Hinsegin sagnfræðirannsóknir á Vesturlöndum hafa leitt í ljós að listsköpun og menning í kringum listir hefur gjarnan skapað rými fyrir óhefðbundna kynhneigð, kyntjáningu og kynvitund. Um þetta má meðal annars lesa í riti Christophers Reed, Art and Homosexuality: A History of Ideas þar sem fjallað er um hvernig hinsegin kynverund, ástir og þrár hafa verið tjáðar í ýmsum listformum en einnig hvernig ímynd listamannsins og listmenning hefur veitt fólki ákveðið frelsi til að lifa hinsegin lífi sem ekki er í boði annars staðar í samfélaginu. Ásta Kristín Benediktsdóttir hefur skrifað um tengsl hinsegin karla og listaheimsins á Íslandi á 6. áratug 20. aldar og heimildirnar sem hér er fjallað um benda til þess að listir hafi einnig verið aðlaðandi vettvangur fyrir hinsegin konur.

Þær listakonur sem koma við sögu í heimildunum sem hér er greint frá störfuðu innan ólíkra listgreina. Sigríður Björnsdóttir (1879–1942) og Nína Sæmundsson (1892–1965) voru myndlistarkonur; Nína lagði stund á höggmyndalist en Sigríður málaði og stundaði leirlist auk þess sem hún spilaði á píanó. Elín Matthíasdóttir Laxdal (1883–1918) var ein af fyrstu íslensku konunum sem lagði tónlist fyrir sig. Þá má einnig nefna ljósmyndarana og lífsförunautana Sigríði Zoëga (1889–1968) og Steinunni Thorsteinsson (1886–1978), Gunnþórunni Halldórsdóttur (1872–1959), leikkonu og vísnaskáld, og Þuru Árnadóttur (1891–1963) sem orti vísur og skrifaði bækur.

Elín Matthíasdóttir dó úr spænsku veikinni aðeins 35 ára gömul og átti því ekki langa starfsævi en af dagblaðaumfjöllun má ráða að hún var mjög virk í skemmtanalífi Reykjavíkur á árunum 1905–1910 og söng á ýmsum samkomum í bænum en einnig úti á landi. Hún var önnur tveggja kvenna til að fá laun úr Listamannasjóði árið 1906 samkvæmt auglýsingu í vikuritinu Ingólfi (bls. 146) og varð síðar tónlistarkennari. Hún var vinkona Sigríðar Björnsdóttur og Ingibjargar Guðbrandsdóttur (1878–1929) en Þórður Sigtryggsson ýjar að því í endurminningum sínum, Mennt er máttur, sem voru ritaðar um miðja 20. öld, að Elín og Ingibjörg hafi átt í ástarsambandi þegar hann segir Elínu vera „fyrri eiginkonu“ Ingibjargar (bls. 7). Þórður útskýrir ekki frekar við hvað hann á en nánari eftirgrennslan um þessar þrjár konur í öðrum heimildum leiðir ýmislegt í ljós, til dæmis að þær bjuggu saman um árabil og áttu í nánu tilfinningasambandi.

 

„Sem postulínsmálari náði hún að lifa sjálfstæðu lífi utan hjónabands.“

 

Hrafnhildur Schram hefur fjallað í ítarlegu máli um myndlistarkonurnar tvær, Nínu Sæmundsson og Sigríði Björnsdóttur. Umfjöllun hennar um Sigríði birtist í bókinni Huldukonur í íslenskri myndlist sem kom út árið 2005 (bls. 132–149). Sigríður hélt til Kaupmannahafnar í nám við listaskóla Haralds F. Foss árið 1903 og dvaldi þar með hléum við nám og störf sem málari í postulínsverksmiðju Bing og Grøndahl fram til 1909 (bls. 133–140). Sem postulínsmálari náði hún að lifa sjálfstæðu lífi utan hjónabands. Þegar til Íslands kom starfaði hún við teikni- og handavinnukennslu og rekstur bókaverslunar Ísafoldar en stundaði leirkeragerð í hjáverkum og varð fyrsta íslenska konan til að leggja þá listgrein fyrir sig (bls. 145–148).

