Þegar litið er yfir heimildir um hinsegin kynverund kvenna á fyrri hluta 20. aldar blasir við að kvennahreyfingin, þ.e. vinna í þágu kvenna sem var hluti af gróskumiklu félagsstarfi kvenna í kringum aldamótin 1900, var eitt þeirra rýma þar sem hinseginleiki fékk að dafna. Líkt og í tilfelli ógiftra kvenna voru margar baráttukonur fyrir kvenréttindum hinsegin í þeirri merkingu að þær grófu undan viðteknum hugmyndum um kvenleika, karlmennsku og hlutverk kynjanna. Slíkt vakti ótta og reiði margra og eins og Dagný Kristjánsdóttir hefur bent á óttuðust karlar jafnvel að hið raunverulega markmið kvenréttindahreyfinga væri að konur segðu sig úr lögum við þá og neituðu að deila lífi sínu með þeim (bls. 460–461). Þótt slíkt sé orðum aukið er ljóst að hreyfingin fóstraði nána samvinnu og sambönd milli kvenna sem gátu leitt til nánari kynna.
Ein af fyrstu konunum sem vitað er að hafi verið orðaðar bæði við kvennahreyfinguna og hinseginleika var Rósa Siemsen (1858–1907). Ólafur Davíðsson, sem þá var nemi í Lærða skólanum í Reykjavík, skrifaði í dagbók sína veturinn 1881–1882 að Rósa og Þóra nokkur Bertelsen (1862–1950) svæfu í sama rúmi með „úttroðinn karl“ (bls. 138). Hann vísar þannig til þess að þær hafi átt í kynferðislegu sambandi en um sannleiksgildi þessarar sögu, eða hvernig sambandi Rósu og Þóru var háttað, er ekkert vitað. Rósa var einn stofnenda Thorvaldsensfélagsins árið 1875 en það var elsta kvenfélag Reykjavíkur og sinnti ýmsum verkefnum sem töldust til „almannaheilla“, eins og Hrefna Róbertsdóttir bendir á í bók sinni um frjáls félagasamtök í Reykjavík á 19. öld (bls. 28). Má þar nefna sunnudagaskóla, handavinnuskóla, jólagleði fyrir fátæk börn og baráttu fyrir bættum aðstæður fyrir vinnukonur, sérstaklega þvottakonur. Thorvaldsensfélagið var langt í frá jafnpólitískt og ýmis félög sem síðar voru stofnuð, eins og Kvenréttindafélag Íslands og Kvennaframboðið 1908. Það lagði þó mikilvægan grunn að réttindabaráttu og samtakamætti kvenna á Íslandi um aldamótin 1900.
„Hann ýjar þannig að því að Ingibjörg hafi átt í ástarsamböndum við bæði Sigríði og Elínu.“
Ingibjörg Guðbrandsdóttir, eða Ingibjörg Brands (1878–1929), sund- og leikfimikennari, listakonan og bóksalinn Sigríður Björnsdóttir (1879–1942) og tónlistarkonan Elín Matthíasdóttir (1883–1918) voru allar stofnfélagar í Kvenréttindafélagi Íslands árið 1907. Félagið var stofnað að áeggjan Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og barðist fyrir jöfnum pólitískum réttindum karla og kvenna, t.d. kosningarétti kvenna. Það lét sig einnig varða atvinnumál kvenna og að karlar og konur hefðu sömu réttindi og tækifæri á vinnumarkaði. Þórður Sigtryggsson segir í endurminningum sínum, Mennt er máttur, að Ingibjörg hafi búið árum saman með Sigríði og Elín hafi verið „fyrri eiginkona“ hennar (bls. 7). Hann ýjar þannig að því að Ingibjörg hafi átt í ástarsamböndum við bæði Sigríði og Elínu. Bæjarskrár Reykjavíkur staðfesta að Ingibjörg bjó með þeim báðum um árabil, fyrst Elínu og síðar Sigríði (sjá t.d. 1912, 1917 og 1920) og enn fremur sýna bréf Ingibjargar og Elínar til Sigríðar frá árunum 1906–1912, sem varðveitt eru í skjalasafni Sigríðar á Borgarskjalasafni, að samband þeirra, hvernig sem því var háttað, var mjög náið.
