Þegar saga hinsegin kynverundar kvenna fram undir lok 20. aldar er skoðuð er nauðsynlegt að lesa ekki aðeins í þær heimildir sem til eru og velta vöngum yfir þeim sem ekki eru til staðar heldur einnig skoða hvers konar heimildir hverfa af sjónarsviðinu. Á fyrstu áratugum 20. aldar voru efri stéttar konur sem áttu í nánum samböndum eða lifðu lífinu saman nokkuð sýnilegar í opinberu lífi en eftir því sem líður á öldina verða heimildir um slík sambönd og hinsegin kynverund kvenna almennt mjög vandfundnar. Hvers vegna urðu hinsegin konur minna sýnilegar eftir því sem leið á 20. öldina?

Aldamótakynslóðin er nokkuð sýnileg í gegnum heimildir, t.d er lífsförunautanna Guðrúnar Jónasson (1877–1958) og Gunnþórunnar Halldórsdóttur (1872–1959) getið alloft í bókum sem fjalla um Reykjavík. Margar þessara kvenna voru virkar í kvennabaráttunni og meðlimir í Kvenréttindafélagi Íslands, t.d. Sigríður Björnsdóttir (1879–1942), Elín Matthíasdóttir Laxdal (1883–1918) og Ingibjörg Brands (1878–1929). Enn fremur sköpuðu nokkrar sér orðspor fyrir að vera frumkvöðlar á sínu sviði og ryðja brautina fyrir aðrar konur í faginu, líkt og ljósmyndararnir Sigríður Zoëga (1889–1969) og Steinunn Thorsteinsson (1886–1978), myndhöggvarinn Nína Sæmundsson (1892–1965) eða Ingibjörg Brands sem var fyrsta konan og ein af fyrstu Íslendingunum sem gerði íþróttir að ævistarfi sínu. Þessara kvenna er því oft getið í heimildum sem fjalla til dæmis um listir, sögu Reykjavíkur eða félagsstarf í Reykjavík. Þó að samböndum þeirra við aðrar konur sé ekki gert hátt undir höfði er heldur ekki gerð markviss tilraun til að fela þau.

Eftir því sem líður á tuttugustu öld hverfa þessar konur okkur sjónum og heimildakosturinn verður helst til rýr þegar kemur að konum sem áttu kvenkyns lífsförunauta eða sneru sér til annarra kvenna til að uppfylla tilfinningalegar eða kynferðislegar þarfir sínar. Það er ekki þar með sagt að konur af borgarastétt hafi hætt að stofna til tilfinningasambanda við aðrar konur og halda heimili saman. En þær kusu þá að lifa ekki (hálf) opinberlega í slíkum samböndum, höfðu ekki kost á því vera áberandi í samfélaginu vegna kynhneigðar sinnar eða kynvitundar eða fluttu til útlanda.

 

„við þau tækifæri sem æviágrip Guðrúnar hefur verið reifað … er samband hennar við Gunnþórunni rækilega falið, ýmist innan um orð á borð við „vinnufélagi“ og „stallsystir“ eða með algerri þögn.“

 

Íris Ellenberger hefur bent á í grein sinni um mótun lesbískrar sjálfsveru að þær íslensku konur sem fyrstar voru til þess að taka upp hinsegin sjálfsmynd á 8. og 9. áratugnum hafi minnst á að þær hafi skort fyrirmyndir til að máta sig við (bls. 32). Þó að sambönd kvenna af aldamótakynslóðinni hafi ekki verið máð af spjöldum sögunnar þá voru þau heldur ekki opinber og oft reynt að líta framhjá þeim eða jafnvel fela þau. Minningargreinar bera þess glöggt vitni. Til dæmis er oft fjallað um Gunnþórunni Halldórsdóttur og Guðrúnu Jónasson sem viðskiptafélaga í minningargreinum, en þær létust með árs millibili árin 1958 og 1959. Guðrún Jónasson var t.a.m. stofnfélagi Sjálfstæðisfélagsins Hvatar en við þau tækifæri sem æviágrip Guðrúnar hefur verið reifað í samhengi við sögu félagsins, t.d. í grein sem skrifuð var í Morgunblaðið á 50 ára afmæli Hvatar 18. febrúar 1987, er samband hennar við Gunnþórunni rækilega falið, ýmist innan um orð á borð við „vinnufélagi“ og „stallsystir“ eða með algerri þögn. Þetta var þó ekki algilt. Vinir og ættingar Sigríðar Zoëga voru nokkuð óhræddir við að ávarpa Steinunni sem lífsförunaut Sigríðar og votta henni samúð sína í minningargreinum um Sigríði sem lést árið 1968.

