Við upphaf 20. aldar var allstór hópur ógiftra kvenna búsettur í bæjum landsins, ekki síst í Reykjavík. Ólöf Garðarsdóttir og Gísli Ágúst Gunnlaugsson hafa bent á að þéttbýlið bauð konum upp á ýmsa möguleika til að sjá fyrir sér og sínum, t.d. með handavinnu, kennslu og útleigu á herbergjum, sem síður var að finna í dreifbýlinu (1996, bls. 437–443; 1997, bls. 249–252). Á Íslandi og víða annars staðar í Evrópu var því nokkuð algengt að konur byggju einar eða tvær saman í stað þess að stofna til hjónabands. Þessar ógiftu konur voru þó ekki endilega einhleypar því sumar voru í samböndum hver með annarri. Þau sambönd voru af ýmsu tagi, rómantísk eða kynferðisleg, til langs tíma eða skamms, og fengu oft að viðgangast og þrífast tiltölulega óátalin af samfélaginu þótt um „eðli“ þeirra ríkti þögn. Óháð því hvort ógiftar konur áttu í slíkum samböndum eða ekki voru þær þó oft tortryggðar og litnar hornauga fyrir að skapa sér tilveru utan við hefðbundinn ramma hjónabands karls og konu.

Þótt hinn mikli fjöldi ógiftra kvenna á tímabilinu 1900–1920 hafi aðallega verið þéttbýlisfyrirbæri auðnaðist konum einnig að skapa sér sjálfstætt líf í dreifbýli. Ein þeirra var Þura Árnadóttir (1891–1963) sem var barnlaus og ógift alla ævi. Hún bjó lengst af á bænum Garði í Mývatnssveit, þar sem hún hélt heimili fyrir fjölskyldu sína árum saman, en síðar á Akureyri þar sem hún sá m.a. um lystigarðinn og vann á heimavist Menntaskólans. Hún var virk í félagsstarfi og var meðal annars fyrsta konan til að gegna formennsku í Ungmennafélaginu Mývetningi. Það sem gerir Þuru einstaka meðal piparjúnkna á þessum tíma er að varðveittar eru vísur eftir hana og viðtöl þar sem hún tjáir sig um einstæðingsskap sinn, yfirleitt á gamansaman og nokkuð hlutlausan eða jákvæðan hátt.

Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir segir í greininni „Þá var mikið hlegið“, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1996, að hún telji helstu ástæðu þess að Þura giftist aldrei hafa verið að hún var lítið gefin fyrir kvenlegar dyggðir en karlar hafi ekki haft rómantískan áhuga á konum sem voru sjálfstæðar, gáfaðar og lausar við tildur (bls. 4). Í ferðasögu eftir Sigurð Benediktsson, sem birtist í Vikunni árið 1939, kemur fram að honum fannst stafa nokkur ógn af Þuru, því hún var „fasmikil kona og djarfleg“ (bls. 21). Hún þótti andlegt stórmenni og þar með jafnoki karla, eins og kemur einnig fram í ferðasögu þriggja karla, Hjartar frá Rauðamýri, Böðvars frá Hnífsdal og Þóroddar frá Sandi, í Eimreiðinni frá 1942. Þar segir enn fremur í bundnu máli að Þura hafi aldrei þótt fögur og „þess vegna má hún ein í rúmi sofa“ (bls. 45). Sjálf sagði Þura í viðtali sem birtist í Degi árið 1961 að hún hefði engan áhuga á að ganga að eiga karlmenn en kynni að meta „andlega vináttu“ þeirra.

 

„Sigríður Björnsdóttir var ekki á þeirri línu að þurfa að standa í strákastússi …“

 

