Við aldamótin 1900 var alvanalegt að konur byggju saman í þéttbýli í Evrópu. Aukin þéttbýlismyndun í álfunni varð ekki síst fyrir tilstilli kvenna sem áttu meiri möguleika á að sjá fyrir sér og lifa sjálfstæðu lífi í krafti ýmiss konar launavinnu sem var af skornum skammti upp til sveita. Ólöf Garðarsdóttir og Gísli Ágúst Gunnlaugsson hafa bent á að hliðstæð þróun á Íslandi olli því að konur voru talsvert fleiri en karlar í öllum helstu þéttbýlisstöðum landsins í kringum aldamótin 1900 (bls. 437–443). Þetta, ásamt tilhneigingu borgarastéttarinnar til að styðja við tilfinningaleg sambönd milli kvenna, leiddi til þess að það var nokkuð algengt að ógiftar konur byggju saman og lifðu sameiginlegu fjölskyldulífi. Sumar þeirra ólu jafnvel upp börn saman eða bjuggu saman allt sitt líf og voru því sannkallaðir lífsförunautar. Þegar líða fór á 20. öldina varð hins vegar algengara að slík sambönd væru álitin afbrigðileg eða óæskileg.

Þekktasta kvennaparið sem deildi heimili og lífi í Reykjavík er vafalaust Guðrún Jónasson (1877–1958) og Gunnþórunn Halldórsdóttir (1872–1959). Á vef Kvennasögusafns Íslands kemur fram að þær héldu saman heimili á æskuheimili Gunnþórunnar að Amtmannsstíg 5, ólu þar upp þrjú fósturbörn og ráku vefnaðarvöruverslun á jarðhæðinni. Sambandi þeirra, sem stóð yfir mestallan fyrri hluta 20. aldar, er yfirleitt lýst á frekar látlausan hátt. Árið 1962 skrifaði Sigurður Grímsson um leikferil Gunnþórunnar í Lesbók Morgunblaðsins og greindi frá því að Guðrún og Gunnþórunn hefðu verið „sambýliskonur alla tíð“ (bls. 4). Við andlát Gunnþórunnar árið 1958 lýsti Lárus Sigurbjörnsson sambandi þeirra á eftirfarandi hátt í minningargrein í Morgunblaðinu:

Verzlun þeirra óx og dafnaði frá fyrsta vísi við Amtmannsstiginn, og þær stöllur fylgdust að ævilangt, alla tíð búsettar við stíginn sinn í Þingholtunum. Frú Guðrún lézt fyrir skömmu, svo að stutt varð milli þeirra, en Þingholtin sýnu fátækari, er báðar hinar merku konur eru á braut horfnar, tregaðar af fjölmörgum bæjarmönnum en þó einkum fósturbörnum, sem þær tóku að sér og önnuðust með móðurlegri umhyggju.“ (bls. 12)

 

„… þær stöllur fylgdust að ævilangt, alla tíð búsettar við stíginn sinn í Þingholtunum.“

 

Textar sem fjalla um Guðrúnu greina yfirleitt einungis frá viðskiptahlið sambands hennar og Gunnþórunnar. Í grein sem Þ. Þórðardóttir skrifar í Tímann í tilefni af 75 ára afmæli Guðrúnar árið 1952 kallar hún þær „vinkonur“ en fjallar að öðru leyti einungis um þær sem viðskiptafélaga (bls. 3). Við sama tilefni birtist heil síða í Morgunblaðinu með viðtali við Guðrúnu og stuttum greinum eftir þjóðþekkta einstaklinga um afmælisbarnið. Þar er aðeins tvisvar minnst á Gunnþórunni, í bæði skiptin sem viðskiptafélaga Guðrúnar (bls. 5). Svipaða sögu er að segja af Frjálsri verzlun (14:12, bls. 26) og minningarorðum um Guðrúnu sem birtust í Morgunblaðinu eftir andlát hennar árið 1958 (bls 8).

