Athygli vekur að margar þeirra heimilda sem hér er fjallað um (fyrir aldamótin 1900) fjalla um konur sem höfðu viðurnefnin „graða“ eða „karlmaður“. Þessi viðurnefni lýsa að einhverju leyti samfélagsviðhorfum til kvenna sem þóttu storka hefðum í tengslum við kynhlutverk. Þótt merking viðurnefnanna sé yfirleitt neikvæð þóttu eiginleikarnir sem þeir vísa til jákvæðir í sumum tilfellum, t.d. við erfiðisvinnu.
Heimildir sem fjalla um graðar konur og karlkonur eru býsna ólíkar en slíkar lýsingar er að finna í þjóðsögum, munnmælum og sagnaþáttum. Það er því ekki að undra að lýsingarorðið „graða“ sé útskýrt á ólíkan hátt. Það þýðir ýmist að konan hafi verið dugleg, sterk og afkastamikil og jafnoki eða meiri en karlmenn (þjóðsagan af Gröðu-Helgu, Guðrún karlmaður), að hún hafi getið barn með annarri konu (Graða-Helga, Guðrún Sveinbjarnardòttir), eða hafi sofið hjá og átt „óeðlilegt vinfengi“ við aðra konu (Þuríður graða).
„Karlmaður“ er útskýrt á svipaðan hátt: konan er líkari körlum en konum í háttum (Guðrún karlmaður) eða kynferði hennar er talið rangt ákvarðað eða hún er talin hafa barnað aðra konu.
Í nær öllum tilfellum fylgir með að konan hafi verið barnlaus og ógift, skilið við eiginmann sinn eða neitað að giftast. Stundum er greint frá því að konan hafi búið með annarri konu eða átt óvenju náin samskipti við aðra konu.
Orðin graða og karlmaður ná því yfir býsna breitt svið. Þau vísa til líkamlegs kyns og kyneinkenna, kynlífs, hegðunar, útlits, vinfengis, barneigna. Eitt eiga allar þessar tilvísanir sameiginlegt: þær vísa til þess að konurnar hafi verið „ókvenlegar“ og á skjön við hegðun, útlit og stöðu sem konum var almennt ætluð. Í raun segja þessar heimildir okkur kannski ýmislegt áhugavert um hvert kvenhlutverkið var: að giftast, eiga börn, vera líkamlega veikbyggðari en karlar, sinna inniverkum, vera ólík körlum í útliti og hegðun. Þær segja okkur líka sitthvað um samfélagslegt taumhald og hvernig kynhegðun og kyntjáningu var beint í tiltekinn farveg, m.a. með því að uppnefna og þar með stimpla þær konur sem ekki löguðu sig að viðteknum hugmyndum um kvenleika.
Prentaðar heimildir
Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans 1989. Slóð: https://malid.is/
Friðrik Eggerz, Úr fylgsnum fyrri aldar I. Jón Guðnason sá um útgáfuna. Reykjavík: Iðunn 1950.
Gísli Konráðsson, „Jón Einarsson á Sauðá.“ Sjómannablaðið Víkingur 16:6–7 (1954), bls. 142–145. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4231548
Halldór Kristjánsson, „Álftafjarðarheiði“, Tíminn, 21.desember 1962, bls. 8 og 13. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1053221
Íslensk orðabók. 3. útg. Ritstj. Mörður Árnason. Reykjavík: Forlagið 2002. Slóð: https://snara.is/
„Kynjadalur í Ódáðahrauni.“ Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri IV. Jón Árnason. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga 1956, bls. 339–340. Slóð: http://baekur.is/bok/000197670/4/355/Islenzkar_thjodsogur_og_Bindi_4_Bls_355
Málfríður Einarsdóttir, Rásir dægranna. Eftirlátin skrif. Reykjavík: Ljóðhús 1986, bls. 148.
Sigfús Blöndal, Íslensk-dönsk orðabók. Aðalsamstarfsmenn: Björg Þorláksdóttir Blöndal, Jón Ófeigsson og Holger Wiehe. Reykjavík: 1920–1924. Slóð: http://baekur.is/bok/000355266/Islensk-donsk_ordabok
Soffía Auður Birgisdóttir, „Hið „sanna kyn“ eða veruleiki líkamans? Hugleiðingar spunnar um frásögn af Guðrúnu Sveinbjarnardóttur.“ Ritið 17,2 (2017), bls. 39–77.
Handrit
AM AM 433 fol 1. Orðabókarhandrit Jóns Ólafssonar úr Grunnavík. IV hluti.
Lbs-Hdr. Lbs 2367 4to. Sighvatur Grímsson Borgfirðingur, Prestaæfir X. bindi Slóð: https://handrit.is/is/manuscript/view/is/Lbs04-2367 https://image.landsbokasafn.is/source/Lbs_2367_4to/Lbs_2367_4to,_0473r_-_960-hq.pdf https://image.landsbokasafn.is/source/Lbs_2367_4to/Lbs_2367_4to,_0473v_-_961-hq.pdf https://image.landsbokasafn.is/source/Lbs_2367_4to/Lbs_2367_4to,_0474r_-_962-hq.pdf