Erfitt er að segja til um hvenær Íslendingar fóru að nota orð á borð við lesbía, kynvilla, samkynhneigð, tvíkynhneigð o.s.frv. til að lýsa hinsegin konum og kynverund þeirra. Að sama skapi vitum við fátt um upplifun kvenna af slíkum hugtökum á því tímabili sem hér um ræðir, þ.e. fyrir 1960, eða hvort þær samsömuðu sig því sem kalla má lesbíska sjálfsmynd. Ýmis dæmi úr opinberri umræðu og útgefnum textum benda þó til þess að á síðasta hluta þess tímabils sem hér er horft til hafi meðvitund fólks á Íslandi um hinsegin kynverund kvenna og lesbíska sjálfsmynd aukist frá því sem áður var og um leið hafi orðið erfiðara fyrir konur að eiga í nánum vináttusamböndum án þess að vera jaðarsettar á grundvelli kynhneigðar.

 

Á 3. og 4. áratug 20. aldar komu öðru hverju út vísindaleg rit og umfjallanir í tímaritum á íslensku um kynferðismál, „vandamál“ í tengslum við kyn og kynverund fólks og mögulegar lækningar á þeim. Þar á meðal var samkynhneigð sem stundum var talin fæðingargalli en einnig oft áunninn sjúkleiki. Flestallar þessar greinar fjölluðu fyrst og fremst um kynverund karla. Á 5. áratugnum birtust í fyrsta skipti á íslensku umfjallanir um sam- og tvíkynhneigð kvenna í þýddum ritum á borð við Kynferðislífið: Sex háskólafyrirlestrar (1946) eftir J. Fabricius-Møller og Kynlíf: Leiðarvísir um kynferðismál eftir Fritz Kahn (1948). Fabricius-Møller talar um kynvillu og bisexualitas, bæði karla og kvenna, og einnig um lesbíska ást. Hann er fremur jákvæður í sínum skrifum og telur kynvillinga vera ágætt fólk þótt það þurfi vissulega að hafa vald yfir fýsnum sínum – það gildi jú um alla óháð kynhneigð:

„Við verðum að sýna skilning gagnvart kynvillunni, en það er ekki það sama og að finnast hún geðsleg. Kynvillingnum, hvort sem hann er karl eða kona, er það jafn eðlilegt að verða hrifinn af einstaklingi samkynja sjálfum sér, eins og okkur hinum að verða hrifnir af hinu kyninu.” (bls. 246–248)

Kahn fjallar einnig um kynvillu bæði karla og kvenna og telur hana vera afbrigði af ástafari fremur en ósiðlegt athæfi eða óeðli. Hann segir kynvillu vera algenga hjá báðum kynjum en ungum stúlkum sé jafnvel enn hættara en piltum að láta leiðast inn á þá braut þar sem þær eigi oft í nánum samböndum við vinkonur sínar. Þau sambönd fjari hins vegar venjulega út og stúlkurnar taki upp „eðlileg“ sambönd við karlmenn. Vonbrigði sem tengd eru ástalífi og kynnum við karlmenn telur Kahn hins vegar að geti ýtt undir að kynvillan „festist“ – svo og ef stúlkan kynnist eldri og reyndari kynvilltri konu (bls. 229–230).

 

„Kynvillingnum, hvort sem hann er karl eða kona, er það jafn eðlilegt að verða hrifinn af einstaklingi samkynja sjálfum sér, eins og okkur hinum að verða hrifnir af hinu kyninu.“

 

Þorsteinn Vilhjálmsson hefur bent á að undir lok 5. áratugarins virðist notkun orðsins „lesbísk“ hafa breyst á íslensku, í það minnsta á prenti. Fyrir þann tíma var það oft notað almennt til að vísa til grísku eyjunnar Lesbos, þá helst skáldkonunnar Saffóar og ljóðagerðar hennar, en eftir að farið var að fjalla um lesbískar ástir fór orðið fyrst og fremst að vísa til samkynhneigðar kvenna. Ímynd Saffóar rann þannig saman við ímynd samkynhneigðra kvenna og um leið ímynd afbrigðileika, sjúkdóms og úrkynjunar (bls. 82–83). Á sama tíma, árið 1948, birtist orðið „lesbisk“ enn fremur í 2. útgáfu skáldsögunnar Vefarinn mikli frá Kasmír eftir Halldór Laxness en þar segist aðalpersónan, Steinn Elliði, hafa tekið þátt í nætursvöllum þar sem naktar konur „léku lesbiska skrautdansa“ (bls. 149). Í fyrstu útgáfu bókarinnar frá 1927 er hins vegar talað um „sódómiska skrautdansa“ (bls. 192).

