Heimildir benda til þess að í gegnum tíðina hafi verið til ýmiss konar rými þar sem konur höfðu tækifæri til að storka eða koma sér hjá því að fylgja hefðbundnum viðmiðum um hegðun, klæðaburð, starfsvettvang og náin sambönd. Á Íslandi má segja að einn af þessum vettvöngum hafi verið sjómennska en til eru heimildir um sjókonur sem starfs síns vegna virðast hafa haft visst leyfi til að hegða sér „karlmannlega“, t.d. með því að klæðast „karlmannsfötum“ eða stofna til ástarsambanda við aðrar konur.
Elsta sjókonan sem heimildir okkar geta um var Björg Einarsdóttir frá Látrum, kölluð Látra-Björg. Hannes Pétursson getur hennar í fyrsta bindi heimildaþáttasafnsins Misskipt er manna láni sem kom út árið 1982. Björg var uppi á árunum 18. öld (1716–1784) og stundaði sjósókn og önnur vosverk áður en hún gerðist förukona, en í því samhengi minnist Hannes hennar. Þannig lýsir hann henni: „búin sauðsvartri hempu sem tók niður á mitt læri, með hettu á höfði, sauðmórauða, en hnappaskotthúfu þegar hún hafði mest við, kvenna ferlegust ásýndum, mjög hálslöng og hávaxin, og var heldur „ókvenlegt atferli hennar í mörgu“.“ (bls. 13)
„[Hún var] kvenna ferlegust ásýndum, mjög hálslöng og hávaxin, og var heldur „ókvenlegt atferli hennar í mörgu““
Sjókonurnar eru nokkuð fleiri í heimildum sem fjalla um 19. öld. Séra Friðrik Eggerz minnist í æviminningum sínum, Úr fylgsnum fyrir aldar frá árinu 1950, á Þuríði nokkra Jónsdóttur sem kölluð var Þuríður graða. Hún var vinnukona á Ballará í Dalasýslu á fyrri hluta 19. aldar og er skráð þar til heimilis í manntalinu 1816, þá 38 ára gömul. Á þessum tíma voru vinnuhjú á sveitabæjum send til sjávarsíðunnar á vertíðum til að stunda fiskveiðar sem drýgðu tekjur heimilisins. Karlar voru yfirleitt sendir í róðra en þó eru nokkur dæmi um að konur hafi gert slíkt, m.a. Þuríður sem réri út frá Dritvík.
Friðrik getur þess að Þuríður hafi átti „vinkonu sem hét Kristín Einarsdóttir og var einnig vinnukona á Ballará“. Jafnframt má ráða af orðum hans að þær hafi átt í nánu kynferðislegu sambandi því hann lýsir sambandi þeirra þannig að það hafi þótt „nokkuð óeðlilegt“ og að það hafi verið rótin að viðurnefni Þuríðar. (bls. 432) Friðrik getur þess sérstaklega að Þuríður og Kristín hafi ekki átt börn en að þær hafi verið saman meðan þær lifðu og dvalið í Dritvík á vorin.
Nær samtíða Þuríði gröðu var önnur sjókona, Þuríður Einarsdóttir, oftast kölluð Þuríður formaður, en mestallar upplýsingar um hana eru fengnar úr bókinni Sagan af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum (1893–1897) eftir Brynjúlf Jónsson. Brynjúlfur segir frá því að Þuríður hafi í flestu þótt „frábrugðin og einkennileg“. Hún klæddi sig að hætti karlmanna, að sögn, fyrst í stað þegar einungis til hægðarauka við vinnu sína en að lokum klæddi hún sig á þann hátt við flest tækifæri. Þetta háttalag virðist hafa verið samfélagslega samþykkt upp að vissu marki en þó kom fyrir að hnýtt var í hana vegna karlmannlegrar framkomu og hún meðal annars kölluð tvíkynja, eins og segir í grein sem birtist í sunnudagsblaði Tímans 30. apríl 1972.
Þar að auki virðist Þuríður, svipað og nafna hennar Jónsdóttir, hafa átt í nánu vinfengi við aðra konu, vinnukonuna Ingibjörgu en Brynjúlfur lýsir vinskap þeirra á öllu jákvæðari hátt en þremur hjónaböndum Þuríðar sem öll enduðu með skilnaði: „Það vissi Þuríður að Ingibjörg var frábærlega dugleg, og að öllu hin efnilegasta. Hætti hún því eigi fyr við foreldra hennar, en þau ljeðu henni hana fyrir vinnukonu. Fjell þeim mjög vel hvorri við aðra og var Ingibjörg hjá Þuríði, meðan hún bjó í Götu. Þegar Ingibjörg fór frá Götu og gifti sig fór Jón vinnumaður að suða í Þuríði um hjónaband, sem hún lét eftir honum, en sagt var að hún hafi síðan aldrei hleypt honum til rekkju sinnar.“ (bls. 45)
Heimildir um sjókonur benda til þess að sjómennska hafi verið rými fyrir óhefðbundna kyntjáningu þar sem konur og annað fólk sem samfélagið áleit kvenkyns gat klæðst fötum sem venjulega voru sett í samband við karla og karlmennsku. Gilti þetta jafnvel þegar konurnar voru ekki við vinnu, eins og sagan um Þuríði formann bendir til. Við vitum í sjálfu sér ekkert um hvernig Þuríðarnar og aðrar sjókonur upplifðu kyn sitt en nokkuð víst er að þær sem yfirleitt gátu og máttu starfa til sjós fengu þar aðgang að rými þar sem þær voru frjálsari til að tjá óhefðbundna kynverund og kynvitund sína, hafi hún verið til staðar, en víða annars staðar. Sagan um Þuríði formann sýnir þó að þetta rými varði þær ekki fullkomlega gegn áreiti og slæmu umtali.
Það er kannski ekki undarlegt að sjómennska hafi verið rými fyrir óhefðbundna kynverund kvenna. Verin stóðu fyrir utan hefðbundið rými fjölskyldunnar og ekki er ólíklegt að þar hafi opnast möguleikar fyrir konur til að stofna til sambanda við aðrar konur eða tjá kynverund sína á óvenjulegan hátt. Starfið, sem var yfirleitt álitið karlmannsstarf, hefur vafalaust lagt sitt af mörkum til þess að þær fengu leyfi til að haga sér, upp að vissu marki, á hátt sem álitinn var karlmannlegur. Í tilviki Þuríðar Einarsdóttur, sem virðist hafa haft róðra að aðalstarfi, hefur sjómennskan einnig veitt henni sjálfstæða innkomu sem hefur gefið henni tækifæri til að fara óhefðbundna leið í lífinu.
Prentaðar heimildir
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi, Sagan af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum. Selfossi: Sæmundur 2010. [Endurprentun á 1. útgáfu, Þjóðólfur 1893–1897].
Friðrik Eggerz, Úr fylgsnum fyrri aldar I. Jón Guðnason sá um útgáfuna. Reykjavík: Iðunn 1950.
Hannes Pétursson, „Gleymd kona og geldsauðir tveir“, Misskipt er manna láni. Heimildaþættir I. Reykjavík: Iðunn 1982, bls. 9–43.
Tíminn – sunnudagsblað, 30. apríl 1972. „Húsið, sem flestir skoða, og konan, sem það er kennt við“, bls. 339–341. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3561174