Árið 2015 gaf Hrafnhildur Schram út bókina Nína S sem fjallar um líf og list Nínu Sæmundsson, eins þekktasta íslenska myndlistamannsins og fyrstu íslensku konunnar sem gerði höggmyndalist að ævistarfi. Nína lærði höggmyndalist í Kaupmannahöfn frá 1915 til 1920 og eftir það dvaldi hún í Danmörku, París, New York og loks í Kaliforníu þar sem hún bjó í 25 ár. Í bók Hrafnhildar segir hvergi berum orðum að Nína hafi verið hinsegin en auðvelt er að lesa það á milli línanna, enda bjó hún með handritshöfundinum Polly James (1910–2002) í nær tvo áratugi í Kaliforníu. Síðustu æviárin átti Nína enn fremur í nánu sambandi við Sesselju Stefánsdóttur píanóleikara (1909–1963) (bls. 102–110, 147). Um samband Nínu og Sesselju og tilfinningar þeirra í garð hvor annarrar er fátt vitað en Kolbrún Bergþórsdóttir hefur haldið því fram að samband þeirra hafi „stuðað borgarana“ í Reykjavík og hún ýjar jafnvel að því að það hafi átt þátt í því að Hafmeyjan, útilistaverk eftir Nínu, var eyðilögð á gamlárskvöld árið 1959 (bls. 19).

Æsa Sigurjónsdóttir bendir á í greininni Sigríður Zoëga: Icelandic Studio Photographer frá 1999 að Sigríður og Steinunn Thorsteinson ráku saman ljósmyndastofu í rúm 40 ár, frá 1914 til 1955 (bls. 28, 34). Einnig má ráða má af minningargreinum og fleiri heimildum að þær hafi búið saman um álíka langt skeið og verið lífsförunautar. Æsa segir að ljósmyndun hafi þótt ásættanlegur starfsvettvangur fyrir millistéttarkonur við upphaf 20. aldar (bls. 28). Sem slíkt var starfið ákjósanlegt rými til að fóstra nána samvinnu og sambúð tveggja kvenna, líkt og Sigríðar og Steinunnar.

 

„ljósmyndun þótt[i] ásættanlegur starfsvettvangur fyrir millistéttarkonur við upphaf 20. aldar. Sem slíkt var starfið ákjósanlegt rými til að fóstra nána samvinnu og sambúð tveggja kvenna“

 

Gunnþórunn Halldórsdóttir fann sér farveg í leiklist. Eins og fram kemur í minningargrein sem Sigurður Grímsson ritaði um hana í Morgunblaðið árið 1959 lék hún með Leikfélagi Reykjavíkur frá stofnun þess árið 1897 fram til ársins 1905 þegar hún opnaði verslun með Guðrúnu Jónasson sem síðar varð lífsförunautur hennar. Gunnþórunn lék þó áfram á ýmsum skemmtunum og var vinsæll gamanvísnahöfundur. Hún varð einnig helsta revíustjarna bæjarins á 3. áratug 20. aldar. Árið 1924 gekk hún aftur til liðs við Leikfélag Reykjavíkur og lék þar meðfram verslunarrekstri og revíusöng þar til nokkrum árum áður en hún lést árið 1959 (bls. 12).

Þura Árnadóttir í Garði var þekkt skáldkona á sinni tíð og orti allmikið af hnyttnum vísum um samskipti karla og kvenna. Sigríður Kristín Þorgeirsdóttir fjallar um Þuru í Lesbók Morgunblaðsins árið 1996 og segir að hún hafi verið iðin við að skrifa og þýða ljóð meðfram daglegum störfum. Hún gaf frá sér eina ljóðabók, Vísur Þuru í Garði, árið 1939 og ættfræðibók auk þess sem hún birti þýdd og frumsamin ljóð í ýmsum tímaritum (bls. 4). Hún var í ljóðum sínum nokkuð opinská um takmarkaðan áhuga sinn á samlífi við karla. Það er einmitt helst í gegnum ljóðlistina sem við fáum innsýn í tilfinningar hennar og kynverund.