Ingibjörg Brands kemur einnig fyrir í skjalasafni Ingibjargar H. Bjarnason (1867–1941) sem var mjög aðsópsmikil innan kvennahreyfingarinnar. Ingibjörg H. Bjarnason menntaði sig í íþróttafræðum í Kaupmannahöfn, kenndi við Kvennaskólann í Reykjavík að loknu námi og var forstöðukona hans frá árinu 1906 til æviloka. Hún var kosin á þing, fyrst íslenskra kvenna, fyrir Kvennalistann eldri árið 1922 og sat á þingi til 1930, síðar meir fyrir Íhaldsflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn. Í einkaskjalasafni hennar á Kvennasögusafni Íslands er að finna bréf frá Ingibjörgu Brands sem hafa yfir sér rómantískan blæ, þar sem sú síðarnefnda gantast með að senda 100 eða 150 kossa til nöfnu sinnar, segist hlakka til að sjá hennar fögru ásjónu og skrifar undir bréf með kveðjunni „yður dygg til dauðans“. Ekki er vitað hvort Ingibjörg H. Bjarnason endurgalt þessar tilfinningar en á þessum og fleiri bréfum í skjalasafni hennar má sjá að hún tilheyrði rými þar sem ástarjátningar eða annars konar tjáning á rómantískum tilfinningum kvenna á milli var samþykkt og eðlileg. Ingibjörg H. Bjarnason var auk þess orðuð við aðrar konur, s.s. Ragnheiði Jónsdóttur skólastýru, eins og Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir segir frá í MA-ritgerð sinni Misstu þær marksins rétta? (bls. 97). Það er óneitanlega áhugavert, í ljósi bréfanna frá Ingibjörgu Brands, að ábendingar til aðstandenda þessa verkefnis greina frá því að úr skjalasafni Ingibjargar H. Bjarnason hafi verið hreinsuð gögn sem þóttu ósiðleg.
„Það er óneitanlega áhugavert, í ljósi bréfanna frá Ingibjörgu Brands, að ábendingar til aðstandenda þessa verkefnis greina frá því að úr skjalasafni Ingibjargar H. Bjarnason hafi verið hreinsuð gögn sem þóttu ósiðleg.“
Ingibjörg Ólafsson (1886–1962), sem bjó með grísku prinsessunni Despinu Karadja (1892–1983) á Suður-Englandi í marga áratugi, sinnti aðallega trúarlegu starfi. Eins og Svanhildur Óskarsdóttir greinir frá í umfjöllun um Ingibjörgu á vef Árnastofnunar starfaði hún sem framkvæmdastjóri Kristilegs félags ungra kvenna (KFUK) í Reykjavík á árunum 1910–1912 en fluttist því næst til Danmerkur þar sem hún sinnti sama starfi. Árið 1922 varð hún síðan aðalframkvæmdastjóri KFUK á Norðurlöndunum og gegndi þeirri stöðu í átta ár.
Loks má nefna Guðrúnu Jónasson (1877–1958) verslunarkonu sem bjó með Gunnþórunni Halldórsdóttur (1872–1959) leikkonu í marga áratugi. Guðrún var mjög virk í pólitísku starfi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á fyrstu áratugum 20. aldar. Hún varð bæjarfulltrúi fyrir flokkinn árið 1928 og átti stóran þátt í stofnun sjálfstæðiskvenfélagsins Hvatar árið 1937. Hún varð jafnframt fyrsti formaður þess eins og lesa má um í grein sem birtist í Morgunblaðinu á 50 ára afmæli félagsins árið 1987 (bls. B4).