Á síðari hluta 7. áratugsins fer orðið lesbía/lesbísk að birtast reglulega í lífsstílstímaritum eða í tímaritum sem lögðu stund á æsifréttamennsku og þá iðulega í tengslum við sjálfsmynd kvenna, þó að umfjöllunin hafi oft verið rætin og fordómafull.

Sjöfn Helgadóttir (1925–2008) sagði frá því í viðtali við Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur í afmælisriti Samtakanna ‘78 árið 2008 að hún hefði verið kölluð kynvillingur á 6. áratugnum þegar hún var á veitingastaðnum Naustinu í Reykjavík með vinkonum sínum:

„Ég kom þarna með vinkonum mínum og við settumst við borð og pöntuðum okkur drykki eins og aðrir. Ég verð vör við eina frú sem er alltaf að gefa mér auga. Allt í einu stendur hún upp og segir við fólkið sem var með henni og passaði að hafa það hátt og snjallt svo allir heyrðu. „Við skulum koma héðan. Mér geðjast ekki að þurfa að sitja á opinberum stað með kynvillingum““ (bls. 11).

Sjöfn áttaði sig snemma á því að hún hreifst af konum en var þunglynd og upplifði sig utanveltu. Hún trúði systur sinni fyrir leyndarmálinu en viðbrögð systurinnar voru að senda hana til læknis, sem gaf henni kvenhormónapillur. „Það læknaði ekki tilfinningar mínar,“ segir Sjöfn (bls. 10). Þetta gerðist líklega upp úr 1940.

Ný hegningarlög tóku gildi á Íslandi árið 1940 en í þeim var fjallað um samkynja kynlíf bæði karla og kvenna og það fellt undir sömu greinar. Áður var „samræði gegn náttúrlegu eðli“ ólöglegt samkvæmt hegningarlögunum frá 1869 en með því var að öllum líkindum átt við samræði tveggja karla, samræði í endaþarm og samræði við dýr – en ekki kynlíf kvenna. Sú staðreynd að nýju hegningarlögin tóku bæði til karla og kvenna gæti gefið til kynna að meðvitund um samkynhneigð kvenna hafi verið búin að festa rætur á Íslandi árið 1940. Þorgerður Þorvaldsdóttir hefur þó bent á að nýju lögin voru nánast beinþýdd upp úr dönsku hegningarlögunum og lítil sem engin umræða fór fram á Íslandi um þann kafla sem sneri að samkynja kynlífi (bls. 127–129). Það er því ekki víst að möguleikinn á því að konur stunduðu kynlíf hver með annarri hafi yfirhöfuð verið færður í orð þótt löggjöfin fæli hann í sér.

Ef marka má opinbera prentaða orðræðu var vitneskja og meðvitund um tilvist samkynhneigðra kvenna og lesbískrar sjálfsmyndar ekki oft færð í orð á Íslandi fyrir 1960 og ekki fjallað um hana ítarlega fyrr en undir lok 5. áratugar 20. aldar – og þá bara á stöku stað. Þær bækur um kynferðismál sem þá komu út og fjölluðu um sam- og tvíkynhneigð kvenna hafa vafalaust átt ríkan þátt í að breiða út meðvitund um þá staðreynd að konur gætu laðast kynferðislega að öðrum konum og að lesbíur og lesbísk sjálfsmynd væri til, þótt vissulega sé ekki ljóst til hversu margra lesenda þessi rit náðu. Áhugavert er að á sama tíma valdi Halldór Laxness að skipta orðinu „sódómiskur“ út fyrir „lesbiskur“ í Vefaranum mikla frá Kasmír en það bendir til þess að honum hafi þótt orðið „lesbísk“ lýsa betur þeim konum (eða dönsum) sem um ræddi. Fyrirbærið lesbía og lýsingarorð því tengd virðast því hafa verið á leiðinni inn í íslenska orðræðu á þessum tíma. Eftir 1960 jókst svo notkun orða sem vísa til lesbía og samkynhneigðar kvenna í íslenskum dagblöðum og tímaritum, eins og hægt er að sjá með því að fletta upp leitarorðum á vefnum Timarit.is, þó fyrst og fremst eftir 1980.

Við höfum heimild um að á 5. áratugnum hafi kona orðið fyrir aðkasti og verið jaðarsett á grundvelli samkynhneigðar fremur en hegðunar eða kynferðis. Frásagnir Sjafnar Helgadóttur benda til þess að um miðja öldina hafi verið litið á samkynhneigð kvenna sem líkamlegan afbrigðileika eða sjúkdóm sem mögulega væri hægt að lækna með hormónagjöf, svo og að samkynhneigðar konur hafi verið af sumum álitnar ósiðlegar og ógeðslegar – í það minnsta vildu ekki allir deila með þeim opinberu rými.

