Þegar saga hinsegin kynverundar kvenna allt fram undir lok 20. aldar er skoðuð kemur glöggt í ljós að nauðsynlegt er að lesa ekki aðeins í þær heimildir sem til eru, heldur einnig velta vöngum yfir þeim heimildum sem ekki eru til staðar og skoða þá hópa sem skildu ekki eftir sig mikið af heimildum. Konur úr efstu lögum samfélagsins sem áttu í nánum tilfinningalegum samböndum við aðrar konur og bjuggu með þeim í áratugi voru nokkuð sýnilegar í opinberu lífi framan af 20. öld. Þær mynduðu tengslanet sín á milli og ýmsar heimildir eru til um þær. Hins vegar er ekki mikið vitað um hinsegin konur úr öðrum stéttum, t.d. verkakonur eða vinnukonur. Af hverju eru sumir hópar sýnilegri en aðrir? Hvaða áhrif hafði stéttarstaða á möguleika kvenna til að lifa hinsegin lífi?

Ástæður þess að fáar heimildir eru til um hinseginleika kvenna af lægri stéttum eru að einhverju leyti þekktar. Líkt og Erla Hulda Halldórsdóttir og fleiri hafa bent á var ritkunnátta lengi vel bundin við karla af efri stéttum. Þegar konur fóru í auknum mæli að tileinka sér lestrar- og skriftarkunnáttu og jafnvel rita endurminningar sínar á 19. öld voru það helst konur af efri stéttum sem höfðu tækifæri og kunnáttu til slíks (2013, bls. 8). Aðgengi að persónulegu lífi fólks, sérstaklega kvenna, af verkamannastétt er því takmarkaðra og ljóst er að erfiðara er að rekast á og bera kennsl á hinsegin kynverund á meðal þeirra. Einnig hefur stéttarstaða ef til vill haft nokkuð um það að segja hvaða heimildir rata á skjalasöfn og hvaða heimildir daga uppi í einkaeign eða er fargað.

 

„Aldrei var ég fyrir flangs / né faðmlög margra sveina“

 

Þó eru mikilvægar undantekningar frá þessu. Lýsing bóndakonunnar Helgu Sigurðardóttur (1847–1920) frá Eyrarbakka á hjónabandi sínu er gott dæmi um staka heimild sem varpar mikilvægu ljósi á það sem kalla má hinsegin upplifun konu af gagnkynja hjónabandi, þó að fáorð sé. Helga handskrifaði endurminningar sínar á árunum 1911 til 1918, eftir að hún fluttist til Reykjavíkur. Hjónaband hennar fær ekki stóran sess í þeirri frásögn, sem er 24 blaðsíður, en hún minnist aðeins á eiginmann sinn þegar hún kynnir hann til sögunnar og svo aftur þegar hann deyr:

„Svona liðu nú árin þessi, þar til jeg var 21 árs að jeg giptist 18. júlí 1868 Helga Jónssyni frá Árbæ í Holtum, og fór þangað tveimur dögum seinna. Nú hefði þurft að koma breyting á háttalag mitt, úr því jeg var gengin í þá stöðu, sem jeg var svo ónátturuð fyrir. „En enginn má sköpum renna.““ (Bls. 10)

Önnur kona af bændastétt var Þura Árnadóttir í Garði (1891–1963) en hún var alla tíð ógift og hélt heimili í sveit með og fyrir foreldra sína stærstan hluta ævinnar. Eins og Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir hefur rakið flutti Þura árið 1941 til Akureyrar og vann eftir það á heimavist Menntaskólans á Akureyri og hafði umsjón með lystigarðinum á Akureyri. Þura tjáði sig oft um einstæðingsskap sinn á gamansaman hátt í kveðskap sem hún varð fræg fyrir en Sigríður segir að hvergi sé að sjá að hún hafi syrgt að giftast aldrei og eignast ekki börn („Þá var mikið hlegið“, bls. 4). Þvert á móti virðist hún hafa álitið hjónabandið jafngilda fjötrum eða ófrelsi, eins og sjá má í þessum vísum:

Aldrei var ég fyrir flangs
né faðmlög margra sveina.
Nú er ég ekki góð til gangs,
göllum skal ei leyna.