Rannsóknir á kvennahreyfingum í Evrópu um aldamótin 1900 hafa leitt í ljós að innan þeirra myndaðist rými fyrir rómantísk og kynferðisleg sambönd kvenna. Eva Borgström og Hanna Markusson Winkvist vekja til dæmis athygli á því í inngangi bókarinnar Den kvinnliga tvåsamhetens frirum frá árinu 2018 að margar kvenréttindakonur í Svíþjóð og Finnlandi bjuggu saman og þær leiða líkur að því að sambúð af því tagi hafi einnig stundum falið í sér ástar- og kynferðissambönd (bls. 9–10). Í bókinni eru tíu greinar um rómantísk sambönd sænskra og finnskra kvenréttindakvenna sem sýna ótvírætt að hinsegin kynverund og kvennahreyfingin tengdust nánum böndum. Hreyfingin skapaði rými fyrir leit að nýjum hugmyndum um konur og kvenleika og nýjum leiðum til að lifa og elska (bls. 13). Innan hennar skapaðist einnig náin samvinna og vinátta milli kvenna og því er ekki að undra að þar hafi orðið til tilfinningaleg og/eða kynferðisleg sambönd, stundum sambúð sem gat varað í áratugi. Að minnsta kosti tvö dæmi hafa verið nefnd hér um slík sambönd íslenskra kvenna sem tengdust kvennahreyfingunni, þ.e. Guðrúnar Jónasson og Gunnþórunnar Halldórsdóttur annars vegar og Ingibjargar Ólafsson og Despinu Karadja hins vegar, og geta má sér þess til að hreyfingin hafi haft þónokkur áhrif á konurnar og sambönd þeirra. Í því samhengi er einnig mikilvægt að geta þess að allar dvöldu þær erlendis til lengri eða skemmri tíma.
„Hún gerði ekki beinlínis tilraunir til að fela eða leyna rómantískum áhuga sínum á öðrum konum …“
Ingibjörg Brands var ein af þeim konum sem lifði og hrærðist í kvennahreyfingunni og virðist hafa fundið sér tilfinningalegan samastað innan hennar. Hún gerði ekki beinlínis tilraunir til að fela eða leyna rómantískum áhuga sínum á öðrum konum, svo sem Sigríði, Elínu og Ingibjörgu H. Bjarnason, heldur tjáði hann opinskátt í bréfum sínum. Svo virðist því sem kvennahreyfingin hafi veitt Ingibjörgu og fleiri konum rými til tjá innilegar tilfinningar í garð annarra kvenna og láta reyna á aðrar sambandsformgerðir en hið hefðbundna gagnkynja hjónaband. Í þessu samhengi skiptir stéttarstaða einnig máli en allar þessar þær konur sem fjallað er um hér voru borgaralegar konur af efri stéttum í Reykjavík sem höfðu aðra og meiri möguleika til að ferðast, menntast og skapa sér sjálfstætt líf utan gagnkynja hjónabands en til dæmis konur af bændastétt, vinnukonur og verkakonur.
Einnig má velta fyrir sér annars konar tengslum milli kvennahreyfingarinnar og hinsegin kynverundar. Ef ógiftar konur voru hinsegin í þeim skilningi að þær storkuðu hefðbundnum kynhlutverkum og voru þannig ógn við ríkjandi samfélagsgerð, eins og Tone Hellesund heldur fram í grein um ógiftar konur í Noregi um aldamótin 1900, þá voru konurnar í kvennahreyfingunni það einnig. Markmið margra þeirra var beinlínis að binda enda á forræði karla á ýmsum sviðum, t.d. í stjórnmálum og atvinnulífinu (bls. 43–44). Séð frá því sjónarhorni bjóða ummæli Þórðar Sigtryggssonar um Ingibjörgu Brands, Elínu og Sigríði upp á fleiri túlkunarmöguleika en að um hafi verið að ræða ástarsambönd. Ef til vill endurspegla orð hans fyrst og fremst þá staðreynd að Ingibjörg var sjálfstæð nútímakona sem storkaði viðteknum gildum með því að giftast ekki, sjá fyrir sér með launavinnu og vinna í þágu kvenfrelsis, sem óhjákvæmilega fól í sér þá hugmynd að afnema forræði karla. Hið sama má segja um Sigríði en hún fór menntaveginn, vann fyrir sér sjálf og tók einarða ákvörðun um að giftast ekki. Slíkur hinseginleiki gat kallað á viðbrögð á borð við þau sem birtast í endurminningum Þórðar, þ.e. að væna konurnar um að eiga í samkynja ástarsamböndum, sem á ritunartímanum (7. áratug 20. aldar) voru oft fordæmd. Ummæli Ólafs Davíðssonar um kynferðislegt samband Rósu Siemsen og Þóru Bertelsen eru mögulega til komin á svipaðan hátt. Ekkert meira er vitað um samband Rósu og Þóru en mögulega hafa þær storkað viðhorfum samtímans undir lok 19. aldar um kynhlutverk og kvenleika, svo sem með sjálfstæðri hegðun og félagsstörfum, og af þeim sökum ratað sem slúður inn í dagbók Ólafs. Fjölmörg dæmi eru um það frá ýmsum tímum að konum sem þóttu óhefðbundnar í útliti eða hegðun væri lýst sem óeðlilegum eða karlmannlegum og jafnvel gefið í skyn að þær væru „í raun“ karlmenn eða hefðu barnað aðrar konur. Slíkar lýsingar segja jafnmikið eða jafnvel meira um samfélagsleg viðhorf ritunartímans til kynhlutverka en konurnar sjálfar.
