Þegar saga hinsegin kynverundar kvenna allt fram undir lok 20. aldar er skoðuð er nauðsynlegt að lesa ekki aðeins í þær heimildir sem til eru heldur rýna einnig í þagnirnar. Hvaða heimildir voru varðveittar? Hvaða heimildir varðveittust ekki? Var heimildum fargað? Hvers vegna og af hverjum?
Almennt getur verið erfitt að finna heimildir um hinsegin kynverund kvenna og þær eru missýnilegar eftir tímabilum. Stundum kemur einnig í ljós að heimildir hreinlega vantar. Eyðan getur verið augljós eins og í tilfelli Ingibjargar Ólafsson (1886–1962). Eins og Svanhildur Óskarsdóttir hefur greint frá var Ingibjörg afkastamikill rithöfundur sem skrifaði greinar og bækur auk þess sem hún skiptist á bréfum við fjöldann allan af fólki. Hún var talsvert á faraldsfæti starfs síns vegna en hún var framkvæmdastjóri KFUK, fyrst í Reykjavík, svo í Kaupmannahöfn og síðan á gjörvöllum Norðurlöndunum. Á Borgarskjalasafni Reykjavíkur eru átta öskjur með bréfum, úrklippum, handritum og ýmiss konar efni úr fórum Ingibjargar. Þar er m.a. að finna fjölda bréfa til og frá fólki víða um heim en athygli vekur að þar eru engin bréf, að undanskildu einu póstkorti, til eða frá Despinu Karadja sem var lífsförunautur Ingibjargar og sambýliskona í tæpa fjóra áratugi. Þó var það Despina sem gaf Borgarskjalasafninu gögn Ingibjargar og því vakna spurningar um hvers vegna þetta tiltekna efni var undanskilið.
„Hennar einkaskjöl eru ekki varðveitt á opinberum skjalasöfnum og því höfum við ekki aðgang að persónulegum vitnisburði um hvaða augum hún leit eigin kyntjáningu og kynverund.“
Katrín Thoroddsen (1896–1970) læknir var alla tíð ógift og barnlaus og ögraði viðteknum kynjahlutverkum með því að klippa hár sitt stutt og klæðast jakkafötum með bindi. Hennar einkaskjöl eru ekki varðveitt á opinberum skjalasöfnum og því höfum við ekki aðgang að persónulegum vitnisburði um hvaða augum hún leit eigin kyntjáningu og kynverund.
Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir segir í MA-ritgerð sinni um ógiftar konur um aldamótin 1900, Misstu þær marksins rétta?, að talað hafi verið um að Ingibjörg H. Bjarnason (1867–1941), sem sat fyrst íslenskra kvenna á þingi, kenndi lengi við Kvennaskólann í Reykjavík og stýrði honum um árabil, hneigðist til kvenna og að sögur hafi gengið um að hún hefði verið í sambandi með Ragnheiði Jónsdóttur skólastýru (bls. 97). Það hefur Sigríður eftir Arndísi Guðmundsdóttur mannfræðingi sem heyrði sögurnar í viðtölum sem hún tók við reykvískar konur. Nafnlausar ábendingar til aðstandenda þessa verkefnis hafa auk þess greint frá því að bréf frá konum í skjalasafni Ingibjargar hafi verið brennd í aðdraganda þess að bók um sögu Kvennaskólans í Reykjavík var rituð en hún kom út árið 1974. Ástæðan var sú að bréfin þóttu ósiðleg. Það fylgir ekki sögunni hvað hafi gert það að verkum að þau hlutu þann dóm og við munum líklega aldrei komast að því. Nokkrar öskjur með gögnum frá Ingibjörgu eru varðveittar á Kvennasögusafni Íslands og sumar þeirra bárust safninu á meðan heimildasöfnun þessa verkefnis stóð yfir. Þær innihalda m.a. áhugaverð bréf frá Ingibjörgu Guðbrandsdóttur, eða Ingibjörgu Brands (1878–1929), sem vitna um heitar tilfinningar hennar í garð nöfnu sinnar.