Í íslensku þéttbýli bjó á fyrstu áratugum 20. aldar stór hópur ógiftra kvenna sem sá fyrir sér með því að taka skólapilta og ferðalanga í vist eða fæði, með veitingasölu, hannyrðum, ljósmyndun, verslun og kennslu í hljóðfæraleik, útsaumi, leikfimi eða tungumálum, svo dæmi séu nefnd. Sumar þeirra voru orðaðar við einhvers konar hinseginleika, þótt það sé sjaldan sagt berum orðum í heimildum. Þórður Sigtryggsson fjallaði þó á óvenju opinskáan hátt um nokkrar konur í endurminningum sínum, Mennt er máttur, sem hann ritaði um miðja 20. öld en voru ekki gefnar út á prenti í heild sinni fyrr en árið 2011. Þar segir hann meðal annars: „Sigríður Björnsdóttir var ekki á þeirri línu að þurfa að standa í strákastússi, enda bjó hún árum saman með Imbu Brands (en fyrri eiginkona Imbu var Elín Matthíasdóttir, sem síðar giftist Jóni Laxdal tónskáldi)“ (bls. 7). Þórður útskýrir ekki frekar við hvað hann á en nánari eftirgrennslan um þessar þrjár konur í öðrum heimildum leiðir þó ýmislegt í ljós.

Imba Brands hét fullu nafni Ingibjörg Guðbrandsdóttir (1878–1929) og var frumkvöðull í sund- og leikfimikennslu í Reykjavík. Hún giftist aldrei og eignaðist engin börn. Þorgrímur Gestsson fjallar um hana í bók sinni Mannlíf við Sund og segir m.a. að hún hafi kennt leikfimi við Barnaskólann í Reykjavík en árið 1902 hafi Ingibjörg H. Bjarnason fengið því framgengt að nafna hennar dveldi veturlangt í Kaupmannahöfn við Statens Lærehöjskole. Þar hlaut hún réttindi til að kenna leikfimi og sund og hélt áfram að kenna við barnaskólann þegar heim var komið árið 1903 (bls. 148). Ingibjörg Brands sat í stjórn Skautafélags Reykjavíkur árið 1912 með áðurnefndri Sigríði Björnsdóttur (1879–1942), listakonu og bóksala. Það ár bjó hún enn fremur með tónlistarkonunni Elínu Matthíasdóttur (1883–1918) að Vonarstræti 12 samkvæmt Bæjarskrá Reykjavíkur en þær stöllur voru meðal þeirra sem stofnuðu Kvenréttindafélag Íslands árið 1907. Ingibjörg Brands og Elín bjuggu áfram saman eftir að Elín giftist Jóni Laxdal árið 1912 og þar til Elín dó úr spænsku veikinni árið 1918. Árið 1920 er Ingibjörg aftur á móti skráð til heimilis með Sigríði Björnsdóttur að Lækjargötu 8 (sjá Bæjarskrár Reykjavíkur 1912, 1917 og 1920). Orð Þórðar um að Ingibjörg hafi verið nátengd Sigríði og Elínu eiga því augljóslega við einhver rök að styðjast.

 

„því fröken Brands er víkingur mikill til dans og allra kvenna fótfimust, en Þorsteinn þægur og leiðitamur.“

 

Ingibjörgu Brands er yfirleitt lýst sem miklum kvenskörungi og jafnvel ögn karlmannlegri eins og eftirfarandi lýsing af skautaballi í Reykjavík, sem birtist í Vísi árið 1914, ber með sér:

„Alt í einu ryðst „par“ fram í vinstra fylkingararmi og klýfur hana að endilöngu. Þar fór Imba Brands, með Þorstein hinn hagspaka milli handanna, þau höfðu „framgang“ mikinn á gólfi, því fröken Brands er víkingur mikill til dans og allra kvenna fótfimust, en Þorsteinn þægur og leiðitamur.“ (bls. 2)

Sigríður Th. Erlendsdóttir segir í bók sinni um sögu Kvenréttindafélags Íslands, Veröld sem ég vil, að Ingibjörg hafi verið „kona með „nýjan lífsstíl““. Þar á Sigríður við að Ingibjörg ferðaðist um á reiðhjóli og starfaði á grundvelli starfsmenntunar sinnar erlendis. „Og hún hristi upp í öðrum konum!“ segir Sigríður en útskýrir það ekki nánar (bls. 163). Bréf úr einkasöfnum, sem hvorki Sigríður né Þorgrímur Gestsson nefna, benda til þess að sambönd Ingibjargar Brands við Elínu, Sigríði Björnsdóttur og Ingibjörgu H. Bjarnason (1867–1941) hafi verið mjög náin og veita mögulegar vísbendingar um hvernig hún hafi hrist upp í stallsystrum sínum.

