Stétt
Hvaða áhrif hafði stéttarstaða á möguleika kvenna til að lifa hinsegin lífi og varðveislu heimilda um hinsegin kynverund þeirra?
Stéttarstaða og hinseginleiki fléttast víða saman í þeim heimildum sem hér er fjallað um. Stéttarstaða gat haft mjög afgerandi áhrif á hvaða möguleikar stóðu einstaklingum til boða til að lifa hinsegin lífi. Sum þeirra hinsegin rýma sem við höfum rekist á eru stéttbundin, t.d. kvennahreyfingin og listir, að því leyti að aðeins konur úr efstu samfélagslögunum höfðu aðgang að þeim. Sjómennska var, líkt og listir, ekki aðeins starfsstétt heldur einnig bundin við vissar félagslegar stéttir. Borgaraleg yfirstétt bæjanna eða heldri bændur stunduðu til dæmis ekki sjómennsku heldur var vinnumönnum, og stundum vinnukonum, oftast fengið það hlutverk.
Þegar við hugsum um hinseginleika og stéttarstöðu verðum við einnig að hafa í huga að meiri líkur eru á því að vissra stétta sé getið í eftirheimildum en annarra. Einnig er misjafnt eftir stéttum hversu líklegt er að fólk hafi skilið eftir sig frumheimildir. Það er því ekki að undra að þær konur sem hér er fjallað um séu gjarna í efstu stéttalögunum, þeim lögum samfélagsins sem létu eftir sig flestar persónulegar heimildir og voru, öðrum stéttum fremur, viðfangsefni sagnaritara. Við þurfum því að taka með í reikninginn þagnir og eyður í heimildum um hinsegin kynverund kvenna af lægri stéttum.
Stéttarstaða og hinseginleiki
Þegar saga hinsegin kynverundar kvenna allt fram undir lok 20. aldar er skoðuð kemur glöggt í ljós að nauðsynlegt er að lesa ekki aðeins í þær heimildir sem til eru, heldur einnig velta vöngum yfir þeim heimildum sem ekki eru til staðar og skoða þá hópa sem skildu...