Loks má nefna dæmi um hvernig heimildir af þessu tagi geta komið óvænt, jafnvel óvart, upp á yfirborðið eftir marga áratugi. Þann 16. desember árið 2011 skrifaði Freyr Þórarinsson stutta grein í Fréttablaðið þar sem hann brást við bókmenntaumfjöllun í sjónvarpsþættinum Kiljunni. Þar var rætt um hvaða ljóðskáld hefði staðið á bak við dulnefnið Arnliði Álfgeir en ljóðabókin Kirkjan á hafsbotni kom út undir því höfundarnafni árið 1959. Áratugum saman stóð fólk í þeirri meiningu að skáldið væri karlmaður en Freyr skýrði frá því að faðir hans, Þórarinn Guðnason læknir, hefði staðhæft að skáldið væri í raun kona. Hún hefði leitað til hans undir lok 6. áratugar 20. aldar með handrit að ljóðabók og beðið hann um að aðstoða sig við að gefa hana út. Konan hefði jafnframt beðið Þórarin um að gæta fyllsta trúnaðar vegna þess að ljóðin í bókinni væru ástarjátning til konu og það mætti ekki fréttast. Sé þetta rétt öðlast ljóðin í Kirkjunni á hafsbotni mörg hver nýja merkingu en þau fjalla um angist og kvalir ljóðmælanda yfir að geta ekki elskað konuna sem hann þráir.

Þó að umræða um samkynja ástir og samkynhneigð sem sjálfsmynd hafi ekki risið jafn hátt á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar líkt og annars staðar á Vesturlöndum náðu þó einhverjir angar umræðunnar um hómósexúalisma, kynhverfu og hina nýju fræðigrein, kynfræðina, til Íslands. Halldór Laxness skrifaði í ritgerðinni „Af íslensku menningarástandi“ sem birtist fyrst í Verði árið 1925, í nokkrum hæðnistón, að Reykjavík, sem óðum væri að nývæðast, hefði „í skjótri svipan eignast hvað eina, sem heimsborg hentar, ekki aðeins háskóla og kvikmyndahús, heldur einnig footboll og hómósexúalisma“ (bls. 2) Þorvaldur Kristinsson hefur rakið sögu Guðmundar Sigurjónsson Hofdals, eina mannsins sem dæmdur var á Íslandi fyrir að eiga samræði við aðra karlmenn, en mál Guðmundar sýnir að einhver vitneskja og þekking um samkynja ástir og kynlíf karla var til staðar á Íslandi 3. áratug tuttugustu aldar (bls. 136–138). Ásta Kristín Benediktsdóttir hefur fjallað um hvernig orðræðan um samkynhneigð karlmanna breyttist frá því að vera óljósar vangaveltur í það að fjalla um dæmi úr íslenskum veruleika á 6. áratugnum og hvernig fjölmiðlar komust upp á lagið með að birta hneykslisfréttir sem staðsettu samkynja ástir og kynlíf karla sem siðspillandi ógn að utan (bls. 168). Þótt hinsegin kynverund kvenna hafi ekki komist inn í opinbera umræðu fyrr en mörgum árum síðar, líkt og Íris Ellenberger leiðir í ljós (bls. 16–22), er líklegt að túlkunarramminn í kringum hinseginleika almennt, karla, kvenna og annarra, hafi verið allt annar og neikvæðari eftir því sem leið á 20. öldina. Því hafi verið erfiðara fyrir konur sem gegndu áberandi stöðum í samfélaginu eða létu sig samfélagsmál varða að lifa opinberlega eða hálf opinberlega með öðrum konum.

„Því hafi verið erfiðara fyrir konur sem gegndu áberandi stöðum í samfélaginu eða létu sig samfélagsmál varða að lifa opinberlega eða hálf opinberlega með öðrum konum.“

Fræðimenn sem fjallað hafa um rómantíska vináttu kvenna á 18. og 19. öld hafa greint frá því hvernig breytt samfélagsgerð varð til þess að fjaraði undan henni sem viðurkenndu sambandsformi. Stacey J. Oliker bendir á, í grein frá 1989, að eftir því sem kvennabaráttan harðnaði var kvenréttindakonum sífellt oftar legið á hálsi fyrir að vera ókvenlegar og óeðlilegar. Enn fremur dró úr hinum skörpu skilum milli karla- og kvennarýmis t.d á vinnumarkaði og fyrst og fremst í menntakerfinu en þar með skapaðist ákveðin grundvöllur fyrir vináttu karla og kvenna sem ekki var áður fyrir hendi. Samfara því sem slakað var á kröfum um rækilega aðskilin rými urðu breytingar á umgjörð gagnkynhneigðra hjónabanda á þann veg að auknar kröfur voru gerðar um að hjón uppfylltu tilfinningalegar þarfir hvers annars til dæmis með því að eyða frítíma sínum saman. Af þessu leiddi að litið var hornauga á konur sem leituðu að nánd eða tilfinningalegri útrás utan hjónabands (bls. 2630).

Á þessum tíma varð kynfræði einnig til sem fræðigrein og í krafti hennar var hafist handa við að skilgreina og flokka hvers konar kynferðislega hegðun, þar á meðan langanir og kynlíf milli fólks af sama kyni. Eva Borgström og Hanna Markusson Winkvist vekja athygli á því að þessi aukna áhersla á kynferði og kynferðislíf, ásamt þeirri opinberu orðræðu sem fylgdi í kjölfarið, ýtti undir grunsemdir um að kvenkyns lífsförunautar stunduðu kynferðislegt samlífi (2018, bls. 50; 2016: bls. 21–22). Því má segja að örar samfélagsbreytingar á Vesturlöndum á áratugnum um og eftir aldamótin 1900 hafi grafið undan hinni rómantísku vináttu þannig að það sem áður var talið eðlileg og jafnvel æskilegt, var álitið ógn við hið ríkjandi kerfi.

