Mikilvægur hluti af kynverund fólks er það sem er kallað kyntjáning. Þar er átt við það hvernig fólk tjáir kyn og kynvitund sína dags daglega, til að mynda með klæðavali og líkamstjáningu. Sumar af elstu heimildum um Íslandssöguna segja frá fólki sem kaus að tjá kyn sitt á óhefðbundinn hátt. Auður Magnúsdóttir sagnfræðingur hefur t.d. fjallað um Brókar-Auði í Laxdæla sögu, eiginkonu Þórðar Ingunnarsonar sem Guðrún Ósvífursdóttir lagði hug á. Auður var vænd um að ganga í karlbrókum og þann orðróm notaði Guðrún til að eggja Þórð til að fara frá Auði. Klæðnaður hennar var sagður aðalástæða skilnaðarins: „Þórður nefndi sér votta að hann segir skilið við Auði og fann það til saka að hún skarst í setgeirabrækur sem karlkonur.“ (Laxdæla saga, bls. 96) Hér er klæðaburður Auðar því settur í samhengi við karlmennsku og þar með er hann orðinn skilnaðarsök. Einnig eru til ýmsar heimildir frá nýliðnum öldum um konur sem gengu í buxum (og annars konar fötum sem gjarnan voru tengd við karla) og þær veita forvitnilega innsýn í óhefðbundna kyntjáningu kvenna á þessum tíma.
Þuríður Einarsdóttir formaður (1777–1863) var þekkt fyrir að andæfa hefðbundinni kyntjáningu kvenna og klæða sig að hætti karla. Henni er í heimildum lýst sem „frábrugðinni og einkennilegri“. Ævisöguritari hennar, Brynjúlfur Jónsson, rekur það meðal annars til þess í Sögunni af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum (1893–1897) að hún hafi orðið að haga sér eins og karlmaður á sjónum. Í sunnudagsblaði Tímans árið 1972 er sagt frá því að Þuríður hafi til að mynda snemma byrjað að hafa með sér „haganlega til sniðið“ horn „er hún brá á réttan stað, er með þurfti, svo að hún gæti kastað af sér vatni á þann hátt, er bezt hentaði“ (bls. 340). Síðan byrjaði hún að klæðast að hætti karla til sjós. Í Tímanum segir jafnframt: „Þegar fram í sótti, fór hún einnig að ganga í karlmannsfötum og með karlmannshatt á þurru landi og sækja mannfundi þannig búin, jafnvel í lafafrakka og pípuhatt, þegar hún hafði mikið við.“ (bls. 340) Klæðaburðurinn varð til þess að einn sveitungi Þuríðar kallaði hana „tvíkynja“ en hún stefndi honum að launum fyrir illmælgi (bls. 341).
Í Sögunni af Þuríði formanni segir jafnframt frá því þegar sýslumaður notaði klæðaburð Þuríðar gegn henni í þeim tilgangi að komast að því hverjir hefðu framið rán að bænum Kambi. Hann staðhæfði að hún þyrfti leyfi til að klæða sig á skjön við kyn sitt og kvaðst veita henni slíkt leyfi „ef þú gefur mjer vísbendingu um, hverjir það muni vera, sem rænt hafa í Kambi.“ (bls. 143) Fleiri heimildir eru til um konur sem sóttu um leyfi til að klæðast fötum sem voru yfirleitt notuð af körlum, buxum meðal annars. Á vefnum Íslendingabók.is er haft eftir óskráðum heimildum að Ragnheiður Þóra Elísabet Berthelsen (f. 1884) hafi snemma á 20. öld sent Alþingi bréf til að fá heimild til að „ganga um í karlmannafötum“. Þegar henni var synjað um leyfið flutti hún til Danmerkur. Hvorki bréfið né nokkur lagabókstafur eða reglugerð hefur þó fundist sem kveður á um að konur hafi fram á 20. öld þurft leyfi til að klæðast buxum, nema helst í Biblíunni.
„Af ljósmyndum að dæma gekk hún gjarnan í jakkafötum og var með hárið stuttklippt og greitt aftur að hætti karlmanna á þessum tíma.“
Að minnsta kosti þrjár konur í Reykjavík urðu þekktar fyrir að ganga í „karlmannsfötum“ á fyrri hluta 20. aldar. Það voru þær Katrín Thoroddsen, Katrín Fjeldsted og Kristín Hagbarð.
Bergljót Ingólfsdóttir fjallar í greininni „Konur við stýrið“ frá 1980 um fyrstu konurnar sem fengu ökuréttindi á Ísland. Önnur í röðinni var Katrín Fjeldsted (1887–1968) húsamálari sem starfaði einnig sem bílstjóri um skeið á Overland-bifreið sem hún hafði keypt sér. Hún klæddist alltaf einkennisbúningi við aksturinn, að hætti karlkyns bílstjóra, en einnig má gera ráð fyrir að hún hafi klæðst buxum í starfi sínu sem málari (bls. 5).
Kristín J. Hagbarð (1877–1960) menntaðist sem „línstrokukona“ í Noregi undir lok 2. áratugar 20. aldar og gerðist í kjölfarið athafnakona í Reykjavík. Eins og kemur fram í minningargrein um hana rak hún straustofu á fyrsta áratug aldarinnar en keypti fasteign á Laugavegi 26 árið 1918 þar sem hún starfrækti matvöruverslun allt til ársins 1939. Af ljósmyndum að dæma gekk hún gjarnan í jakkafötum og var með hárið stuttklippt og greitt aftur að hætti karlmanna á þessum tíma (bls. 21).