Þórður Sigtryggsson, sem fjallar nokkuð galgopalega um ástir aldamótakvenna í endurminningum sínum, Mennt er máttur, segir lítillega frá afmælisræðu sem Jón Hjaltalín prófessor hélt í áttræðisafmæli Gunnþórunnar. Þar á hann að hafa tekið fram „hvílík gæfa það hafi verið fyrir Gunnþórunni að eiga ágætan eiginmann við hlið sér“ (bls. 153).  Skáletruðu orðin benda til þess að Þórður sé að gera grín að því að Jón hafi lagt áherslu á gæfu gagnkynja hjónabands þegar vitað var að Gunnþórunn var ógift en í sambúð með Guðrúnu. Endurminningar Þórðar ber að taka með fyrirvara þar sem þær eru uppfullar af sögusögnum, slúðri og dómhörku í garð samborgaranna en þó er margt þar að finna sem á sér einhverja stoð í raunveruleikanum. Þórður var sjálfur hommi sem útskýrir ef til vill áhuga hans á einkamálum aldamótakvenna og af hverju hann virðist hlífa þeim við þeim þeim rætna tóni sem hann notar annars óspart í lýsingum sínum á fólki.

Guðrún og Gunnþórunn létu báðar eftir sig nokkuð af einkaskjölum sem varðveitt eru á Kvennasögusafni Íslands og þau eru skráð undir sama safnmarkinu, sem er afar fátítt. Þau skjöl gefa okkur þó litla innsýn í einkalíf þeirra eða hvaða augum þær litu samband sitt. Þó er ljóst að þær voru mjög nánir lífsförunautar sem deildu lífi, heimili, fjölskyldu, búi og verslun í rúm 50 ár.

 

„Þó er ljóst að þær voru mjög nánir lífsförunautar sem deildu lífi, heimili, fjölskyldu, búi og verslun í rúm 50 ár.“

 

Ingibjörg Ólafsson (1886–1962) og Despina Karadja (1892–1983) voru annað slíkt par. Ingibjörg fór út til náms á 2. áratug 20. aldar, fyrst í lýðháskóla í Danmörku og síðar í kennaraskóla í Danmörku og Englandi. Hún var mjög virk í kirkjustarfi, varð aðalframkvæmdastjóri KFUK, fyrst í Reykjavík, svo Kaupmannahöfn og loks á öllum Norðurlöndunum. Á ferðum sínum kynntist hún Despinu Karadja, grískri prinsessu. Við vitum ekki nákvæmlega hvernig leiðir þeirra lágu saman en þær voru sambýliskonur í hátt í 40 ár og bjuggu sér heimili skammt frá Brighton í Sussex á Englandi. Einkaskjöl Ingibjargar eru varðveitt á Borgarskjalasafni Reykjavíkur og einnig eru gögn frá henni á handritadeild Landsbókasafns. Hún var mikilvirkur rithöfundur og lét eftir sig mjög mikið ritað mál og því er það sláandi staðreynd að engin persónuleg bréf milli hennar og Despinu hafa varðveist. Bréf sem Despina skrifaði til Guðrúnar Halldórsdóttur, bróðurdóttur Ingibjargar, benda til þess að samband hennar og Ingibjargar hafi verið mjög náið og ástríkt þótt erfitt sé að henda reiður á hvers eðlis það var.

Einnig má geta ljósmyndaranna Sigríðar Zoëga (1889–1968) og Steinunnar Thorsteinsson (1886–1978). Æsa Sigurjónsdóttir hefur fjallað um feril Sigríðar og greinir frá því í bókinni Sigríður Zoëga. Ljósmyndari í Reykjavík að þær Steinunn störfuðu saman með hléum allt frá árinu 1906 og ráku síðan saman ljósmyndastofu í um 50 ár, frá 1914 til 1955 (bls. 7, 34). Guðmundur Hannesson rekur í minningargrein, sem hann skrifaði við andlát Sigríðar árið 1968, að þær hafi ekki aðeins rekið stofu saman heldur „urðu [þær] nánari lífsförunautar, því í meira en 30 ár hafa þær haldið hús saman og deilt kjörum sínum í blíðu og stríðu.“ (bls. 22) Sigríður átti dóttur, Bryndísi Jónsdóttur, sem skrifar undir dánartilkynningu Steinunnar í Morgunblaðinu 21. júlí 1978 og því virðist sem þær hafi ekki einungis deilt heimili heldur einnig fjölskyldu (bls. 22).