Óneitanlega vakna spurningar um hvernig eigi að lesa í þessar þagnir og eyður í heimildum sem hér hefur verið greint frá. Meðal þess sem ber að huga að er að persónulegar heimildir eru yfirleitt ekki skrifaðar með það að markmiði að koma fyrir sjónir almennings. Þegar þær eru búnar undir varðveislu eða úrvinnslu, sem oft er árum eða áratugum síðar, er algengt að þær séu dæmdar á mælikvarða þess tíma um siðsemi. Það sem þá þykir ósiðlegt eða óþægilegt er þá gjarnan hreinsað út í þeim tilgangi að vernda orðspor manneskjunnar sem á í hlut. Því má vera að vitnisburðir um tilfinningar og langanir kvenna í garð annarra kvenna, sem áttu sér ákveðinn farveg eða rými innan parsambanda kvenna við upphaf 20. aldar, hafi þótt ósiðlegir hálfri öld síðar og því ekki gerðir opinberir eða aðgengilegir.
Þetta gæti til dæmis átt við skjalasafn Ingibjargar Ólafsson. Við vitum ekki hvaða augum Despina Karadja leit samband þeirra, sem hófst á 3. áratugnum, en það er ljóst að eftir að Ingibjörg lést árið 1962 leit Despina svo á að bréfaskrif þeirra á milli ættu ekki heima á safni. Hún fór ekki leynt með aðdáun sína á Ingibjörgu og hennar verkum og gerði sér far um að viðhalda og varðveita arfleið hennar, til dæmis með því að stofna sérstakan sjóð í hennar nafni. Hún eftirlét handritadeild Landsbókasafns stóra og mikla úrklippubók með greinum eftir Ingibjörgu og gaf auk þess út bók um hana, En Minnesbog. Hvort tveggja ber vott um viðleitni Despinu til að miðla arfleið sambýliskonu sinnar. Þess vegna er áhugavert að velta fyrir sér á hvaða forsendum hún ákvað að halda persónulegu lífi Ingibjargar utan við hina opinberu ímynd hennar.
„Hún fór ekki leynt með aðdáun sína á Ingibjörgu og hennar verkum og gerði sér far um að viðhalda og varðveita arfleið hennar …“
Að sama skapi mætti velta fyrir sér af hverju Katrín Thoroddsen, sem kom úr stórri og vel stæðri fjölskyldu þar sem rík hefð var fyrir bréfaskriftum, lét ekki eftir sig einkaskjalasafn. Hún var þekkt fyrir að ögra viðteknum hefðum um kynhlutverk hvað varðar klæðaburð og framkomu en ekkert er vitað um kynvitund hennar eða kynverund fremur en önnur persónuleg málefni. Áhugavert er að hún var við nám í læknisfræði í tæpt ár árið 1923 við Augusta Victoria Krankenhaus í Berlín á þeim tíma sem kynfræði blómstraði þar í borg undir stjórn læknisins og hinsegin aktívistans Magnúsar Hirschfelds. Katrín var framsækin og róttæk í skoðunum hvað varðar kynferðismál og kynfrelsi kvenna, eins og Kristín Ástgeirsdóttir hefur fjallað um (bls. 29–35), og hefur varla farið varhluta af því umhverfi sem hún var í. Hún hefur því líklega haft aðgang að hinsegin rýmum Berlínar, hafi hún sóst eftir því, en um það vitum við ekkert með vissu þar sem heimildir eru ekki fyrir hendi.
Vitað er með nokkurri vissu að skjalasafn Ingibjargar H. Bjarnason fór í gegnum hreinsun og bréfum úr því var eytt. Sennilega var ástæðan sú að þeir aðilar sem unnu með arfleið Ingibjargar töldu að bréf, til eða frá Ingibjörgu, sem gáfu til kynna rómantískan eða kynferðislegan áhuga á konum myndu sverta mannorð hennar. Í því samhengi skiptir máli að Ingibjörg skipar veigamikinn sess í íslenskri kvennasögu og sögu Íslands á 20. öld, m.a. þar sem hún var fyrsta íslenska alþingiskonan. Sú staðreynd að bréfum var eytt úr safninu liggur þó ekki á lausu. Það var ekki fyrr en aðstandendur þessa verkefnis fóru að bera sig eftir bréfum og öðrum persónulegum heimildum frá Ingibjörgu að í ljós kom að bréfum hefði verið eytt og sum ekki varðveitt með öðrum skjölum hennar. Í þessu samhengi er fróðlegt að velta fyrir sér hversu mörg önnur skjalasöfn, sem geyma persónulegar heimildir nafntogaðra einstaklinga, hafi hlotið sama dóm.