Aldrei hef ég tekið tvist
né trompunum eytt á hrökin.
Síðan gat flogið fyrst,
frjáls eru vængjatökin.

(„Þura í Garði“, bls. 16–17).

Í viðtali í dagblaðinu Degi 8. febrúar 1961 sagði Þura enn fremur þegar hún var spurð hvort hún hefði nokkurn tímann orðið skotin:

„Mér hefur gengið illa að skilgreina hvað það er, sem kallað er að vera skotin. Skotin, eru held ég, einkum fyrir fermingarstelpur, og maður er nú vaxinn upp úr fermingarkjólnum. En ég get hrifizt af fallegum karlmönnum, eins og af fögru kvæði. En ég hefði ekki viljað eiga svo sem neina þá menn, sem ég hef þó orðið hrifin af. Og ekki öfunda ég blessaðar kerlingarnar af þessum körlum sínum.“

Stéttarstaða gat ráðið miklu um möguleika kvenna á aðgengi að hinsegin rýmum. Borgaralegar konur af efri stéttum í Reykjavík gátu í krafti efnahagslegs og menningarlegs auðmagns skapað sér rými til að mynda tengslanet, til dæmis í gegnum kvennahreyfinguna, félagsstarf, listsköpun eða sjálfstæðan verslunarrekstur. Í gegnum slíkt tengslanet gátu þær stofnað til náinna, rómantískra sambanda við aðrar konur og verið í umhverfi sem samþykkti og styrkti slík sambönd. Sem dæmi má nefna samband Elínar Matthíasardóttur (1883–1918) við Ingibjörgu Brands (1878–1929). Við vitum ekki hvers eðlis það var, utan aðdróttana í endurminningum Þórðar Sigtryggssonar (bls. 7), en þær héldu heimili saman bæði í Reykjavík og Kaupmannahöfn. Ingibjörg og Elín fjölluðu reglulega um samveru sína í bréfum til Sigríðar Björnsdóttur (1879–1942) sem geymd eru á Borgarskjalasafni en þessar frásagnir hafa oft yfir sér rómantískan blæ. Ingibjörg og Sigríður bjuggu svo saman seinna meir, eftir andlát Elínar. Þó svo að þessar konur hafi ekki verið bersöglar um kynferðismál í bréfum sínum má engu að síður sjá að samband þeirra var samþykkt og naut stuðnings og skilnings innan vinkvennahópsins sem var meira og minna tengdur Kvenréttindafélagi Íslands.

 

„Guðrún bjó á heimili þar sem Saffó var lesin. Einnig er mögulegt að hún hafi haft aðgang að öðrum ritum sem fjölluðu um samkynja ástir …“

 

Enn fremur komu sumar konur frá heimilum þar sem bókmenntir er fjölluðu um samkynja ástir voru lesnar. Guðrún Sveinbjarnardóttir (1831–1916) ólst upp á slíku heimili en hún var dóttir Sveinbjarnar Egilssonar, rektors Bessastaðaskóla og síðar Lærða skólans í Reykjavík. Hann þýddi ljóð forngrísku skáldkonunnar Saffóar á íslensku fyrstur manna en hún er og var meðal annars þekkt fyrir að yrkja ástarljóð til kvenna. Þorsteinn Vilhjálmsson bendir þó á í grein sinni um Saffó í íslenskum þýðingum að Sveinbjörn fjarlægði öll ummerki um kvennaástirnar í þýðingu sinni á broti 31, sem birtist á prenti árið 1850 („Eptir Sappho“) (bls. 71–72). Það gerði hann með því að afmá allar vísbendingar um kyn ljóðmælanda og persóna í ljóðinu. Engu að síður er ljóst að Guðrún bjó á heimili þar sem Saffó var lesin. Einnig er mögulegt að hún hafi haft aðgang að öðrum ritum sem fjölluðu um samkynja ástir, t.d. Samdrykkjunni eftir Platon. Guðrún giftist en sagði skilið við eiginmann sinn og bjó í marga áratugi ýmist ein, með öðrum einhleypum konum eða vinnufólki, og af henni fóru ýmsar sögur, m.a. um að hún væri „óeðlilega“ karlmannleg og hefði jafnvel getið barn með annarri konu.