 

„En í Hollywood ríkti einnig meiri skilningur á að konur væru í ástarsambandi og byggju saman en víðast hvar í Bandaríkjunum, þótt það væri ef til vill ekki orðað upphátt.“

 

Myndhöggvarinn Nína Sæmundsson (1892–1965) starfaði í rúma tvo áratugi í Kaliforníu, frá upphafi 4. áratugarins til 1955. Þar bjó hún lengst af með Polly James (1910–2000) í litlu einbýlishúsi í Hollywood, eins og Hrafnhildur Schram greinir frá í bókinni Nína S. Polly var handritshöfundur og vann m.a. fyrir Universal Studios. Samband þeirra Nínu var mjög náið eins og sjá má á bréfum sem Polly skrifaði Nínu eftir að sú síðarnefnda flutti aftur til Íslands en þau eru varðveitt í skjalasafni Nínu á handritadeild Landsbókasafns. Nína átti einnig í tilfinningaríkum og nánum samböndum við aðrar konur, bæði áður en hún fór vestur um haf og eftir heimkomuna 1955. Í bók sinni segir Hrafnhildur:

„Það var alls ekki óalgengt að vinkonur veldu að búa saman, oft til að halda sjálfstæði sínu, án þess að vera fjárhagslega, réttarfarslega og kynferðislega háðar karlmönnum. En í Hollywood ríkti einnig meiri skilningur á að konur væru í ástarsambandi og byggju saman en víðast hvar í Bandaríkjunum, þótt það væri ef til vill ekki orðað upphátt. Kynlíf milli kvenna var bannað með lögum og margir gátu alls ekki séð slíkt fyrir sér, en létu tilhugsunina um að konur leigðu saman hins vegar ekki trufla sig.“ (bls. 109).

Þegar þær konur sem hér er greint frá bjuggu sér heimili saman um aldamótin 1900 og á fyrstu áratugum nýrrar aldar hafði um nokkurra áratuga skeið í Evrópu þótt samfélagslega ásættanlegt og jafnvel æskilegt að borgaralegar konur leituðu til annarra kvenna til að uppfylla tilfinningalegar þarfir sínar. Þau sambönd sem urðu til undir þeim formerkjum hafa verið kölluð rómantísk vinátta en Lillian Faderman er sú fræðikona sem er hvað þekktust fyrir rannsóknir sínar á fyrirbærinu. Hún vekur athygli á því að kvenlegt útlit og há stéttarstaða kvenna hafi verið lykillinn að félagslegu samþykki þessara tilfinningalegu sambanda. Þannig komust þær hjá því að vera orðaðar við samkynhneigð eða kynhverfu (e. sexual inversion) sem á fyrri hluta 20. aldar átti fyrst og fremst við konur sem þóttu karlmannlegar og voru taldar vera í röngum líkama (bls. 15–19).

Faderman gengur úr frá því að rómantísku samböndin hafi ekki verið kynferðisleg, enda var á þessum tíma litið svo á að konur hefðu takmarkaða kynhvöt eða kynlöngun og byggju því ekki yfir kynferðislegri gerendahæfni. Rannsóknir fræðimanna á borð við Julian Carter (bls. 123–129) og Sally Newman (bls. 54–62) hafa þó sýnt að myndin er aðeins flóknari en svo. Þessi ára hreinlífis gerði engu að síður hina rómantísku vináttu mögulega. Við upphaf 20. aldar fór að fjara undan henni vegna samspils ýmissa þátta, eins og Eva Helen Ulvros hefur bent á. Ulvros nefnir eflingu kvennabaráttunnar um aldamótin 1900 í þessu samhengi, en eftir því sem henni óx ásmegin áttu kvenréttindakonur sífellt meira á hættu að karlkyns andstæðingar þeirra stimpluðu þær sem ókvenlegar, ógnandi og óeðlilegar. Þar með var horfið það skálkaskjól sem þær höfðu notið vegna kvenleika síns (bls. 50 og 55). Einnig má nefna að á þessum tíma varð kynfræði til sem fræðigrein. Eitt af viðfangsefnum hennar var að skilgreina og flokka hvers konar kynferðislega hegðun. Samkynhneigð var þar ekki undanskilin og á þessum tíma urðu til nútímahugmyndir um kynhneigð sem óbreytilegt eðli manneskjunnar. Samkvæmt Evu Borgström (og reyndar fleirum) vakti þessi aukna áhersla á kynferði og kynferðislíf, ásamt þeirri opinberu orðræðu sem fylgdi í kjölfarið, upp grunsemdir um að kvenkyns lífsförunautar stunduðu kynferðislegt samlífi (2018, bls. 50; 2016: bls. 21–22).