Sigríður Björnsdóttir var, líkt og Ingibjörg Brands, ógift, barnlaus og sjálfstæð kona og þær áttu það sameiginlegt að skapa sér sjálfstæða tilveru í Danmörku um skeið. Hrafnhildur Schram greinir frá því í bókinni Huldukonur í íslenskri myndlist að Sigríður hafi haldið til Kaupmannahafnar árið 1903 til að leggja stund á nám í myndlist og starfað að því loknu sem postulínsmálari í verksmiðju Bing og Grøndahl þar í borg fram til 1909. Eftir það sneri hún heim til Íslands og tók við rekstri bókaverslunarinnar Ísafoldar þegar faðir hennar lést árið 1912, auk þess að starfa og fást við kennslu, hönnun og leirmunagerð (bls. 132–149). Þegar Sigríður var í Kaupmannahöfn stakk móðir hennar upp á því að hún tæki að sér að sjá um heimili foreldra sinna að námi loknu en því svaraði Sigríður: „Þetta sem þú stingur upp á með húshaldið heima, ímynda ég mér að þér komi ekki á óvart að ég sé ekki hrifin af. Fyrir það fyrsta hefur húshald alltaf legið fjarri mér …“ (bls. 145). Listnámið og störf á því sviði veittu Sigríði tækifæri til að lifa sjálfstæðu lífi, fjarri því hefðbundna heimilishaldi sem flestum konum var gert að sinna á þessum tíma og hún hafði lítinn áhuga á. Hún virðist hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að giftast aldrei en ummæli á þá vegu má m.a. sjá í bréfi frá Elínu Matthíasdóttur til Sigríðar árið 1909 í skjalasafni Sigríðar á Borgarskjalasafni Reykjavíkur. Í sama skjalasafni eru enn fremur ýmis bónorðsbréf frá karlmönnum sem Sigríður hefur væntanlega hafnað eða leitt hjá sér, svo og bréf þar sem ýjað er að því að „óeðlilegt“ samband hafi verið milli hennar og Ingibjargar Brands.

 

„Fyrir það fyrsta hefur húshald alltaf legið fjarri mér …“

 

Bók Þórðar Sigtryggssonar inniheldur slúður um fleiri piparjúnkur bæjarins, svo sem Guðrúnu Jónasson (1877–1958) og Gunnþórunni Halldórsdóttur (1872–1959). Gunnþórunn giftist aldrei en Guðrún sagði skilið við eiginmann sinn þegar hún flutti til Íslands frá Kanada árið 1905. Eftir heimkomuna kynntist hún Gunnþórunni og þær urðu lífsförunautar, ráku saman verslun, deildu heimili í áratugi og ólu saman upp fósturbörn. Þórður talar um Bergljótu Sigurðardóttur (1875–1915) sem ástmey Guðrúnar og lýsir því hvernig „[h]in lesbiska fegurð, hin lesbiska sæla, hinn lesbiski fögnuður skein út úr ásjónum þeirra“ (bls. 153). Hann segir síðan frá því að Haraldur Níelsson, eiginmaður Bergljótar, hafi kært Guðrúnu fyrir of mikla ástleitni gagnvart Bergljótu og látið stía þeim í sundur. Það endaði með því að Bergljót andaðist úr sorg og söknuði, að sögn Þórðar, „en frú Guðrún Jónasson fann huggun hjá Gunnþórunni sinni“ (bls. 153). Ólíkt fyrrnefndum frásögnum Þórðar hefur ekki fundist neinn fótur fyrir sögunni af sambandi Guðrúnar og Bergljótar, enda óljóst hvort hægt hafi verið að kæra Guðrúnu fyrir ástleitni.

Katrín Thoroddsen (1896–1970) læknir var alla tíð ógift og barnlaus og ögraði viðteknum kynjahlutverkum með því að klippa hár sitt stutt og klæðast jakkafötum með bindi. Hennar einkaskjöl eru ekki varðveitt á opinberum skjalasöfnum og því höfum við ekki aðgang að persónulegum vitnisburði um hvaða augum hún leit eigin kyntjáningu og kynverund.

Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir segir í MA-ritgerð sinni um ógiftar konur um aldamótin 1900, Misstu þær marksins rétta?, að talað hafi verið um að Ingibjörg H. Bjarnason (1867–1941), sem sat fyrst íslenskra kvenna á þingi, kenndi lengi við Kvennaskólann í Reykjavík og stýrði honum um árabil, hneigðist til kvenna og að sögur hafi gengið um að hún hefði verið í sambandi með Ragnheiði Jónsdóttur skólastýru (bls. 97). Það hefur Sigríður eftir Arndísi Guðmundsdóttur mannfræðingi sem heyrði sögurnar í viðtölum sem hún tók við reykvískar konur. Nafnlausar ábendingar til aðstandenda þessa verkefnis hafa auk þess greint frá því að bréf frá konum í skjalasafni Ingibjargar hafi verið brennd í aðdraganda þess að bók um sögu Kvennaskólans í Reykjavík var rituð en hún kom út árið 1974. Ástæðan var sú að bréfin þóttu ósiðleg. Það fylgir ekki sögunni hvað hafi gert það að verkum að þau hlutu þann dóm og við munum líklega aldrei komast að því. Nokkrar öskjur með gögnum frá Ingibjörgu eru varðveittar á Kvennasögusafni Íslands og sumar þeirra bárust safninu á meðan heimildasöfnun þessa verkefnis stóð yfir. Þær innihalda m.a. áhugaverð bréf frá Ingibjörgu Brands sem vitna um heitar tilfinningar hennar í garð nöfnu sinnar.

 

„Nú hefði þurft að koma breyting á háttalag mitt, úr því jeg var gengin í þá stöðu, sem jeg var svo ónáttúruð fyrir.“

 

Líkt og dæmi Guðrúnar sýnir fáum við oft aðeins örlitla innsýn í hugarheim þeirra einstaklinga sem ritað er um og mjög takmarkaðar upplýsingar um hinseginleika þeirra. Þær fáu hinsegin konur sem við vitum að rituðu endurminningar sínar eru heldur ekki sérlega fjölorðar um slíkt. Helga Sigurðardóttir lýsir hjónabandi sínu á eftirfarandi hátt í handskrifuðum endurminningum (1911–1918):

Svona liðu nú árin þessi, þar til jeg var 21 árs að jeg giptist 18. júlí 1868 Helga Jónssyni frá Árbæ í Holtum, og fór þangað tveimur dögum seinna. Nú hefði þurft að koma breyting á háttalag mitt, úr því jeg var gengin í þá stöðu, sem jeg var svo ónátturuð fyrir. „En enginn má sköpum renna.“ (bls. 10)

Meira fáum við ekki að vita um þessa „ónáttúru“ eða við hvað Helga átti nákvæmlega og því er ekki ljóst hvort eða hvernig hún var hinsegin.

Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi fjallaði reyndar nokkuð ítarlega um áhugaleysi Þuríðar Einarsdóttur formanns (1777–1863) á hjónabandi í ritinu Sagan af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum (1893–1897). Hún var heitbundin þremur mönnum um ævina og og giftist einum þeirra en ekkert sambandanna varð langlíft. Ættarfylgju Þuríðar, Skerflóðs Móra, var kennt um hjónabandsólán hennar en hann var, samkvæmt Brynjólfi, afturganga förupilts sem faðir Þuríðar, Einar Eiríksson, úthýsti eitt sinn. Sjálf kenndi Þuríður Móra um ófarir sínar í ástamálum en aðrir röktu þær til skapgerðar hennar „því hún þótti jafnan heldur ráðrík, og eigi fallin til að vera undirgefin“ (bls. 45).

 

„hún þótti jafnan heldur ráðrík, og eigi fallin til að vera undirgefin …“

 

Háseti að nafni Jón var fyrsti maðurinn sem Þuríður hést. Hún sleit sambúðinni vegna þess að hann átti við drykkjuvandamál að stríða. Móra var kennt um vandræði Jóns en sagt var að hann hefði „slegið sjer að Jóni meðan Þuríður var hjá honum“ (bls. 21). Í frásögn Brynjólfs kemur samt sem áður fram að ráðríki Þuríðar hafi einnig haft sitt að segja „enda var henni margt betur gefið en umburðarlyndi“ (bls. 21). Þrátt fyrir hina yfirnáttúrulegu útskýringu Brynjólfs taldi hann því einnig að ókvenlegt lundarfar Þuríðar hefði valdið því að þau Jón áttu ekki skap saman.