Þorsteinn bendir á að ekki afmáðu allir þýðendur Saffóar kyn eða samkynja ástir úr kvæðunum. Steingrímur Thorsteinsson, rektor Lærða skólans frá 1904 til 1913, þýddi brot 31 án þess að hvika frá kyni upprunatextans (bls. 74–75). Steingrímur þýddi einnig Samdrykkjuna eftir Platon sem auk þess að fjalla um drengjaástir inniheldur elsta orðið á vestrænum tungum yfir konur sem hneigjast til kvenna — hetairistriai. Steingrímur dró hvergi undan í þýðingu sinni, eins og Þorsteinn bendir á, og fjallaði afdráttarlaust um „þær konur, sem […] gefa ekki mikið um karlmenn, heldur hneigjast þær fremur að konum, og eru konur þær, er lostagirnd hafa til kvenna [gr. hetairistriai], af þessu kyni […].“ (bls. 75). Dóttir Steingríms, Steinunn Thorsteinsson ljósmyndari (1886–1978), hélt heimili í áratugi með Sigríði Zoëga (1889–1968), og ráku þær ljósmyndastofu saman. Steinunn hefur því, líkt og Guðrún Sveinbjarnardóttir, haft aðgang að gríska menningararfinum, þar á meðal textum um samkynja ástir, í þessu tilfelli líklega í óritskoðaðri útgáfu.

Mjög margar af þeim konum sem fjallað er um á þessum vef voru úr efri stéttum samfélagsins  og þær heimildir sem hér er greint frá sýna að möguleikar þeirra til að nálgast þekkingu um og skapa rými fyrir hinsegin kynverund voru ýmsir. Oft er þó fátt um fína drætti þegar kemur að sjónarhorni kvennanna sjálfra. Við höfum til dæmis engar heimildir frá Guðrúnu Sveinbjarnardóttur eða Steinunni Thorsteinsson sem gefa til kynna hvort þær hafi lesið bókmenntir um samkynja ástir eða hvort slíkir textar hafi haft áhrif á þær. Sú staðreynd að þær ólust upp á menntaheimilum þar sem slík rit voru lesin og þýdd gefur hins vegar vangaveltum um áhrif textanna á upplifun kvennanna af eigin kyni og kynverund og þá möguleika sem þær töldu sig hafa byr undir báða vængi.

Leiðin frá ritun persónulegrar upplifunar fólks til skjalasafna er bæði löng og flókin. Fólk af lægri stéttum og í jaðarsettri stöðu hafði oft og tíðum hvorki tíma né þá menntun sem þarf til að skrifa niður minningar sínar eða hugmynd um að það væri á einhvern hátt æskilegt. Stundum bera endurminningar, sérstaklega endurminningar karla, þess hins vegar glöggt merki að þeim hafi þótt þeirra eigin upplifun á samtímanum svo merkileg að mikilvægt væri fyrir framtíðina að hafa aðgang að henni. Endurminningar Helgu Sigurðardóttur eru að því leyti sjaldséð heimild þar sem þær eru persónulegar og skrifaðar af henni sjálfri, konu af bændastétt. Hvað hún átti við með því að hún væri „ónáttúruð fyrir“ hjónabandi er ekki vitað og það má túlka á ýmsa vegu en ummælin veita tvímælalaust innsýn í hugarheim konu sem fann sig illa í gagnkynja hjónabandi.

 

„Endurminningar Helgu Sigurðardóttur eru að því leyti sjaldséð heimild þar sem þær eru persónulegar og skrifaðar af henni sjálfri, konu af bændastétt.“

 

Þura í Garði skildi eftir sig kvæðasafn og fjölmargar vísur í blöðum og tímaritum og auk þess birtust við hana viðtöl á opinberum vettvangi. Í þessum textum tjáði hún sig meðal annars, eins og Helga, um áhugaleysi sitt á hjónabandi og það sem hún upplifði sem eins konar eðlislægan ókvenleika. Ólíkt Helgu tókst Þuru þó að halda sig utan ramma hjónabandsins. Hér er því um að ræða heimildir sem sýna að kona af bændastétt gat komist hjá hjónabandi þótt það væri vissulega bundið ákveðnum skilyrðum. Í tilfelli Þuru er ljóst að hún gat skapað sér sjálfstætt líf í kaupstað þegar skyldum hennar á sveitaheimili foreldranna var lokið. Auk þess veitti kveðskapurinn henni aðgang að opinberri umræðu en um leið var hann tjáningarleið.