 

„Þær höfðu því frekar óheftan aðgang að þeim stéttalögum erlendis þar sem sambúð kvenna tíðkaðist.“

 

Engar rannsóknir hafa verið gerðar á birtingarmyndum kvennapara og rómantísku vináttunnar á Íslandi. Við vitum því ekki að hve miklu leyti lýsingin hér að framan á við um íslenskar konur. Þeir lífsförunautar sem fjallað er um hér eiga þó fjölmargt sameiginlegt með þeim konum sem erlendu rannsóknirnar fjalla um; þetta voru kvenlegar konur af borgarastétt sem höfðu átt þess kost að dvelja erlendis meðal stéttsystra sinna. Þær höfðu því frekar óheftan aðgang að þeim stéttalögum erlendis þar sem sambúð kvenna tíðkaðist. Þar að auki voru á Íslandi til staðar félagslegar aðstæður sem voru svipaðar og í Evrópu og ýttu undir sambúð kvenna, t.d. hlutfallslega mikill fjöldi kvenna í þéttbýli sem olli því að erfitt gat verið fyrir borgaralegar konur að finna karlkyns maka af „réttum“ stigum. Einnig má leiða líkur að því að í tilfelli Nínu Sæmundsson hafi listaheimurinn verið rými þar sem hún gat m.a. haldið heimili og deilt lífinu með annarri konu en eins og Hrafnhildur Schram skrifar í bók sinni um hana var listin oft leið fyrir konur til að halda sjálfstæði sínu og skapa sér líf utan hjónabands (bls. 109).

Við höfum enn sem komið er aðeins óljósa mynd af því hvernig viðhorf samfélagsins gagnvart kvenkyns lífsförunautum og rómantískri vináttu kvenna þróaðist á Íslandi. Rannsóknir Ástu Kristínar Benediktsdóttur, Þorsteins Vilhjálmssonar og Þorvaldar Kristinssonar benda til þess að vissulega hafi einhver vitneskja verið um samkynja ástir á Íslandi í upphafi 20. aldar. Hún hafi þó ekki farið hátt og líklega verið markaður staður t.d. í bæjarslúðri. Samkynhneigð og samkynja ástir rötuðu ekki að ráði inn í opinbera orðræðu fyrr en um miðja 20. öld, eins og Ásta bendir á (bls. 148–153). Íris Ellenberger hefur jafnframt sýnt fram á að konur þurftu að bíða enn lengur en karlar eftir að opinber orðræða fjallaði um ástir þeirra sem hluti af veruleika Íslendinga, allt fram á 8. eða 9. áratuginn (bls. 16–22).