Erlendur hét næsti heitmaður Þuríðar. Hann bað hennar og tók hún því vel en þegar hann talaði um hjónaband vildi hún bíða af ótta við Móra og sjá hvernig þeim farnaðist. Sumarið 1808 fæddi Þuríður dótturina Þórdísi en um svipað leyti fór annar maður, Þórður, að leggja hug á Þuríði og kom af stað þeim kvitti að hann væri faðir Þórdísar. Þegar Þuríður spurði Erlend hvort hann tryði sögusögnunum svaraði hann því fálátlega og í kjölfarið sagði Þuríður skilið við hann. Kvaðst hún eigi vilja eiga þann mann „sem tortryggir mig í því efni!“ (bls. 23) Aftur má sjá glitta í Móra í bakgrunni sögunnar og enn og aftur er það ákveðni Þuríðar sem gerir út um sambandið.

Síðasti karlmaðurinn sem getið er um í lífi Þuríðar var Jón vinnumaður, sem bjó með Þuríði og Ingibjörgu vinnukonu í Götu. Þegar Ingibjörg fór af heimilinu sagði Jón að hann myndi fara líka ef Þuríður myndi ekki giftast honum. „[L]jet hún tilleiðast, heldur en að sleppa honum.“ Giftust þau um haustið 1817 „[e]n þá leið eigi á löngu, áður en samlyndið tók að spillast. Var það haft í flimtingi, að hún hefði eigi leyft honum að koma í rekkju hjá sjer. En hversu sem það var, þá fór það svo að Jón gekk frá Þuríði vorið eftir“ (bls. 45).

 

„nema hvað vinnukona prestfrúrinnar kenndi henni barn og gat hún ekki borið það af sér …“

 

Loks má geta Guðrúnar Sveinbjarnardóttur (1831–1916) en Málfríður Einarsdóttir segir í Rásum dægranna (1986) að hún hafi gengið með „rangt ákvarðað kynferði alla ævi, líklega sér og manni sínum til nokkurs meins.“ Maðurinn sem um ræðir hét Þórður Thorgrímsen. Málfríður segir að Guðrún hafi ráðið honum frá því að giftast sér. Þó varð það úr að þau gengu í hjónaband en engin urðu börnin, „nema hvað vinnukona prestsfrúarinnar kenndi henni barn og gat hún ekki borið það af sér“ (bls. 148). Soffía Auður Birgisdóttir rekur í grein um Guðrúnu að eftir tíu ára hjónaband yfirgaf hún eiginmann sinn, flutti í næstu sveit, Selárdal, og nokkrum árum síðar á Snæfellsnes. Þar settist hún loks að í Stykkishólmi og rak heimili, oft ásamt öðrum konum, til dauðadags. Hún og Þórður skildu þó aldrei að lögum. Sighvatur Grímsson Borgfirðingur segir í tíunda bindi „Prestaæfa“ að þegar Guðrún skildi við mann sinn hafi hún flutt með sér „flest það er fémætt [var] í þeirra eigu“ og gefur meðferð hennar á Þórði slæman dóm. Hann segir einnig að Guðrún hafi fengið viðurnefnið „Graða-Gunna“ (bls. 799–800). Loks segir Helgi Guðmundsson í Vestfirskum sögnum II að ósamlyndi Guðrúnar og Þórðar hafi verið „talið Guðrúnu að kenna, því að hann vildi gera henni allt það til geðs, sem hann gat. Furðaði menn á því, að Guðrún skyldi ekki geta lynt við slíkt prúðmenni og glæsimenni sem séra Þórður var. Héldu því nokkrir, að hún væri ekki gerð sem aðrar konur, og hafa gengið ýmsar sögur, sem áttu að sanna þetta. En þau hjón áttu ekkert barn saman.“ (bls. 43) Í þessum heimildum má sjá að enn og aftur er ákveðni eiginkonunnar talin spilla hjónabandi en hér er ástleysið einnig sett í samhengi við kynferðislega eða líffræðilega „ónáttúru“ og Guðrún, eins og fleiri konur sem storkuðu hefðbundnum kynjahlutverkum, fékk viðurnefni sem vísaði til ókvenleika eða karlmennsku.