Af þessum ástæðum og vafalaust ýmsum öðrum var hinsegin kynverund kvenna þögguð og haldið utan við bæði opinbera orðræðu og, að því er virðist, varðveitt einkaskjalasöfn. Mjög erfitt er að nálgast heimildir um konur sem hrifust af og áttu í nánum samböndum við aðrar konur eftir því sem líður á 20. öld. Ljóðabókin Kirkjan á hafsbotni og sagan um tilurð hennar er gott dæmi um hversu mikil þöggunin var, en ef saga Freys er sönn var þar um að ræða konu sem hafði ríka þörf fyrir að tjá ást sína á konu og fann til þess farveg í gegnum listræna sköpun en þurfti engu að síður að fela sig bak við karlkyns dulnefni.

Óprentaðar heimildir

BR. Einkaskjalasafn nr. 11. Sigríður Björnsdóttir. Slóð: http://www.borgarskjalasafn.is/desktopdefault.aspx/tabid-4970/6667_read-1442/start-s/6630_view-2789/

KSS 13 og 2018/17 Ingbjörg H. Bjarnason. Einkaskjalasafn. Slóð: https://kvennasogusafn.is/index.php?page=ingibjoerg-h-bjarnason-1889-1904

 

Prentaðar heimildir

Arnliði Álfgeir, Kirkjan á hafsbotni. Reykjavík: Helgafell 1959.

Ásta Kristín Benediktsdóttir, „„Sjoppa ein við Laugaveginn […] hefur fengið orð á sig sem stefnumótsstaður kynvillinga“, Orðræða um illa kynvillinga og listamenn á sjötta áratug 20. aldar.“ Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir. Reykjavík: Sögufélag 2017, bls. 147–183.

Ásta Kristín Benediktsdóttir, „Bókin sem kom út úr skápnum. Um ljóðabókina Kirkjan á hafsbotni“, Hinsegin dagar í Reykjavík – dagskrárrit 2012. Reykjavík: Hinsegin dagar 2012, bls. 16–18. Slóð: https://astabenediktsdottir.files.wordpress.com/2015/09/bc3b3kin-sem-kom-c3bat-c3bar-skc3a1pnum.pdf

Borgström, Eva, Berättelser om det forbjudna. Begär mellan kvinnor i svensk litteratur 1900–1935. [Útgáfustaðar ekki getið]: Makadam 2016.

Borgström, Eva og Hanna Markusson Winkvist, „Om kärlek, kamratskap och kamp“, Den kvinnliga tvåsamhetens frirum. Kvinnopar i kvinnorörelsen 18901960. Ritstj. Eva Borgström og Hanna Markusson Winkvist. Stokkhólmi: Appell Förlag 2018, bls. 7–31.

Faderman, Lillian, Surpassing the Love of Men Romantic Friendship and Love Between Women from the Renaissance to the Present. New York: Quill 1981.

Freyr Þórarinsson, „Leyndarmál Kiljunnar: Hver var Arnliði Álfgeir?“, Fréttablaðið, 16. desember 2011, bls. 30. Slóð: http://www.visir.is/leyndarmal-kiljunnar–hver-var-arnlidi-alfgeir-/article/2011712169987

„Guðrún Jónasson fyrrv. bæjarfulltrúi“, Morgunblaðið 14. október 1958, bls. 8. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1318354

„Gunnþórunn Halldórsdóttir leikkona – Minning“, Morgunblaðið 24. febrúar 1959, bls. 12. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1320748  

„Gluggað í spjöld sögunnar – á hálfrar aldar afmæli“, Morgunblaðið 18. febrúar 1987, bls. B4. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1650042

Halldór Laxness, „Af íslensku menningarástandi“, Vörður 11. júlí 1925, bls. 2–4. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4549840

Íris Ellenberger, „Lesbía verður til. Félagið Íslensk-lesbíska og skörun kynhneigðar og kyngervis í réttindabaráttu á níunda áratug 20. aldar“, Saga LIV:2 (2016), bls. 7–53.

Oliker, Stacey J, Best Friends And Marriage. Exchange Among Women. Berkley, Los Angeles og Oxford: University of California Press 1989, bls. 2630.

„Sigríður Zoëga Ijósmyndari – Minningarorð“, Morgunblaðið 29. september 1968, bls. 22. Slóð: http://timarit.is/direct_links_init.jsp?pageId=1397172

Sigurður Grímsson, „Gunnþórunn Halldórsdóttir. Gamlar leikhúsminningar“, Lesbók Morgunblaðsins 13. maí 1962, bls. 4 og 13. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1320748

Þorvaldur Kristinsson, „Glæpurinn gegn náttúrlegu eðli. Réttvísin gegn Guðmundi Sigurjónssyni 1924“, Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir. Reykjavík: Sögufélag 2017, bls. 107–146.