákvarðað kynferði alla ævi, líklega sér og manni sínum til nokkurs meins.“ Maðurinn sem um ræðir hét Þórður Thorgrímsen og var prestur í Otradal í Arnarfirði. Málfríður segir að Guðrún hafi ráðið honum frá því að giftast sér. Þó varð það úr að þau gengu í hjónaband en engin urðu börnin, „nema hvað vinnukona prestsfrúarinnar kenndi henni barn og gat hún ekki borið það af sér“ (bls. 148). Soffía Auður Birgisdóttir rekur í grein um Guðrúnu að eftir tíu ára hjónaband yfirgaf hún eiginmann sinn, flutti í næstu sveit, Selárdal, og nokkrum árum síðar á Snæfellsnes. Þar settist hún loks að í Stykkishólmi og rak heimili, oft ásamt öðrum konum, til dauðadags. Hún og Þórður skildu þó aldrei að lögum. Sighvatur Grímsson Borgfirðingur segir í tíunda bindi „Prestaæfa“ að þegar Guðrún skildi við mann sinn hafi hún flutt með sér „flest það er fémætt [var] í þeirra eigu“ og gefur meðferð hennar á Þórði slæman dóm. Hann segir einnig að Guðrún hafi fengið viðurnefnið „Graða-Gunna“ (bls. 799–800). Loks segir Helgi Guðmundsson í Vestfirskum sögnum II að ósamlyndi Guðrúnar og Þórðar hafi verið „talið Guðrúnu að kenna, því að hann vildi gera henni allt það til geðs, sem hann gat. Furðaði menn á því, að Guðrún skyldi ekki geta lynt við slíkt prúðmenni og glæsimenni sem séra Þórður var. Héldu því nokkrir, að hún væri ekki gerð sem aðrar konur, og hafa gengið ýmsar sögur, sem áttu að sanna þetta. En þau hjón áttu ekkert barn saman.“ (bls. 43) Í þessum heimildum má sjá að enn og aftur er ákveðni eiginkonunnar talin spilla hjónabandi en hér er ástleysið einnig sett í samhengi við kynferðislega eða líffræðilega „ónáttúru“ og Guðrún, eins og fleiri konur sem storkuðu hefðbundnum kynjahlutverkum, fékk viðurnefni sem vísaði til ókvenleika eða karlmennsku.

Á 20. öld varð algengara að konur gætu staðið utan hjónabands í krafti stéttarstöðu sinnar, menntunar eða starfa. Sigríður Björnsdóttir (1879–1942), listakona og bóksali, var ein þeirra sem streittist ákaft gegn eiginkonuhlutverkinu og tók meðvitaða ákvörðum um að giftast ekki. Í skjalasafni Sigríðar má finna þrettán bónorðsbréf frá sjö vonbiðlum frá árunum 1898–1902, áður en hún hélt út til náms. Þau eru rituð af ungum efnilegum mönnum, sem sumir áttu eftir að verða landsþekktir. Sigríður hafnaði þeim þó öllum og var ógift til æviloka eins og Hrafnhildur Schram bendir á í bók sinni Huldukonur í íslenskri myndlist (bls. 138–139). Hún var einörð í ákvörðun sinni um að giftast ekki en í uppkasti að svarbréfi til eins vonbiðils skrifar hún í nokkuð hvössum tóni: „… ég vil benda yður á með þessum línum, annars hefði ég ekki tekið mér penna í hönd, heldur sent bréfið aftur sem þegjandi vott um að ég vil engin mök við yður eiga.“ Hvort Sigríður hreinritaði bréfið og sendi það eða lét sér nægja að endursenda bónorðsbréfið fáum við líklega aldrei að vita.

Vonbiðlar og hjónaband komu einnig nokkrum sinnum upp í bréfum Sigríðar og vinkvenna hennar í kringum aldamótin. Í bréfi frá árinu 1909 minnist Elín Matthíasdóttir (1883–1918) á þá ákvörðun Sigríðar að giftast ekki og ræðir eigin hug til hjónabands:

„Hann [Þórður] kveðst bera alvarlegar áhyggjur út af því að þú skulir vera svona „ein ung stúlka í miðri Kaupmannahöfn – hann er hræddur um að þú lendir í einhverjum slæmum solli […] Þú segist vera alveg frá því að giftast […] Jeg segi fyrir mig, jeg vil gjarnan giftast býð bara eftir manni og þessari góðu væntumþykju, en þó þetta aldrei komi þá er jeg samt ánægð, hef minn skóla sem jeg er nú að verða svo rótgróin. 

Elín bjó á þessum tíma með Ingibjörgu Guðbrandsdóttur (1878–1929), eða Ingibjörgu Brands, en átti síðar eftir að giftast Jóni Laxdal tónskáldi. Ingibjörg bjó þó áfram hjá þeim hjónum í nokkur ár.

