1800-1900

Aukin borgaraleg réttindi juku möguleika kvenna á að lifa sjálfstæðu lífi
og búa einar eða með öðrum konum.

Á 19. öld hóf íslenska sveitasamfélagið að breytast í átt að nútímalegri samfélagsskipan. Réttindi kvenna voru áfram mjög takmörkuð á 19. öld en bötnuðu þó nokkuð á síðari hluta hennar. Til dæmis voru sett lög sem gerðu konum kleift að hljóta arf til jafns við bræður sína (1850), ráða fjármálum sínum sjálfar (ef þær voru einhleypar og eldri en 25 ára, 1861) og taka þátt í sveitarstjórnarkosningum (ef þær voru einhleypar eða ekkjur, 1882). Einnig jukust möguleikar þeirra á að sækja sér menntun. Undir lok tímabilsins veitti vaxandi þéttbýlismyndun konum enn fremur aukin tækifæri til að skapa sér sjálfstæða tilveru, t.d. með launavinnu, með því að leigja út herbergi eða taka að sér kostgangara í bæjum landsins, eins og Ólöf Garðarsdóttir og Gísli Ágúst Gunnlaugsson hafa bent á (bls. 437–443).

Líf og tilvera kvenna á þessu tímabili mótaðist enn af gamla sveitasamfélaginu og birtingarmyndir hinseginleika þeirra eru oft keimlíkar því sem við sjáum á 18. öld. Aukin réttindi og möguleikar kvenna til að lifa sjálfstæðu lífi höfðu þó mikil áhrif í þeim efnum, meðal annars vegna þess að þær gátu í ríkari mæli tekið sér stöðu utan við hefðbundna fjölskyldueiningu sveitanna og búið einar eða með öðrum konum í þéttbýli. Við höfum einnig greiðari aðgang að einkaskjölum og persónulegum heimildum frá 19. öld, sér í lagi síðari hluta aldarinnar, sem veita okkur innsýn í líf kvenna og upplýsingar um þeirra eigin upplifanir. Fólk ritaði stundum um kynferðismál í dagbækur og bréf í þeirri trú að ummælin myndu aldrei birtast opinberlega og í slíkum heimildum má stundum finna lýsingar innra lífi og hinsegin tilveru kvenna.

Þrátt fyrir þessa þróun verður að hafa í huga að við eigum erfitt með að fanga hvernig fólk á 18. og 19. öld hugsaði um sjálft sig, langanir sínar, hegðun og sambönd. Vissulega getur hin fjölbreytta flóra af nútímahugtökum sem lýsa kynferði og kynverund fólks hjálpað okkur að geta í eyðurnar og greina þær heimildir sem eru til staðar en líklega mun hinseginleiki kvenna á 19. öld og eðli hans ávallt verða að einhverju leyti á huldu.

Heimildalisti

Gísli Ágúst Gunnlaugsson og Ólöf Garðarsdóttir, „Transition into widowhood: a life-course perspective on the household position of Icelandic widows at the beginning of the twentieth century“, Continuity and Change 11:3 (1996), bls. 435–458. Slóð: https://doi.org/10.1017/S0268416000003489

Erla Hulda Halldórsdóttir. Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850–1903. Reykjavík: Sagnfræðistofnun HÍ, RIKK og Háskólaútgáfan 2011.

Vilhelm Vilhelmsson. Sjálfstætt fólk. Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld. Reykjavík: Sögufélag 2017.

Viðurnefni

Athygli vekur að margar þeirra heimilda sem hér er fjallað um (fyrir aldamótin 1900) fjalla um konur sem höfðu viðurnefnin „graða“ eða „karlmaður“. Þessi viðurnefni lýsa að einhverju leyti samfélagsviðhorfum til kvenna sem þóttu storka hefðum í tengslum við...

Útlönd

Margar af þeim konum sem fjallað er um á þessum vef eiga það sameiginlegt að hafa dvalið erlendis í lengri eða skemmri tíma. Íslendingar ferðuðust fæstir út fyrir landsteinana á 17. og 18. öld og allra síst íslenskar konur. Það var helst á færi örfárra stúdenta og...

Stéttarstaða og hinseginleiki

Þegar saga hinsegin kynverundar kvenna allt fram undir lok 20. aldar er skoðuð kemur glöggt í ljós að nauðsynlegt er að lesa ekki aðeins í þær heimildir sem til eru, heldur einnig velta vöngum yfir þeim heimildum sem ekki eru til staðar og skoða þá hópa sem skildu...

Sjókvenska

Heimildir benda til þess að í gegnum tíðina hafi verið til ýmiss konar rými þar sem konur höfðu tækifæri til að storka eða koma sér hjá því að fylgja hefðbundnum viðmiðum um hegðun, klæðaburð, starfsvettvang og náin sambönd. Á Íslandi má segja að einn af þessum...

Óvenjulegur getnaður og hjálpartæki ástarlífsins

Það er mjög óalgengt að skírskotað sé til kynlífs í heimildum frá 18., 19. og fyrri hluta 20. aldar. Þess vegna vitum við sjaldnast hvort náin vinátta tveggja kvenna hafi verið af kynferðislegum toga eða ekki. Þó er ýmislegt gefið í skyn eða látið felast í hlutarins...

Óeðlilegt vinfengi

Heimildir um nána vináttu og sambönd kvenna á tímabilinu 1700–1900 eru ekki margar og oft óaðgengilegar. Það er helst þegar nær dregur aldamótunum 1900 sem hægt er að finna innsýn í þessi vináttubönd í persónulegum heimildum heldri kvenna í þéttbýli. Konur af öðrum...

Konur í buxum

Mikilvægur hluti af kynverund fólks er það sem er kallað kyntjáning. Þar er átt við það hvernig fólk tjáir kyn og kynvitund sína dags daglega, til að mynda með klæðavali og líkamstjáningu. Sumar af elstu heimildum um Íslandssöguna segja frá fólki sem kaus að tjá kyn...

Graðar, androgynus og tvíkynja

Til eru ýmsar frásagnir af konum sem voru „ekki eins og konur eru gerðar“ og jafnvel lék grunur á að þær væru líkamlega skapaðar eins og karlmenn að einhverju leyti. Enn fremur eru til sögur um konur sem áttu að hafa getið börn með öðrum konum. Engar heimildir hafa...

Eyður

Þegar saga hinsegin kynverundar kvenna allt fram undir lok 20. aldar er skoðuð er nauðsynlegt að lesa ekki aðeins í þær heimildir sem til eru heldur rýna einnig í þagnirnar. Hvaða heimildir voru varðveittar? Hvaða heimildir varðveittust ekki? Var heimildum fargað?...