Stéttarstaða gat einnig verið aðgengi að hinseginleika, eða allavega möguleika á að skapa hinsegin rými af einhverju tagi. Borgaralegar konur í Reykjavík á fyrstu áratugum 20. aldar gátu t.a.m. lifað lífinu utan gagnkynja hjónabands, haldið heimili og verið í einhvers konar parasamböndum með öðrum konum án þess að vekja mikla eftirtekt í skjóli þess að þær ögruðu ekki ríkjandi kynjakerfi með klæðnaði sínum og hegðun. Lillian Faderman hefur rannsakað rómantíska vináttu kvenna á 19. öld og telur að stéttarstaða hafi einmitt verið einn af lykilþáttunum í félagslegu samþykki slíkra sambanda. Með því að uppfylla kröfur um æskilegan borgaralegan kvenleika komust þær framhjá ríkjandi orðræðu um kynhverfu (e. sexual inversion) sem á fyrri hluta 20. aldar átti við konur sem þóttu karlmannlegar og voru taldar í röngum líkama (bls. 12–29, sjá einnig Carter 2005). Konur sem uppfylltu skilyrði um æskilegan kvenleika höfðu enga ástæðu til að láta sér detta í hug að þær væru á einhvern hátt frábrugðnar fjöldanum þótt þær kysu að halda heimili með og eiga í rómantísku (og stundum ef til vill kynferðislegu) sambandi við aðrar konur. Konur sem ekki uppfylltu slík viðmið, gengu til dæmis í karlmannsfötum eða þurftu að ganga í hefðbundin karlastörf til að hafa í sig og á, áttu hins vegar á hættu að vekja athygli og mögulega vera sakaðar um ónáttúru, að vera tvíkynja eða á einhvern hátt ekki-konur líkt og seinni tíma menn fjölluðu um Þuríði formann Einarsdóttur (1777–1863).

 

„Á Íslandi var lengst af á 20. öld ekki heldur til neitt rými sem var helgað eða aðgengilegt verkakonum sem upplifðu sig utan við hið gagnkynhneigða norm líkt og tíðkaðist í erlendum stórborgum …“

 

Bændakonur eins og Helga og Þura höfðu síður aðgang að slíkum borgaralegum rýmum og engar heimildir eru til um að þær hafi verið hluti af hinsegin parasamböndum eða tengslanetum. Á Íslandi var lengst af á 20. öld ekki heldur til neitt rými sem var helgað eða aðgengilegt verkakonum sem upplifðu sig utan við hið gagnkynhneigða norm líkt og tíðkaðist í erlendum stórborgum þar sem einhvers konar hinsegin sjálfsmynd fékk að þróast meðal verkakvenna eða kvenna í jaðarsettum hópum. Elizabeth Kennedy og Madeline Davis benda til dæmis á í bók sinni Boots of Leather, Slippers of Gold að í bandarískum stórborgum mynduðust lífleg samfélög í kringum bari og krár þar sem konur af verkamannastétt gátu komið saman og myndað hinsegin tengslanet fyrir tíma hinnar opinberu mannréttindabaráttu (bls. 374–384, sérstaklega 374–378). Dagmar Herzog hefur svipaða sögu af segja um ýmsar borgir í Evrópu, til dæmis Berlín og París á millistríðsárunum, í bók sinni Sexuality in Europe (bls. 56–57). Á Íslandi voru slík rými líklega ekki fyrir hendi fyrr en á seinni hluta 20. aldar. Á 6. áratugnum varð til hinsegin rými á kaffihúsinu á Laugavegi 11 í Reykjavík þar sem róttæklingar, listamenn og stúdentar söfnuðust gjarnan saman. Kaffihúsið varð frægt fyrir að hýsa samkomur „kynvillinga“, eins og Ásta Kristín Benediktsdóttir hefur bent á, og mikið hefur verið fjallað um það á þeim nótum. Í þeirri umræðu er hins vegar fyrst og fremst rætt um hinsegin karlmenn. Konur voru einnig meðal gesta en ekki eru til heimildir um að kaffihúsið hafi verið rými fyrir hinsegin konur af verkakvennastétt.