„Aldrei var ég fyrir flangs / né faðmlög margra sveina.“

Þura Árnadóttir í Garði (1891–1963) var einnig alla tíð ógift en hún var, ólíkt Sigríði, í grunninn sveitakona sem sinnti búskap og heimilisstörfum stærstan hluta ævinnar. Hún tjáði sig talsvert um einstæðingsskap sinn í ljóðum sínum og ekki er að sjá að hún hafi haft áhuga á að verða eiginkona nema síður sé. Í greininni „Þá var mikið hlegið“, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1996, getur Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir sér til um hvers vegna Þura var ætíð ógift: „Ef til vill var það vegna sjálfstæðis hennar, gáfna og tildurleysis sem hún ekki giftist, líklega eru það ekki eiginleikar sem karlar litast fyrst og fremst eftir hjá konum. En það er hvergi að finna stafkrók um að hún hafi syrgt það hlutskipti sitt að vera ógift og barnlaus.“ (bls. 4) Sigríður vekur jafnframt athygli á því í greininni „Þura í Garði“, sem birtist í Árbók Þingeyinga 2015, að Þura hafi álitið hjónaband jafngilda fjötrum eða ófrelsi. Það kemur meðal annars fram í eftirfarandi vísum sem ekki komu út á prenti en skrifaðar eru upp eftir heimildafólki úr Mývatnssveit og geymdar í einkasafni Sigríðar:

Aldrei var ég fyrir flangs
né faðmlög margra sveina.
Nú er ég ekki góð til gangs,
göllunum skal ei leyna.

Aldrei hef ég tekið tvist
né trompunum eytt á hrökin.
Síðan ég gat flogið fyrst,
frjáls eru vængjatökin.

Þura var engu að síður bundin yfir heimilisstörfum mestallt sitt líf; að sjá um heimili og ala upp annarra manna börn. Hún átti fyrst möguleika á sjálfstæðu lífi eftir að móðir hennar dó. Í því samhengi er sérlega áhugavert að henni hafi fundist hún frjáls, svo fremi hún var ekki í hjónabandi.

Heimildirnar sem hér er fjallað um gefa til kynna að konur á 18. og 19. öld, sem á annað borð tilheyrðu stétt þar sem gert var ráð fyrir því að þær giftust, hafi haft takmarkaða möguleika á að gera það ekki en þó tókst sumum að snúa sig út úr þeim aðstæðum og lifa annars konar lífi. Sjaldnast er um virkt andóf að ræða heldur reyna þær frekar að koma sér undan hjónabandinu eða snúa á eiginmenn sína og samfélagið. Athuga verður að fjölmörgum konum var meinað að giftast í íslenska bændasamfélaginu og það gaf kvenkyns hjúum stundum færi á að lifa hinsegin fjölskyldulífi.

Heimildirnar sýna einnig að konur sem sneru á hjónabandið voru gjarnan dæmdar harkalega í síðari tíma skrifum og hjónabandsólánið rakið til ofríkis þeirra eða kynferðislegs eða líffræðilegs afbrigðileika. Allar konurnar storka á einhvern hátt viðteknum hugmyndum um konur og kvenleika og hljóta refsingu fyrir þegar um þær er ritað síðar.

Ein áhugaverðasta persónan í þeim heimildum um hjónabandstregðu sem hér er greint frá er vafalaust ættarfylgjan Skerflóðs-Móri sem setur mark sitt á öll hjónabandsvandræði Þuríðar formanns Einarsdóttur. Ef til vill er hér einungis um skemmtilega þjóðsögu að ræða en það er einnig freistandi að túlka Móra sem eins konar blóraböggul fyrir vandræði Þuríðar; að samtímamönnum og/eða síðari tíma mönnum hafi þótt ásættanlegra að afturganga spillti samböndum Þuríðar en hennar eigin skaplyndi og hinseginleiki.

Um aldamótin 1900 var sveitasamfélagið að líða undir lok, þéttbýlismyndun óx hraðbyri og fólk fluttist unnvörpum úr sveitum landsins til bæjanna. Það átti sérstaklega við ógiftar konur og ekkjur sem fundu í þéttbýlinu tækifæri til að halda sjálfstæði sínu með launavinnu og öðrum ráðum eins og rannsóknir Ólafar Garðarsdóttur, Gísla Ágústs Gunnlaugssonar, Helga Skúla Kjartanssonar og Guðrúnar Ólafsdóttur hafa leitt í ljós. Ævi Þuru í Garði bendir einnig til þess að sveitakonur á 20. öld hafi að einhverju leyti haft tök á að komast hjá hjónabandi en það virðist Þura hafa gert með því að halda heimili fyrir aðra, aðallega foreldra sína þar til móðir hennar lést árið 1937, þegar Þura var 46 ára gömul. Sambúð kvenna var síðan önnur leið sem 20. aldar konur gátu farið til að forðast hjónaband. Fjölmörg dæmi eru um konur sem aldrei giftust en áttu engu að síður lífsförunauta, þ.e. aðrar konur sem þær bjuggu með til lengri tíma og eyddu jafnvel ævinni með.