Prentaðar heimildir
Borgström, Eva og Hanna Markusson Winkvist, „Om kärlek, kamratskap och kamp“, Den kvinnliga tvåsamhetens frirum. Kvinnopar i kvinnorörelsen 1890–1960. Ritstj. Eva Borgström og Hanna Markusson Winkvist. Stokkhólmi: Appell Förlag 2018, bls. 7–31.
Bæjarskrá Reykjavíkur. Útg. Björn Jónsson, Ólafur Björnsson og Pjetur G. Guðmundson, Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, Gutenberg og Prentsmiðjan Acta, 1902–1935. Slóð: https://timarit.is/view_page_init.jsp?pubId=575
Dagný Kristjánsdóttir, „Hinsegin raddir. Um sannar og lognar lesbíur í bókmenntum og listum.“ Skírnir 177 (haust 2003), bls. 451–481.
„Gluggað í spjöld sögunnar – á hálfrar aldar afmæli“, Morgunblaðið 18. febrúar 1987, bls. B4. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1650042
Hellesund, Tone, „Queering the Spinsters: Single Middle-Class Women in Norway, 1880–1920“, Journal of Homosexuality 54:1–2 (2008), bls. 21–48.
Hrefna Róbertsdóttir, Reykjavíkurfélög. Félagshreyfing og menntastarf á ofanverðri 19. öld. Ritsafn Sagnfræðistofnunar 26. Ritstj. Jón Guðnason. Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands 1990.
Ólafur Davíðsson, Hundakæti. Dagbækur Ólafs Davíðssonar. Útg. Þorsteinn Vilhjálmsson. Reykjavík: Mál og menning 2018.
Sigríður Th. Erlendsdóttir, Veröld sem ég vil. Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907–1992. Reykjavík: Kvenréttindafélag Íslands 1993.
Þórður Sigtryggsson. Mennt er máttur. Tilraunir með dramb og hroka. Reykjavík: Omdúrman 2011.
Óprentaðar heimildir
11. BR. Einkaskjalasafn nr. 11. Sigríður Björnsdóttir. Slóð: http://www.borgarskjalasafn.is/desktopdefault.aspx/tabid-4970/6667_read-1442/start-s/6630_view-2789/
KSS 13. og KSS 2018/17. Ingibjörg H. Bjarnason. Einkaskjalasafn. Slóð: http://einkaskjol.is/index.php/ingibjorg-h-bjarnason-f-1868
Lbs. Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir, Misstu þær marksins rétta? Ógiftar konur á Íslandi um aldamótin 1900. MA-ritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands 1999.
Vef. Kristín Ástgeirsdóttir, „Fyrst kvenna á þingi“, Erindi flutt í Alþingishúsinu 8. júlí 2012, Jafnréttisstofa, skoðað 14. febrúar 2019. Slóð: https://www.jafnretti.is/is/um-jafnrettisstofu/greinar/fyrst-kvenna-a-thingi
Vef. Svanhildur Óskarsdóttir, „Fröken Ingibjörg Ólafsson erindreki“, Árnastofnun, skoðað 19. september 2018. Slóð: http://www.arnastofnun.is/page/ingibjorg_olafsson