Það er ekki þar með sagt að við vitum ekkert um hinsegin konur af verkakvennastétt á 20. öld. Minning þeirra lifir í gegnum munnmæli og er stundum skráð af seinni tíma mönnum, líkt og raunin var með 18. og 19. aldar konur eins og Þuríði formann, Þuríði Jónsdóttur á Ballará (1791–1860) og fleiri sem skáru sig úr fjöldanum fyrir það að ganga á einhvern hátt gegn ríkjandi hugmyndum um kyn og kvenleika. Þónokkur munnmæli og sögur af hinsegin konum frá tímabilinu 1930–1960 bárust aðstandendum þessa verkefnis. Sumar þeirra héldu heimili nær öll sín fullorðinsár með sömu konunni í sama byggðarlaginu, aðrar áttu fleiri en einn lífsförunaut og enn aðrar voru farandverkakonur sem flökkuðu um landið í leit að vinnu, stundum með konu upp á arminn, stundum ekki. Þessar konur skildu hins vegar ekki eftir sig neinar ritaðar heimildir svo vitað sé og af þeim sökum er erfitt að fella þær undir ramma verkefnisins. Því verður ekki fjallað nánar um þær hér.

Prentaðar heimildir

Ásta Kristín Benediktsdóttir, „„Sjoppa ein við Laugaveginn […] hefur fengið orð á sig sem stefnumótsstaður kynvillinga“, Orðræða um illa kynvillinga og listamenn á sjötta áratug 20. aldar.“ Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir. Reykjavík: Sögufélag 2017, bls. 147–183.

Carter, Julian, „On Mother-Love: History, Queer Theory, and Nonlesbian Identity“, Journal of the History of Sexuality 14:1/2 (2005), bls. 107–138.

E.D., „Heimsókn til Þuru í Garði“, Dagur 8. febrúar 1961, bls. 4. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2653970

Erla Hulda Halldórsdóttir, Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850–1903. Reykjavík: Sagnfræðistofnun HÍ, RIKK og Háskólaútgáfan 2011.

Erla Hulda Halldórsdóttir, „„gleimdu ecki þinni einlægt Elskandi Sistir“. Skriftarkunnátta sem félagslegt og menningarlegt auðmagn“, 4. íslenska söguþingið 7.–10. júní 2012. Ráðstefnurit. Ritstj. Kristbjörn Helgi Björnsson. Reykjavík: Sagnfræðistofnun 2013, bls. 99–108.

Faderman, Lillian, Odd Girls and Twilight Lovers. A History of Lesbian Life in Twentieth Century America. New York: Columbia University Press 1991.

Herzog, Dagmar, Sexuality in Europe. A Twentieth-Century History. Cambridge: University Printing House 2011.

Kennedy, Elizabeth Lapovsky og Davis, Madeline D., Boots of Leather, Slippers of Gold. The History of a Lesbian Community. London: Routledge 1993.

Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir, „Þá var mikið hlegið“, Lesbók Morgunblaðsins 2. nóvember 1996, bls. 4–5. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3312002

Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir, „Þura í Garði“, Árbók Þingeyinga 2015 58 (2016), bls. 6–24.

Þorsteinn Vilhjálmsson, „Gyðjunafn, skólastýra, vörumerki sjúkdóms. Saffó á Íslandi á 19. og 20. öld“, Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir. Reykjavík: Sögufélag 2017, bls. 59–106.

Þórður Sigtryggsson. Mennt er máttur. Tilraunir með dramb og hroka. Reykjavík: Omdúrman 2011.

Handrit

Lbs.-Hdr. Lbs 363 fol. Helga Sigurðardóttir, Endurminningar Helgu Sigurðardóttur frá Barkarstöðum. Slóð: https://handrit.is/is/manuscript/view/is/Lbs02-0363

BR. Einkaskjalasafn nr. 11. Sigríður Björnsdóttir. Slóð: http://www.borgarskjalasafn.is/desktopdefault.aspx/tabid-4970/6667_read-1442/start-s/6630_view-2789/