Loks má geta óþekktrar konu sem árið 1959 gaf út ljóðabók, Kirkjuna á hafsbotni, undir dulnefninu Arnliði Álfgeir. Í bókinni eru meðal annars ástarljóð til kvenna og ljóð sem fjalla um angist og kvalir ljóðmælanda yfir að geta ekki elskað konuna sem hann vill. Áratugum saman var litið svo á að bókin væri eftir óþekktan karlmann en árið 2011 ritaði Freyr Þórarinsson stuttan pistil í Fréttablaðið þar sem hann staðhæfði að faðir hans, Þórarinn Guðnason læknir, hefði greint honum frá því að á sínum tíma hefði hann tekið við handritinu úr höndum konu sem bað hann að koma því til útgefanda fyrir sig. Sjálf þorði hún ekki að koma fram undir nafni því hún var gift þjóðþekktum manni sem vissi ekki að hún elskaði konu.

Af heimildunum að dæma voru listir rými fyrir hinseginleika kvenna. Eins og Hrafnhildur Schram skrifar í bók sinni um Nínu Sæmundsson var listin oft leið fyrir konur til að halda sjálfstæði sínu og skapa sér líf utan hjónabands. Þær störfuðu reyndar á mjög karllægu sviði og þurftu að keppa um styrki og fjármagn við karlkyns listamenn sem yfirleitt fengu fleiri og hærri úthlutanir (bls. 109). Fjárhagurinn var því oft mjög þröngur, eins og marka má af umfjöllun Hrafnhildar um Kaupmannahafnarár Sigríðar Björnsdóttur. Sigríður bjó við lítil efni á námsárunum en tókst loks að framfleyta sér af postulínsmálun þótt það gæfi ekki mikið í aðra hönd (Huldukonur í íslenskri myndlist, bls. 139–144). Vegna þess stöðuga fjárskorts sem margar listakonur bjuggu við var alvanalegt að þær deildu heimili, vinnustofum og fyrirsætum og sátu jafnvel fyrir hjá hver annarri (Nína S., bls. 68). Listaheimurinn fóstraði þannig nánd milli listakvenna og skapaði enn fremur aðstæður þar sem konur gátu búið og starfað saman undir formerkjum náins vinskapar. Þannig skapaðist einnig rými fyrir rómantísk og kynferðisleg sambönd þeirra á milli.

Listir gátu einnig veitt konum annars konar útrás fyrir langanir sínar í garð kvenna. Hrafnhildur Schram veitir því eftirtekt að Nína Sæmundsson vann gjarnan með leikkonum í Bandaríkjunum. Hún gerði andlitsmyndir af konum á borð við Hedy Lamarr auk Gretu Garbo og Evu Le Gallienne sem báðar voru hinsegin (bls. 94, 103). Naktir kvenmannslíkamar voru einnig viðfangsefni hennar, eins og eitt hennar þekktasta verk á Íslandi, Hafmeyjan, er vitnisburður um. Sú kenning að eyðilegging Hafmeyjunnar árið 1959 hafi verið verk „íhaldssamra Reykvíkinga“ fremur en „reiðra módernista“, sem kemur fram í grein Kolbrúnar Bergþórsdóttur, er athyglisverð og fleiri viðmælendur hafa látið í ljósi þá skoðun við aðstandendur verkefnisins að um hafi verið að ræða hómófóbískt skemmdarverk. Um það er þó erfitt að fullyrða því aldrei fékkst úr því skorið hver stóð þar að baki.

 

„Listaheimurinn fóstraði þannig nánd milli listakvenna og skapaði enn fremur aðstæður þar sem konur gátu búið og starfað saman undir formerkjum náins vinskapar. “

 

Ljóðlist var einnig rými þar sem konur gátu tjáð sig um aðrar konur, kynlíf og kynverund undir yfirskyni listar en einnig undir dulnefni eins og höfundur Kirkjunnar á hafsbotni er vitni um. Gunnþórunn Halldórsdóttir og Þura í Garði eiga það enn fremur sameiginlegt að hafa ort gamanvísur um tilhugalíf karla og kvenna, stundum út frá sjónarhóli karlmanns sem gaf þeim tækifæri til að tjá sig um konur á gamansaman hátt. Í gögnum Gunnþórunnar er til dæmis að finna kvæðið „Giftingar-Þánkar“ sem hefst svo:

Um götuna á kvöldin geng jeg títt,
að gá að hvort sjái jeg andlit nýtt
enn ljósið er dauft á luktonum
og lafhægt að villast á stúlkunum.
Ef hveldur er barmur og bros á vörinni
ég brýt ekki hugann um afganginn.
Enn að vera oftast nær einn í förinni
er ekki neitt gaman vinur minn.