Endurminningar Þórðar Sigtryggssonar, Mennt er máttur, eru ein af örfáum heimildum sem geta þess með beinum hætti að ákveðnar konur, yfirleitt ógiftar en einnig stundum giftar, hafi verið hinsegin, eða lesbískar eins og Þórður kallar þær. Sú heimild er þó langt í frá áreiðanleg þar sem hún er uppfull af sögusögnum og ýmsum rætnum athugasemdum og því er ómögulegt að segja til um hvort það sem Þórður ritar sé sannleikanum samkvæmt, upprunnið úr bæjarslúðrinu eða uppfinning Þórðar sjálfs. Þess utan var bókin ekki gefin út fyrr en árið 2011 þótt hún væri skrifuð á 7. áratugnum. Nokkur brot birtust í Tímariti Máls og menningar árið 1973 en þá voru samt sem áður liðin nær 60 ár frá því að Guðrún Jónasson fann huggun hjá Gunnþórunni sinni og Ingibjörg Brands bjó með Elínu Matthíasdóttur og Sigríði Björnsdóttur.

Þótt ýmsar heimildir, svo sem íbúaskrár og einkaskjöl, staðfesti að einhverju leyti frásagnir Þórðar, til dæmis að Ingibjörg Brands bjó um tíma með bæði Elínu og Sigríði og að samband Elínar og Ingibjargar hafi verið mjög náið, er rétt að setja ýmsa varnagla. Við höfum takmarkaða innsýn í eðli þessara sambanda og ekki er ljóst hvort lýsingar Þórðar séu eitthvað í líkingu við það hvernig konurnar sjálfar litu á sig og sín sambönd. Til dæmis segir Þórður konurnar vera „lesbískar“ en það orð var sjaldan eða aldrei notað um hinsegin konur, hvorki af þeim sjálfum né öðrum, hvorki á Íslandi né annars staðar, fyrr en frelsishreyfingar homma og lesbía mótuðust á 7. og 8. áratug 20. aldar. Ekkert í þeim heimildum sem eru aðgengilegar og frá konunum sjálfum bendir til þess að þær hafi litið á sig sem lesbíur, allavega ekki í þeim skilningi sem lagður er í hugtakið í dag.

„líklega hefur sjálfstæði og „óhefðbundið“ líf þeirra ýtt undir sögusagnir, svo sem um að þær væru karlmannlegar, óárennilegar, ófríðar – eða lesbískar.“

En hvað varð til þess að slíkar sögur spruttu upp og lifðu áfram í bæjarslúðrinu? Konur fyrr á tímum sem neituðu að ganga í hjónaband og lifa hefðbundnu fjölskyldulífi voru oft dæmdar fyrir það af samfélaginu og í síðari tíma skrifum. Ljóst er að það á einnig við um konur á fyrstu áratugum 20. aldar. Þær ógiftu konur sem fjallað hefur verið um hér, bæði konurnar í Reykjavík og Þura sem bjó lengst af í sveit, áttu það sameiginlegt að vera ógiftar og lifa sjálfstæðu lífi, ýmist einar eða með öðrum konum, og líklega hefur sjálfstæði og „óhefðbundið“ líf þeirra ýtt undir sögusagnir, svo sem um að þær væru karlmannlegar, óárennilegar, ófríðar – eða lesbískar. Þær voru líka flestar virkar í kvennahreyfingunni eða öðru félagsstarfi og unnu í þágu samfélagslegra breytinga. Lýsingar Þórðar benda enn fremur til þess að þær hafi talist hinsegin í samfélagslegum skilningi, ekki bara vegna kynverundar heldur einnig sökum þess að þær grófu undan ríkjandi samfélagsskipan með því að taka sér stöðu utan hinnar hefðbundnu fjölskyldueiningar. Háðslegur tónninn hjá Þórði gæti einnig þjónað hlutverki félagslegs taumhalds sem vitnar um að hinseginleiki kvennanna hafi ekki aðeins falist í makavali (hafi þær átt í ástarsamböndum við konur) heldur ekki síður í því að sjálfstæði þeirra og einstæðingsháttur ógnaði viðteknum viðmiðum og ríkjandi samfélagslegu forræði.