Jafnt hérlendis sem erlendis urðu sambönd kvenna af þessu tagi, sem voru leyfileg og þóttu jafnvel æskileg á fyrstu áratugum 20. aldar, smám saman grunsamleg og flokkuð sem tortryggileg, jafnvel afbrigðileg. Sú þróun varð samhliða því að ýmiss konar orðræður um kynlíf, kynhneigðir og kynverund urðu til, margfölduðust og breiddust út. Afmælisgreinarnar sem birtust í Morgunblaðinu á 75 ára afmæli Guðrúnar Jónasson árið 1952 benda til þess að samband hennar og Gunnþórunnar hafi þá þótt óþægilegt í augum sumra, enda minnast greinarnar aðeins á lífsförunaut Guðrúnar sem viðskiptafélaga hennar (bls. 5 og 8). Lárus Sigurbjörnsson, sem ritar um Gunnþórunni í Morgunblaðið 24. febrúar 1959 (bls. 8), og Sigurður Grímsson, sem minnist leikferils hennar í Morgunblaðinu árið 1962 (bls. 4 og 13), gera þó enga tilraun til að leyna þeirri staðreynd að þær voru sambýliskonur og áttu fjölskyldu saman. Það bendir til þess að álitið á slíkum samböndum hafi verið lagskipt og háð aðstæðum og samhengi, því eins og Ásta Kristín Benediktsdóttir bendir á virðist leikhúsgeirinn á Íslandi á þessum tíma hafa verið jákvæðari gagnvart fólki með óhefðbundnar kynhneigðir en ýmsir aðrir kimar samfélagsins (bls. 153–160). Engu að síður ríkti nær algjör þögn um samband Nínu Sæmundsson og Pollyar í íslenskri lista- og menningarumræðu sem sýnir að þótt listaheimurinn hafi mögulega verið rými þar sem hinseginleiki gat þrifist og liðist að einhverju marki var almennt sterk tilhneiging til að þegja um hann og þagga hann niður.

 

„þótt listaheimurinn hafi mögulega verið rými þar sem hinseginleiki gat þrifist og liðist að einhverju marki var almennt sterk tilhneiging til að þegja um hann og þagga hann niður.“

 

Líkt og Polly og Nína bjuggu Despina Karadja og Ingibjörg Ólafsson erlendis allan þann tíma sem þær héldu heimili saman. Þó að sambúð þeirra hafi ekki verið neitt launungarmál innan þeirra kristilegu samtaka sem Ingibjörg starfaði fyrir var hún ekki talin vera ósiðleg, allavega ekki í opinberri umræðu. Orðræða trúarinnar, sem stillti Ingibjörgu og Despinu upp sem sanntrúuðum systrum sem lifðu í guðsótta og kristilegum kærleik, var ekki ósvipuð orðræðu kirkjunnar um nunnur og því órafjarri hugmyndum um rómantískar eða kynferðislegar ástir kvenna. Gunnar Árnason, sem skrifaði minningargrein um Ingibjörgu í Kirkjuritið árið 1962, lýsti til dæmis dauðastund hennar svo: „Hélt þessi trúfasta vinkona [Despina] í hendi Ingibjargar, þegar hún skildi við 5. þ. m. Og mun duft þeirra síðar hvíla hlið við hlið í kirkjugarði þarna í Sussex — þótt margur mundi hafa óskað að líkami Ingibjargar yrði orpinn íslenzkri mold.“ (bls. 276). Slík trúarorðræða var ekki eingöngu bundin við samferðamenn Ingibjargar og Despinu því sjálfar virðast þær hafa notað slíkar hugmyndir til að skilgreina samband sitt. Despina skrifaði til dæmis stutt minningarrit um Ingibjörgu að henni látinni, Ingibjörg Ólafsson. En Minnesbok. Þar segist hún hafa kynnst Ingibjörgu fyrir guðs náð og fengið að deila með henni heimili og vináttu. Enn fremur tekur hún fram að guð hafi gefið þær saman en hvaða skilning hún lagði í þann gjörning er óljóst (bls. 37–38).

Prentaðar heimildir

„Afmælisdagbók“, Frjáls verzlun 14:1–2 (1952), bls. 26. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3149241

„Ánægjulegast að vinna að mannúðarmálum. Samtal og greinar um frú Guðrúnu Jónasson bæjarfulltrúa 75 ára“, Morgunblaðið 8. febrúar 1952, bls. 5 og 8. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1283807

Ásta Kristín Benediktsdóttir, „„Sjoppa ein við Laugaveginn […] hefur fengið orð á sig sem stefnumótsstaður kynvillinga.“ Orðræða um illa kynvillinga og listamenn á sjötta áratug 20. aldar.“ Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir. Reykjavík: Sögufélag 2017, bls. 147–183.

Borgström, Eva, Berättelser om det forbjudna. Begär mellan kvinnor i svensk litteratur 1900–1935. [Útgáfustaðar ekki getið]: Makadam 2016.

Carter, Julian, „On Mother-Love: History, Queer Theory, and Nonlesbian Identity“, Journal of the History of Sexuality 14:1/2 (2005), bls. 107–138.