Og ánægður væri jeg alt mitt líf
ef einlægt mætti jeg faðma víf
þótt væru þau handa af Hornströndum
og að helmingi ættuð úr Flóanum.
Enn hjer er nú ekki að heilsa því
þótt höfum við talsvert kvennaval
þær forðast nú svoddan svínarí
og svo veit maður aldrei hvað gjöra skal.

Í tilfelli Þuru varð leikni í skáldskap enn fremur til þess að fólk taldi hana jafnoka karlmanna sem veitti henni mögulega bessaleyfi til að fjalla óvenju opinskátt um óvenjulegar tilfinningar og kynlöngun, eða skort á henni öllu heldur.

Prentaðar heimildir

Arnliði Álfgeir, Kirkjan á hafsbotni, Reykjavík: Helgafell 1959.

Ásta Kristín Benediktsdóttir, „Bókin sem kom út úr skápnum. Um ljóðabókina Kirkjan á hafsbotni,“ Hinsegin dagar í Reykjavík – dagskrárrit 2012. Reykjavík: Hinsegin dagar, 2012, bls. 16–18.

Ásta Kristín Benediktsdóttir, „„Sjoppa ein við Laugaveginn […] hefur fengið orð á sig sem stefnumótsstaður kynvillinga.“ Orðræða um illa kynvillinga og listamenn á sjötta áratug 20. aldar.“ Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir. Reykjavík: Sögufélag 2017, bls. 147–183.

Freyr Þórarinsson. „Leyndarmál Kiljunnar: Hver var Arnliði Álfgeir?“ Fréttablaðið, 16. desember 2011. Slóð: http://www.visir.is/leyndarmal-kiljunnar–hver- var-arnlidi-alfgeir-/article/2011712169987

„Gunnþórunn Halldórsdóttir leikkona – Minning“, Morgunblaðið 24. febrúar 1959, bls. 12. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1320748

Hrafnhildur Schram, Huldukonur í íslenskri myndlist, Reykjavík: Mál og menning 2005.

Hrafnhildur Schram, Nína S. Nína Sæmundsson 1892–1965. Fyrsti íslenski kvenmyndhöggvarinn, Reykjavík: Crymogea 2015.

Kolbrún Bergþórsdóttir, „Nína í Hollywood“, DV 6. nóvember 2015, bls. 18–19. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=6798858

„„Listamannasjóðurinn““, Ingólfur 27. ágúst 1906, bls. 146. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2270860

Reed, Christopher, Art and Homosexuality: A History of Ideas, Oxford: Oxford University Press, 2011.

„Sigríður Zoëga Ijósmyndari – Minningarorð“, Morgunblaðið 29. september 1968, bls. 22. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1397172

Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir, „Þá var mikið hlegið“, Lesbók Morgunblaðsins 2. nóvember 1996, bls. 4–5. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3312002

Þórður Sigtryggsson, Mennt er máttur. Tilraunir með dramb og hroka, Reykjavík: Omdúrman 2011.

Þura Árnadóttir, Vísur Þuru í Garði, Reykjavík: Helgi Tryggvason 1939.

Æsa Sigurjónsdóttir, „Sigriður Zoëga 1889–1968: Icelandic Studio Photographer“, History of Photography 23:1 (1999), bls. 739–752. Slóð: https://www.tandfonline.com/doi/abs/10.1080/03087298.1999.10443794

Óprentaðar heimildir

KSS 78. Gunnþórunn Halldórsdóttir. Askja 2. „Giftingar-Þánkar“.