Skrif Þórðar ríma vel við það sem Tone Hellesund hefur skrifað um piparjúnkur í kringum aldamótin 1900 í Noregi í greininni „Queering the spinsters“. Þar vísar hún til rannsókna Ellenar Showalter og Mörthu Vicinus sem hafa leitt í ljós að ógiftar konur voru í vaxandi mæli álitnar samfélagslegt vandamál í Evrópu upp úr miðri 19. öld. Þær þóttu bera vitni um að evrópsk samfélög hefðu misst tengslin við náttúruna í kjölfar iðnvæðingar og þéttbýlismyndunar (bls. 23). Piparjúnkur voru þannig tengdar við samfélagslega ónáttúru. Hellesund segir að ógiftar norskar konur hafi með sjálfstæði sínu ógnað hefðbundnum skilningi á karlmennsku og kvenleika og grafið undan viðteknum kynjaviðmiðum sem hafi kallað á harkaleg viðbrögð frá samfélaginu. Þær voru líka oft virkar í alls kyns félags- og umbótastarfsemi, meðal annars í kvennahreyfingunni, og unnu þannig í þágu samfélagsbreytinga sem gengu gegn hefðbundnum kynjahlutverkum. Þannig telur Hellesund þær hafa verið „hinsegin“, óháð því hvort þær áttu í ástarsamböndum við aðrar konur eða ekki (bls. 23, 43–44). Allt á þetta vel við um þær ógiftu íslensku konur sem fjallað hefur verið um hér.

„Á Skautafélagsballinu“, Vísir 23. nóvember 1914, bls. 2. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1113469

Bæjarskrá Reykjavíkur. Útg. Björn Jónsson, Ólafur Björnsson og Pjetur G. Guðmundson, Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, Gutenberg og Prentsmiðjan Acta, 1902–1935. Slóð: https://timarit.is/view_page_init.jsp?pubId=575

E.D. „Heimsókn til Þuru í Garði“, Dagur 8. febrúar 1961, bls. 4. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2653970

Gísli Ágúst Gunnlaugsson og Ólöf Garðarsdóttir, „Transition into widowhood: A life-course perspective on the household position of Icelandic widows at the beginning of the twentieth century“, Continuity and Change 11:3 (1996), bls. 435–458. Slóð: https://doi.org/10.1017/S0268416000003489

„Gunnþórunn Halldórsdóttir leikkona – Minning“, Morgunblaðið 24. febrúar 1959, bls. 12. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1320748

Hellesund, Tone, „Queering the Spinsters: Single Middle-Class Women in Norway, 1880–1920, Journal of Homosexuality 54:1–2 (2008), bls. 21–48.

Hjörtur frá Rauðamýri, Böðvar frá Hnífsdal og Þóroddur frá Sandi, „Sólskin og sunnanvindur“, Eimreiðin 48:1 (1942), bls. 43–48. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?gegnirId=000537092 

Hrafnhildur Schram, Huldukonur í íslenskri myndlist. Reykjavík: Mál og menning 2005.

Ólöf Garðarsdóttir, „Þáttur kvenna í flutningum til sjávarsíðunnar við upphaf þéttbýlismyndunar á Íslandi“, Rannsóknir í félagsvísindum II. Erindi flutt á ráðstefnu í febrúar 1997. Ritstj. Friðrik H. Jónsson. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan 1997, bls. 243–252. Slóð: http://hdl.handle.net/1946/8482

Sigríður Th. Erlendsdóttir, Veröld sem ég vil. Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907–1992, Reykjavík: Kvenréttindafélag Íslands 1993.

Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir, „Þá var mikið hlegið“, Lesbók Morgunblaðsins 2. nóvember 1996, bls. 4–5. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3312002

Sigurður Benediktsson, „Skáldin í þokunni. Þankastrik úr Mývatnssveit“, Vikan 2:39 (1939), bls. 11 og 21. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4523288

Þ. Þórðardóttir, „Íslendingaþættir. Sjötíu og fimm ára: Guðrún Jónasson“, Tíminn 8. febrúar 1952, bls. 3. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1015052

Þorgrímur Gestsson. Mannlíf við Sund. Býlið, byggðin og borgin. Reykjavík: Íslenska bókaútgáfan ehf. 1998.

Þórður Sigtryggsson. Mennt er máttur. Tilraunir með dramb og hroka. Reykjavík: Omdúrman 2011.