Faderman, Lillian, Surpassing the Love of Men: Romantic Friendship and Love between Women from the Renaissance to the Present, London: Junction Books 1981.

„Guðrún Jónasson fyrrv. bæjarfulltrúi“, Morgunblaðið 14. október 1958, bls. 8. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1318354

Gunnar Árnason, „Ingibjörg Ólafsson“ Kirkjuritið 28:6 (júní 1962), bls. 276–279. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4740519

„Gunnþórunn Halldórsdóttir leikkona – Minning“, Morgunblaðið 24. febrúar 1959, bls. 12. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1320748.

Hrafnhildur Schram, Nína S. Nína Sæmundsson 1892–1965. Fyrsti íslenski kvenmyndhöggvarinn, Reykjavík: Crymogea 2015.

Ingibjörg Ólafsson. En Minnesbok. Útg. Despina Karadja. Kaupmannahöfn: Bianco Lunos Bogtrykkeri A/S 1962.

Íris Ellenberger, „Lesbía verður til. Félagið Íslensk-lesbíska og skörun kynhneigðar og kyngervis í réttindabaráttu á níunda áratug 20. aldar“, Saga LIV:2 (2016), bls. 7–53.

Newman, Sally, „The Archival Traces of Desire: Vernon Lee’s Failed Sexuality and the Interpretation of Letters in Lesbian History“, Journal of the History of Sexuality 14:1/2 (2005), bls. 51–75.

„Sigríður Zoëga Ijósmyndari – Minningarorð“, Morgunblaðið 29. september 1968, bls. 22. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1397172

Sigurður Grímsson, „Gunnþórunn Halldórsdóttir. Gamlar leikhúsminningar“, Lesbók Morgunblaðsins 13. maí 1962, bls. 4 og 13. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1320748

Þ. Þórðardóttir, „Íslendingaþættir. Sjötíu og fimm ára: Guðrún Jónasson“, Tíminn 8. febrúar 1952, bls. 3. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1015052

Þorsteinn Vilhjálmsson, „Gyðjunafn, skólastýra, vörumerki sjúkdóms. Saffó á Íslandi á 19. og 20. öld“, Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir. Reykjavík: Sögufélag 2017, bls. 59–106.

Þorvaldur Kristinsson, „Glæpurinn gegn náttúrlegu eðli. Réttvísin gegn Guðmundi Sigurjónssyni 1924“, Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir. Reykjavík: Sögufélag 2017, bls. 107–146.

Æsa Sigurjónsdóttir, „Sigriður Zoëga 1889–1968: Icelandic Studio Photographer“, History of Photography 23:1 (1999), bls. 28–35. Slóð: https://www.tandfonline.com/doi/abs/10.1080/03087298.1999.10443794

Æsa Sigurjónsdóttir, „Sigríður Zoëga. Ljósmyndari í Reykjavík“, Sigríður Zoëga. Ljósmyndari í Reykjavík. Ritstj. Inga Lára Baldvinsdóttir. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands, bls. 7–64.

 

Óprentaðar heimildir

506. BR. Einkaskjalasafn nr. 506. Ingibjörg Ólafsson. Slóð: http://www.borgarskjalasafn.is/Portaldata/21/Resources/borgarskjalasafn/skjalaskra/einstaklinga

KSS. 77 Guðrún Jónasson. Einkaskjalasafn. Slóð: https://kvennasogusafn.is/index.php?page=gudrun-jonasson

KSS. 78 Gunnþórunn Halldórsdóttir. Einkaskjalasafn. Slóð: https://kvennasogusafn.is/index.php?page=gunnthorunn-halldorsdottir

Lbs-Hdr. 7 NF. Nína Sæmundsson. Einkaskjalasafn. Slóð: https://landsbokasafn.is/uploads/handritaskrar/N%C3%ADna%20S%C3%A6mundsson.pdf

Vef. Auður Styrkársdóttir, „Kvennasöguslóðir um Þingholtin“, Kvennasögusafn Íslands, skoðað 19. september 2018. Slóð: https://kvennasogusafn.is/index.php?page=thingholtin