„Það var ekki fyrr en aðstandendur þessa verkefnis fóru að bera sig eftir bréfum og öðrum persónulegum heimildum frá Ingibjörgu að í ljós kom að bréfum hefði verið eytt og sum ekki varðveitt með öðrum skjölum hennar.“
Ásta Kristín Benediktsdóttir hefur bent á að um miðja 20. öld hafi samkynhneigð karla á Íslandi komist inn í opinbera orðræðu en þó yfirleitt sem óhreint, siðspillandi og jafnvel ógnandi fyrirbæri eða hugmynd (bls. 164–168). Hinsegin kynverund kvenna á Íslandi komst ekki inn í opinbera umræðu fyrr en áratugum síðar, líkt og Íris Ellenberger hefur greint frá (bls. 16–22). Ýmislegt bendir þó til þess að hin hugmyndafræðilegu mörk milli vináttu, hegðunar, kynferðis og kynhneigðar kvenna hafi verið að færast til á Íslandi um og upp úr miðri 20. öld og náin samskipti og sambönd kvenna á milli hafi þá þótt ósiðlegri en áður. Því er ekki ólíklegt að þegar verið var að búa heimildir á skjalasöfn, eða taka ákvörðun um að tilteknar heimildir ættu ekki heima á skjalasöfnum, á síðari hluta aldarinnar hafi túlkunarramminn sem skilgreindi hvað væri hinsegin og hvað ekki, hvað væri siðsamlegt og hvað ekki o.s.frv., verið öðruvísi en þegar heimildirnar sjálfar voru skrifaðar. Þannig er sennilegt að tekið hafi verið harðar á upplýsingum og vísbendingum um hinsegin kynverund og hugmyndir um að ekki mætti kasta rýrð á orðspor kvennanna hafa vafalaust legið að baki þegar tekin var ákvörðun um að láta slíkar heimildir ekki rata á skjalasöfn.
Hér þarf einnig að hafa í huga að konur úr efstu stigum samfélagsins voru líklegri til að láta eftir sig persónuleg gögn og gögn þeirra þóttu einnig þess virði að vera varðveitt. Hið sama á alls ekki við um allar aðrar konur og við höfum til dæmis mjög takmarkaðan aðgang að gögnum sveitakvenna, kvenna úr verkalýðsstétt, vinnukvenna til sjávar og sveita og flökkukvenna. Þar eru því stórar eyður í sögunni.
Prentaðar heimildir
Ásta Kristín Benediktsdóttir. „„Sjoppa ein við Laugaveginn […] hefur fengið orð á sig sem stefnumótsstaður kynvillinga.“ Orðræða um illa kynvillinga og listamenn á sjötta áratug 20. aldar.“ Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir. Reykjavík: Sögufélag 2017, bls. 147–183.
Ingibjörg Ólafsson. En Minnesbok. Útg. Despina Karadja. Kaupmannahöfn: Bianco Lunos Bogtrykkeri A/S, 1962.
Íris Ellenberger, „Lesbía verður til. Félagið Íslensk-lesbíska og skörun kynhneigðar og kyngervis í réttindabaráttu á níunda áratug 20. aldar“, Saga LIV:2 (2016), bls. 7–53.
Kristín Ástgeirsdóttir, „Katrín Thoroddsen“, Andvari 132:1 (2007), bls 11–68.
Handrit
506. BR. Einkaskjalasafn nr. 506. Ingibjörg Ólafsson. Slóð: http://www.borgarskjalasafn.is/Portaldata/21/Resources/borgarskjalasafn/skjalaskra/einstaklingar/Ingibjoerg__lafsson_(506).pdf
KSS. 13 og KSS. 2018/17. Ingibjörg H. Bjarnason. Einkaskjalasafn. Slóð: http://einkaskjol.is/index.php/ingibjorg-h-bjarnason-f-1868
Aðrar óprentaðar heimildir
Lbs. Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir, Misstu þær marksins rétta? Ógiftar konur á Íslandi um aldamótin 1900. MA-ritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands 1999.
Vef. Kristín Ástgeirsdóttir, „Fyrst kvenna á þingi,“ Erindi flutt í Alþingishúsinu 8. júlí 2012, Jafnréttisstofa, skoðað 14. febrúar 2019. Slóð: https://www.jafnretti.is/is/um-jafnrettisstofu/greinar/fyrst-kvenna-a-thingi
Vef. Svanhildur Óskarsdóttir, „Fröken Ingibjörg Ólafsson erindreki“, Árnastofnun, skoðað 19. september 2018. Slóð: http://www.arnastofnun.is/page/ingibjorg_olafsson