 

„Allt bendir þetta til þess að hin hugmyndafræðilegu mörk milli vináttu, hegðunar, kynferðis og kynhneigðar kvenna hafi verið að færast til á Íslandi um miðja 20. öld.“

 

Allt bendir þetta til þess að hin hugmyndafræðilegu mörk milli vináttu, hegðunar, kynferðis og kynhneigðar kvenna hafi verið að færast til á Íslandi um miðja 20. öld. Lillian Faderman lýsir sams konar breytingum í Evrópu og Bandaríkjunum á fyrstu áratugum aldarinnar í bókinni Surpassing the Love of Men. Hvers kyns tjáning á innilegri vináttu kvenna sem um aldamótin 1900 var talin eðlileg og falleg var tveimur áratugum síðar víða álitin sjúkleg og ósiðleg, segir Faderman, því hún var þá tengd við fyrirbærið samkynhneigð (bls. 297–299). Hugmyndir um kynverund karla voru einnig að breytast og meðvitund um samkynhneigð almennt að aukast á Íslandi um miðja öldina, eins og Ásta Kristín Benediktsdóttir hefur fjallað um, en þróun og áhrif breytinganna á kynin voru þó að öllum líkindum ólík. Hinsegin karlar voru mun meira áberandi í samfélaginu og fordæming í garð samkynhneigðar, sem birtist sterkt í fjölmiðlum á 6. áratugnum, beindist fyrst og fremst að þeim (bls. 173–174). Samkynhneigð kvenna komst aftur á móti ekki inn í opinbera orðræðu af alvöru fyrr en á fyrri hluta 9. áratugar 20. aldar, eins og Íris Ellenberger bendir á (bls. 19–20). Hin almenna vitneskja um tilvist samkynhneigðar hafði þó einnig áhrif á konur. Hugmyndin um að náin sambönd tveggja kvenna séu algeng og jafnvel eðlileg í æsku og unglingsárum en ekki á fullorðinsárum, því þá eigi þær að taka upp „eðlileg“ gagnkynhneigð sambönd og stofna fjölskyldu, kemur til dæmis fram í riti Fritz Kahn árið 1948 og leiða má líkur að því að slík orðræða hafi gert íslenskum konum sífellt erfiðara fyrir að eiga í langtímasamböndum við aðrar konur án þess að vera jaðarsettar á grundvelli kynhneigðar.

Ásta Kristín Benediktsdóttir, „„Sjoppa ein við Laugaveginn […] hefur fengið orð á sig sem stefnumótsstaður kynvillinga“. Orðræða um illa kynvillinga og listamenn á sjötta áratug 20. aldar“, Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir. Reykjavík: Sögufélag 2017, bls. 147–183.

Fabricius-Møller, J., Kynferðislífið: Sex háskólafyrirlestrar. Þýð. Árni Pjetursson. Reykjavík: Þorleifur Gunnarsson 1946.

Faderman, Lillian, Surpassing the Love of Men: Romantic Friendship and Love between Women from the Renaissance to the Present. London: Junction Books 1981.

Halldór Kiljan Laxness, Vefarinn mikli frá Kasmír. 1. útgáfa. Reykjavík: Prentsmiðjan Acta 1927.

Halldór Kiljan Laxness, Vefarinn mikli frá Kasmír. 2. útgáfa. Reykjavík: Helgafell 1948.

Kahn, Fritz, Kynlíf: Leiðarvísir um kynferðismál. Þýð. Hjörtur Halldórsson og Einar Ásmundsson. Útg. Jón G. Nikulásson. Reykjavík: Helgafell 1948.

Þorgerður Þorvaldsdóttir, „Iceland 1860–1992: From Silence to Rainbow Revolution“, Criminally Queer: Homosexuality and Criminal Law in Scandinavia 1842–1999. Ritstj. Jens Rydström og Kati Mustola. Amsterdam: Aksant 2007, bls. 117–144.

Þorsteinn Vilhjálmsson, „Gyðjunafn, skólastýra, vörumerki sjúkdóms. Saffó á Íslandi á 19. og 20. öld“, Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir. Reykjavík: Sögufélag 2017, bls. 59–106.

Þorvaldur Kristinsson, „Glæpurinn gegn náttúrlegu eðli. Réttvísin gegn Guðmundi Sigurjónssyni 1924“, Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir. Reykjavík: Sögufélag 2017, bls. 107–146.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, „Elsta lesbían. Hinsegin veröld sem var“, 30. Afmælisrit Samtakanna ‘78. Reykjavík: Samtökin ’78 2008, bls. 8–11.