Katrín Thoroddsen (1896–1970) lauk prófi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1921, hlaut framhaldsmenntun í Noregi og starfaði síðan við lækningar bæði í Kaupmannahöfn og Berlín, sem var á millistríðsárunum þekkt sem miðstöð hinsegin menningar og skemmtanalífs eins og Dagmar Herzog bendir á í ritinu Sexuality in Europe (bls. 56–61). Ef til vill komst hún í kynni við einhvern anga þessarar menningar þar. Ekkert er vitað um það með vissu þótt miklar líkur séu á að hún hafi sem læknir þekkt til Institut für Sexualwissenschaft, en þar fóru fram brautryðjendarannsóknir á kynverund og kynvitund trans fólks og samkynhneigðra eins og Robert Beachy segir frá í bók sinni Gay Berlin (bls. 160–186). Hvað sem því leið klæddist Katrín gjarnan jakkafötum, var með bindi og stutt vatnsgreitt hár að hætti karla.
Af þessum heimildum má ráða að innan karllægra starfsgreina, eins og sjómennsku, bifreiðaaksturs, kaupmennsku og læknavísinda, hafi verið rými fyrir óhefðbundna kyntjáningu kvenna. Það var þó ekki ótakmarkað því eins og greina má á sögu Þuríðar formanns gerðu meðborgarar hennar athugasemdir þegar hún hóf að ganga í „karlmannsfötum“ og með hatt dagsdaglega. Sjókonur voru því einnig undir áhrifum þess félagslega taumhalds sem beindi konum að vissum klæðnaði en frá öðrum.
Það er jafnframt áhugavert að a.m.k. tvisvar skuli vísað til opinberra laga og reglna um klæðaburð án þess að nokkur ummerki finnist um slíkt. Það bendir til þess að svo sterkar hefðarreglur hafi gilt um ólíkan klæðaburð karla og kvenna að fólk hafi ályktað að um það giltu formleg lög eða reglugerðir.
Á fyrstu áratugum 20. aldar fór að losna aðeins um ríkjandi hefðir í klæðaburði kvenna. Líkt og Kristín Ástgeirsdóttir rekur í grein um Katrínu Thoroddsen í Skírni frá árinu 2007 öðlaðist hugmyndin um „nýju konuna“ auknar vinsældir í kjölfar þess að sífellt fleiri konur öfluðu sér menntunar og stunduðu launavinnu við hlið karla. Nýja konan var sjálfstæð og frjáls, félagi karlmannsins en ekki undirokuð af honum. Í þessari hugmynd gat einnig falist ákveðin uppreisn gegn hefðum í útliti og klæðaburði. Konur klipptu hárið stutt og gengu ýmist í stuttum kjólum eða buxum (bls. 23). Klæðaburður Katrínar Fjeldsted, Katrínar Thoroddsen og Kristínar J. Hagbarð var því upp að vissu marki í samræmi við samfélagslega samþykktar hugmyndir. Þó má segja að Kristín og Katrín Thoroddsen hafi gengið skrefinu lengra með því að klæðast jakkafötum með bindi. Um báðar þessar konur gengu sögur þess efnis að þær hefðu rómantískan eða kynferðislegan áhuga á konum. Það er þó ekkert staðfest í þeim efnum og því ekki ljóst hvort sögurnar endurspegli raunveruleikann eða séu fyrst og fremst til vitnis um hvernig karlmannlegt útlit eða kyntjáning var túlkuð eftir að Íslendingar (a.m.k. Reykavíkingar) urðu almennt meðvitaðir um tilvist samkynja langana og ásta.
Prentaðar heimildir
Auður Magnúsdóttir, „Móðir, kona, meyja. Um karlalegar konur og kynlausar meyjar á miðöldum.“ Íslenska söguþingið 2002, ráðstefnurit I. Ritstj. Erla Hulda Halldórsdóttir. Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Sagnfræðingafélag Íslands og Sögufélag 2002, bls. 83–92.
Beachy, Robert, Gay Berlin. Birthplace of a Modern Identity. New York: Vintage Books, 2014.
Bergljót Ingólfsdóttir, „Konur við stýrið“, Lesbók Morgunblaðsins 26. janúar 1980, bls. 4–5.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi, Sagan af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum, Selfoss: Sæmundur 2010. [Endurprentun á 1. útgáfu, Þjóðólfur 1893–1897].
„Húsið, sem flestir skoða, og konan, sem það er kennt við“, Tíminn – sunnudagsblað, 30. apríl 1972, bls. 339–341. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3561174
Kristín Ástgeirsdóttir, „Katrín Thoroddsen“, Skírnir 132 (2007), bls. 11–68.
„Kristín J. Hagbarð“, Morgunblaðið, 18. Mars 1960, bls. 21. Slóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1327573
Laxdæla saga, Íslenzk fornrit V, Ritstj. Einar Ól. Sveinsson, Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag 1934.
Óprentaðar heimildir
Vef. Íslendingabók, „Ragnheiður Þóra Elísabet Berthelsen, f. 6. ágúst 1884“, Íslensk erfðagreining ehf. og Friðrik Skúlason ehf., skoðað 13. september 2018, https://islendingabok.is/