Heimildirnar benda einnig til þess að sumar konur hafi mjög meðvitað forðast hjónaband. Sigríði Björnsdóttur skorti ekki vonbiðla en samt kaus hún að hafna öllum bónorðum sem hún fékk. Það gæti verið ástæða þess að hún var síðar orðuð við konur, eins og Ingibjörgu Brands, en heimildir í skjalasafni Sigríðar benda til þess að orðrómur um náið samband þeirra hafi að einhverju leyti átt við rök að styðjast. Þó er æði líklegt að vitnisburður um að konur hafi haft lítinn áhuga á að ganga í hjónaband hafi verið túlkaður sem svo að einhvers konar ónáttúra hafi legið að baki. Við vitum ekki hvenær samasemmerki var sett í huga fólks milli slíkrar ónáttúru og hneigðar til kvenna en sárlega skortir rannsóknir á því hvenær fólk á Íslandi var almennt meðvitað um að konur gætu laðast að öðrum konum. Rannsóknir Ástu Kristínar Benediktsdóttur á orðræðu um samkynhneigð karla á 6. áratug 20. aldar og Írisar Ellenberger á lesbískum femínisma á 9. áratugnum benda þó til þess að það hafi ekki gerst fyrr en talsvert löngu eftir 1920.

Þura í Garði virðist aldrei hafa verið orðuð við aðrar konur. Hin svokallaða ónáttúra hennar fólst fyrst og fremst í því að hún þótti ófríð og karlmannleg, jafnvel karlkona. Það þjónar stundum sem útskýring á því hvers vegna hún giftist aldrei, líkt og í ferðasögu Hjartar á Rauðamýri um Mývatnssveit sem birtist í Eimreiðinni árið 1942. Þar segir Hjörtur að Þura hafi aldrei þótt fögur og „þess vegna má hún ein í rúmi sofa“ (bls. 45). Karlmennska hennar virðist einnig sett í samhengi við hæfileika hennar til að skáka flestum körlum í kveðskap. Hér sést enn á ný hvernig hinseginleiki og hegðun sem grefur undan ríkjandi samfélagsviðmiðum fléttast saman.

Prentaðar heimildir

Ásta Kristín Benediktsdóttir. „„Sjoppa ein við Laugaveginn […] hefur fengið orð á sig sem stefnumótsstaður kynvillinga.“ Orðræða um illa kynvillinga og listamenn á sjötta áratug 20. aldar.“ Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir. Reykjavík: Sögufélag 2017, bls. 147–183.

Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi, Sagan af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum, Selfossi: Sæmundur 2010. [Endurprentun á 1. útgáfu, Þjóðólfur 1893–1897].

Helgi Guðmundsson. Vestfirskar sagnir II. Reykjavík: Bókaforlagið Fagurskinna 1945. 

Hrafnhildur Schram, Huldukonur í íslenskri myndlist. Reykjavík: Mál og menning 2005.

Íris Ellenberger, „Lesbía verður til. Félagið Íslensk-lesbíska og skörun kynhneigðar og kyngervis í réttindabaráttu á níunda áratug 20. aldar“, Saga LIV:2 (2016), bls. 7–53.

Málfríður Einarsdóttir, Rásir dægranna. Eftirlátin skrif, Reykjavík: Ljóðhús 1986.

Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 III. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag 1950, bls. 129. Slóð: http://baekur.is/bok/000306940/3/133/Islenzkar_aeviskrar_fra_Bindi_3_Bls_133

Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir, „Þá var mikið hlegið“, Lesbók Morgunblaðsins 2. nóvember 1996, bls. 4–5. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3312002

Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir, „Þura í Garði“ Árbók Þingeyinga 2015 58 (2016), bls. 6–24. 

Soffía Auður Birgisdóttir, „Hið „sanna kyn“ eða veruleiki líkamans? Hugleiðingar spunnar um frásögn af Guðrúnu Sveinbjarnardóttur.“ Ritið 17,2 (2017), bls. 39–77.

Handrit

BR. Einkaskjalasafn nr. 11. Sigríður Björnsdóttir. Slóð: http://www.borgarskjalasafn.is/desktopdefault.aspx/tabid-4970/6667_read-1442/start-s/6630_view-2789/

Lbs.-Hdr. Lbs 363 fol. Helga Sigurðardóttir, Endurminningar Helgu Sigurðardóttur frá Barkarstöðum, bls. 10. Slóð: https://handrit.is/is/manuscript/view/is/Lbs02-0363

Lbs.-Hdr. Lbs 1266 4to. Skýrsla Jóns Jónssonar á Kvíabekk til Hálfdanar Einarssonar á Hólum um presta. Slóð: https://handrit.is/en/manuscript/view/is/Lbs04-1266 [Skanna og setja á vef]

Lbs-Hdr. Lbs 2367 4to. Sighvatur Grímsson Borgfirðingur, Prestaæfir X. bindi Slóð: https://handrit.is/is/manuscript/view/is/Lbs04-2367 https://image.landsbokasafn.is/source/Lbs_2367_4to/Lbs_2367_4to,_0473r_-_960-hq.pdf https://image.landsbokasafn.is/source/Lbs_2367_4to/Lbs_2367_4to,_0473v_-_961-hq.pdf https://image.landsbokasafn.is/source/Lbs_2367_4to/Lbs_2367_4to,_0474r_-_962-hq.pdf