Heimildir benda til þess að í gegnum tíðina hafi verið til ýmiss konar rými þar sem konur höfðu tækifæri til að storka eða koma sér hjá því að fylgja hefðbundnum viðmiðum um hegðun, klæðaburð, starfsvettvang og náin sambönd. Á Íslandi má segja að einn af þessum vettvöngum hafi verið sjómennska en til eru heimildir um sjókonur sem starfs síns vegna virðast hafa haft visst leyfi til að hegða sér „karlmannlega“, t.d. með því að klæðast „karlmannsfötum“ eða stofna til ástarsambanda við aðrar konur.
Heimildir um sjókonur benda til þess að sjómennska hafi verið rými fyrir óhefðbundna kyntjáningu þar sem konur og annað fólk sem samfélagið áleit kvenkyns gat klæðst fötum sem venjulega voru sett í samband við karla og karlmennsku. Gilti þetta jafnvel þegar konurnar voru ekki við vinnu, eins og sagan um Þuríði formann bendir til. Við vitum í sjálfu sér ekkert um hvernig Þuríðarnar og aðrar sjókonur upplifðu kyn sitt en nokkuð víst er að þær sem yfirleitt gátu og máttu starfa til sjós fengu þar aðgang að rými þar sem þær voru frjálsari til að tjá óhefðbundna kynverund og kynvitund sína, hafi hún verið til staðar, en víða annars staðar. Sagan um Þuríði formann sýnir þó að þetta rými varði þær ekki fullkomlega gegn áreiti og slæmu umtali.
Það er kannski ekki undarlegt að sjómennska hafi verið rými fyrir óhefðbundna kynverund kvenna. Verin stóðu fyrir utan hefðbundið rými fjölskyldunnar og ekki er ólíklegt að þar hafi opnast möguleikar fyrir konur til að stofna til sambanda við aðrar konur eða tjá kynverund sína á óvenjulegan hátt. Starfið, sem var yfirleitt álitið karlmannsstarf, hefur vafalaust lagt sitt af mörkum til þess að þær fengu leyfi til að haga sér, upp að vissu marki, á hátt sem álitinn var karlmannlegur. Í tilviki Þuríðar Einarsdóttur, sem virðist hafa haft róðra að aðalstarfi, hefur sjómennskan einnig veitt henni sjálfstæða innkomu sem hefur gefið henni tækifæri til að fara óhefðbundna leið í lífinu.
Prentaðar heimildir
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi, Sagan af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum. Selfossi: Sæmundur 2010. [Endurprentun á 1. útgáfu, Þjóðólfur 1893–1897].
Friðrik Eggerz, Úr fylgsnum fyrri aldar I. Jón Guðnason sá um útgáfuna. Reykjavík: Iðunn 1950.
Hannes Pétursson, „Gleymd kona og geldsauðir tveir“, Misskipt er manna láni. Heimildaþættir I. Reykjavík: Iðunn 1982, bls. 9–43.
Tíminn – sunnudagsblað, 30. apríl 1972. „Húsið, sem flestir skoða, og konan, sem það er kennt við“, bls. 339–341. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3561174